Laugardagur 10.3.2012 - 20:53 - Lokað fyrir ummæli

Hvað verður um Guð?

 

Síðan biskupsdögum Péturs Sigurgeirssonar lauk hefur fækkað jafnt og þétt í Þjóðkirkjunni á Íslandi.  Þetta er ekki séríslenskt fyrirbrigði.  Hliðstæð  þróun hefur verið á Norðurlöndum og í Evrópu. Hún byrjaði seinna hér en virðist vera hraðari.  Fólk hefur minni trú á tilvist almættisins en áður.  Segja má að veraldarhyggjan hafi byrjað með raflýsingunni og sér ekki fyrir endann á.  Vísindin lýsa heiminn sífellt betur upp. En trúin hefur ekki horfið eða farið. Hún virðist eiga sinn fasta bústað í höfði mannanna. En framtíðin er heillandi. Vísindin munu áfram fást við gátuna  um heiminn sem er um leið gátan um Guð því hann verður þarna eins lengi og mennirnir.  Við munum hins vegar aldrei komast að því hvað verður um hann þegar mennirnir eru farnir.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 10.3.2012 - 16:25 - Lokað fyrir ummæli

Samfylking til fyrirmyndar!

Samfylkingin er ekki fyrsti íslenski stjórnmálaflokkurinn sem setur sér siðareglur, en gerir það nú.  Siðareglur eru nauðsynlegar í stjórnmálum sem ekki eiga með nokkrum hætti að vera umbúnaður um spillingu.  Siðareglur Samfylkingarinnar lýsa grunngildum jafnaðarstefnunnar – frelsi, jafnrétti og samábyrgð – og ber ráðherrum, þingmönnum, sveitarstjórnarfulltrúum og öðrum sem starfa í nafni Samfylkingarinnar að hafa í heiðri í störfum sínum.  Skref frammávið Samfylking.  Heiðarlegt fólk á skilið heiðarlega stjórnmálaflokka.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 4.3.2012 - 21:42 - Lokað fyrir ummæli

Framboð Ólafs vatn á myllu Samfylkingar?

Framboð sitjandi forseta kynni að styrkja núverandi stjórnarflokka. Íslendingar hafa  haft tilhneigingu til að kjósa forseta sem er í pólitískum skilningi af annarri jarskorpu en ríkjandi stórnvöld.  Þetta er vel þekkt fyrirbrigði víða um heim þar sem stjórnskipun gefur  þann möguleika. Sé þannig litið á Ólaf sem öryggisventil gagnvart ákvörðunum ríkjandi meirihluta á Alþingi kynni þess að gæta í næstu alþingiskosningum að  kjósendur leiti með sama hætti öryggisventla gegn ÓLAFI. Stjórnarflokkarnir og þá sérstaklega Samfylkingin ættu að hagnast á þessari tilhneigingu.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 4.3.2012 - 10:51 - Lokað fyrir ummæli

ESB, eina þjóðlega leiðin!

Ef ég væri ekki svona orðvar myndi ég saka forystu Framsóknarflokksins um ábyrgðarleysi, popúlisma og það sem þeir sjálfir myndu telja alvarlegast óþjóðlegheit. Flokkurinn í mynd óreynds formanns síns stekkur milli heimsálfa og biður um að fá að taka upp myntir þjóðanna, fyrst var það Noregr nú er það Kanada. Allir vita að sjálfstæð  þjóð hagar sér ekki með þessum hætti. Eða sjá menn Dani fyrir sér fara bónarveg til Norgs að fá að taka upp Norsku krónuna? Sjá menn Svía eð Hollendinga biðla til Kanadmanna um að fá að taka upp þeirra mynt? Nei, þessi  ríki eru sjálfstæð og myndu aldrei leggjast svona lágt enda myndi reisn þeirra og sjálfstæði bíða hnekki í vitund heimsins og þar með í raun.

