Föstudagur 03.06.2011 - 22:38 - FB ummæli ()

Dómur er fallinn, og hún er ljót!

Ég hef reynt, ég má eiga það.

Ég hef gefið henni hvern þann séns sem ég hef getað.

Enda er það mála sannast að ekki get ég breytt henni.

Og ég þarf að sitja uppi með hana þangað til ég dey.

Því er eins gott að ég sætti mig við hana.

En ég hef sem sagt reynt að ganga lengra.

Ég hef reynt að láta mér þykja hún falleg.

En nú get ég ekki orða bundist lengur.

Eftir að hafa gengið niður í bæ áðan og virt hana fyrir mér einu sinni enn, og hugsað með sjálfum mér:

„Er hún ekki bara falleg, ha? Ha??“

Þá hlaut ég að svara loksins sjálfum mér afdráttarlaust:

Nei.

Hún er ekki falleg.

Hún er ljót.

Harpa.

Hún er ljótt, klunnalegt og óskiljanlegt hús.

Og hún passar einstaklega illa inn á þann stað þar sem henni var troðið.

Þetta segi ég alveg burtséð frá forsögu hússins, eða væntanlegri starfsemi í því.

Auðvitað vona ég að öll sú starfsemi gangi frábærlega, og það eru vissulega allar líkur á að við svo góða aðstöðu verði brugguð frábær tónlist.

Vonandi verð ég þarna sjálfur tíður gestur að láta syngja fyrir mig eitthvað fallegt.

En húsið að utan … nei, því miður, það er ljótt.

Ég er margoft búinn að sannreyna það að þegar maður kemur keyrandi Sæbrautina og sér Hörpuna nálgast, þá dettur mér að minnsta kosti aldrei neitt annað í hug en:

„Þarna er skakkur kassi.“

Ég leiði aldrei hugann að glerinu, birtunni, einhverjum fínni blæbrigðum … nei, þetta er bara skakkur kassi.

Og héðan neðan úr miðbænum er Harpa líka bara eins og risastór glerstykki sem er óskiljanlegt að sé þarna niðurkomið