Með ónýta krónu og þar með slitna brynju, klofinn skjöld og brotið sverð, svo  einkunnir Bólu- Hjálmars séu notaðar, eru Íslendingar ekki fullvalda.  Eina leiðin til þess að endurheimta fullveldið Og komast á sama stall  og Danir, Sviar og Hollendingar er að ganga  í ESB og taka upp evru. Það er sannast sagna eina þjóðlega leiðin, eina leiðin sem er samboðin sjálfstæðri íslenski þjóð.

(Hægt er að kommentera á færsluna inn á facebook)

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 3.3.2012 - 07:37 - Lokað fyrir ummæli

Fjársoltinn mannréttindadómstóll!

Áður  fyrri var maður alfarið  stolur af nafni sínu. Manns helsti nafni var Baldur hinn góði ás sem drepinn var af hinu geðstirða íhaldi í mynd Loka.  Baldur var algóður KRTSGervingur segir fína guðfræðifólkið. Nú opnar maður  ekki svo netmiðil án þess að við blasi fyrirsagnir um að ,,Baldur“ sitji inni eða hafi verið þátttakandi í svikum þó að nafni minn hafi svo sem ekki gert sekur um neitt annað en að vera innmúraður og innvígður. Vonandi i sér Mannréttindadómstóllinn í gegn um óréttlætið en kynni að koma niður á nafna að dómstóllinn býr við fjársvelti og afgreiðir mál seint og vísar frá flestum. Kemur  nú vel á vondan eða illa á góðan að Ísland í mynd stjórnvaldsins Björns Bjarnasonar hefur verið í hópi þeirra ríkja sem ekki hafa stutt aukin fjárframlög til stólsins og ekki stutt tillögur er bæta mundu virkni hans.  Réttlæti handa nafna dregst því og getur hann m.a. kennt um innmúruðum vinum sínum og er óhætt að tala um bjarnargreiða í þeim efnum.

 

Hægt er að lýsa ánægju með þessa færslu á facebook. Illfygli afþökkuð.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 1.3.2012 - 11:09 - 4 ummæli

Biskup með réttlátt, óspillt hjarta!

Framboðsfrestur til biskups runninn út.  Nýs biskups bíða mikilvægari verkefni en nokkur biskup í seinni tíð staðið frammi fyrir.  Á næstu misserum verður tekist á um hvort að Þjóðkirkjunnar verði getið í stjórnarskrá og hvort hún verði áfram þjóðkirkja.  Næsti biskup verður að lifa við þá staðreynd að ekki er hægt að ganga að því sem vísu að fólk sé í þjóðkirkjunni.  Næsti biskup fær það mikilvæga verkefni að stýra kirkjunni inn í fjölmenningarsamfélagið eða mannréttindasamfélagið vil ég segja þar sem mismunun á milli fólks á grunni uppruna, trúar, kyns eða kynhneigðar verður ekki liðinn.   Biskup, hún eða hann,  þarf að vera hæfur til þess að taka þátt i umræðu um samspil vísinda, menntunar og trúar, um rétt og rangt, um sannleika og lygi.  Réttlátt, óspillt hjarta þarf að tifa í brjósti hans.  Hann þarf að ná þeirri stöðu meðal lýðsins að á hann sé hlustað.  Fólk þarf að rumska lítið eitt þegar hann kveður sér hljóðs.  Hann þarf að gera grátið með grátendum og fagnað með fagnendum og prestar og annað kirkjufólk þarf að akta hann (biskupinn).

(Hægt er að kommetntera á pistilinn á facebook)

 

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 28.2.2012 - 14:14 - 4 ummæli

Aðildarferlið sjálft gagnast okkur!

Hrunið sýndi fram á mikilvægi þess að taka til í íslenskri stjórnsýslu, betrumbæta löggjöf og taka upp fagleg vinnubrögð.  Aðildarferlið að ESB ætti að styrkja okkur á öllum þessum sviðum.  Það ferli ætti að leiða til þess  að vinnubrögð okkar og regluverk færist í áttina að því sem er með nágrannaþjóðum og þá hefur strax mikið áunnist. Aðild yrði síðan til að styrkja okkur á komandi tíð bæði í efnislegu tilliti og félagslegu.  En það er önnur saga.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 27.2.2012 - 14:09 - 15 ummæli

Lög sem banni mismunun!

Þar sem of fáir sjá hið sögufræga og vel skrifaða blað Morgunblaðið set ég grein sem ég fékk birta þar einnig hér.

,,Innan Evrópuráðsins er nefnd ECRI (European Commision against Racism and Intolerance) sem aðildarrríki Evrópuráðsins settu á laggirnar fyrir miðjan tíunda áratug síðustu aldar í þeim tilgangi að halda vakandi baráttunni gegn kynþáttafordómum Nefndin byggir stefnumótun sína á Mannréttindasáttmála Evrópu, öðrum mannréttindasáttmálum og dómum Mannréttindadómstóls Evrópu sem aftur vitna stöðugt oftar í skýrslur ECRI. Allar álitsgerðir ECRI fara um ráðherranefnd Evrópuráðsins, hennar æðstu stofnu. Þar sitja utanríkisráðherrar landa eða staðgenglar þeirra. Í okkar tilfelli Berglind Ásgeirsdóttir sendiherra í París.

Starf ECRI hefur einkum farið í þann farveg að gera úttekt stöðu mála í einstökum ríkjum. Þessar úttektir eru sambland af gagnaúrvinnslu, yfirferð á lögum og reglum og viðtölum við stjórnvöld og ekki síður viðtölum við mannréttindafólk þ.e. fólk sem sinnir mannréttindum óháð ríkisvaldi. Þannig komast stjórnvöld síður upp með fagurgala um ástand mála, löggjöf og framkvæmd laga.

Að sjálfsögðu hefur byggst upp innan nefndarinnar þekking á því hvað hefurf reynst vel. Reynt er að kynna fyrir ríkisstjórnum úrræði sem reynst hafa vel í öðrum ríkjum. Fjórða skýrslan um Ísland kom út í vikunni. Í henni má lesa hvað stjórnvöld sögðu um ástand mála og einnegin hvað mannréttindafólk hafði að segja. Thomas Hammerberg mannréttindafulltrúi Evrópuráðsins var hér á ferð nýlega og hvatti Íslendinga að setja í lög bann við mismunun. Í skýrslu ECRI lesum við að slík löggjöf sé í undirbúningi hjá íslenskum stjórnvöldum. Þá kemur fram í skýrslunni að lagafrumvarp um aðlögun innflytjenda sé í smíðum. Einnig að unnið sé að því að bæta reglur um hælisleitendur. Viss atriði valda ECRI þó áhyggjum: Ísland hefur enn ekki komið á fót sérhæfðu embætti sem hefur það hlutverk að sporna gegn kynþáttafordómum og áhyggjur eru af staðsetningu Fjölmenningarseturs en það er á Ísafirði Áhyggjur eru af því að fjölmiðlar tilgreini iðulega ríkisfang einstaklinga sem grunaðir eru um afbrot enda þótt það hafi enga þýðingu varðandi málið. Gagnrýnt er að á einni sjónvarpsstöð og á nokkrum vefsíðum tíðkist að hafa fjandsamleg ummæli um múslima. Vakin er athygli á því að múslimar hafi ekki fengið leyfi til að byggja mosku þó að umsókn um það hafi verið til meðferðar í yfir tólf ár.

 Þrjú megin tilmæli ECRI eru: ECRI hvetur stjórnvöld eindregið til að ljúka gerð frumvarps til laga um bann við mismunun. Þá hvetur ECRI stjórnvöld eindregið til þess að veita samfélagi múslima leyfi til að byggja moskur svo þeir geti iðkað trú sína eins og þeir hafi rétt til samkvæmt 9. grein mannréttindasáttmála Evrópu og ECRI ítrekar fyrri tilmæli sín um að ákvæði verði tekið upp í hegningarlög sem mæli sérstaklega fyrir um að meta beri það til refsihækkunar ef kynþáttafordómar liggja að baki broti. Og skilgreiningin á Kynþáttafordómum: ,,kynþátta” fordómar eru það viððhorf að ,,kynþáttur”, hörundslitur, tungumál, trú, þjóðerni, ríkisfang eða uppruni réttlæti fyrirlitningu á manneskju eða hópum.” Og að gæsalappirnar eru vegna þess að óglöggt er hvort rétt sé að greina menn upp í kynþætti en félagslega og sálfræðilega og menningarlega eru þeir til staðar.“

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 24.2.2012 - 11:26 - 47 ummæli

Passíusálmar og gyðingahatur!!

Eg sé hjá Agli Helga og Vilhjálmi Erni Vilhjálmsyni að Wiesenthal stofnunin hefur ritað Páli Magnússyni bréf og krafist þess að Passíusálmarnir væru ekki lesnir í útvarp því að þeir væru uppfullir af gyðingahatri. Sem er alveg rétt.  Hallgrímur leggr það upp þannig að Gyðingar hafi drepið Jesú  og komandi kynslóðum muni hefnast fyrir. Og auðvitað skilar þetta  sér í fordómum.  Þeir sem efast um það minna mig á þöngulhausa sem halda því fram að auglýsingar  hafi ekki  áhrif.

Það er svo aftur annð mál að bôkmenntir 17. 18. og 19.  Aldar eru sneisafular af kynþáttafordómum enda var akurinn fyrir Hitler rækilega plægður á þessum árum.  Við getum ekki afneitað þessum bókmenntarfi sem er snar hluti af okkur sjálfum en eigum alltaf eins og alltaf þegar við sjáum eitthvað ljótt að vara börn við.  Og sem betur fer  sakar það börn ekki mikið sem sagt er á Rás 1 eftir 10.  Hlustendur flestir á hinum endanum og stimpl a sig óðum út.

Atugasemdir Wiesental stofnunrinnar eru samt þess virði að á þær sé hlutað. Allt í kringum okkur hoppa nýnasistar  úr örmum sögulausra mæðra og plægja akurinn fyrir framtíð mannhaturs.

 

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 22.2.2012 - 15:45 - 1 ummæli

ECRI: Útlendingalög uppfylla ekki alþjóðleg viðmið!

ECRI gagnrýnir málsmeðferð gagnvart hælisleitendum þrátt fyrir breytingar sem urðu á árunum 2009 og 2010.  Nýju ákvæðin segir ECRI nokkuð flókin og skortir skýrleika.  ECRI ítrekar fyrri tilmæli um að hælisumsækjendum verði gert kleyft að kæra ákvarðanir um hælisumsóknir til óháðs og óhlutdrægs úrskurðaraðila., Harmað er að ekki skuli vera breytingar á 45. grein Útlendingalaga sem ECRI telur að brjóti í bága við 33. gr. 2. málsgrein flóttamannasamnings Sameinuðu Þjóðanna.  Um er að ræða  hvenær endursenda megi fólk til svæða þar sem líf þess er í hættu. Flóttamannasamningurinn segir ALDREI.  Íslensk lög gefa undantekningu.  Það má ef……. Fleira samræmist ekki alþjóðlegum viðmiðunum. Undarlegt að Íslensk stjórnvöld sem höfðu þó fyrir því að breyta ósanngjörnum lögum skuli ekki ganga alla leið og breyta lögum í samræmi við sáttmála og meðmæli Evrópuráðsins sett fram í tvígang. Er skýringin sú að óreyndir ráðherrar og fylgifiskar þeirra leita bara ráða hjá íhaldssömum lögfræðingum en ekki hjá mönnum eins og mér?

Flokkar: Óflokkað

Höfundur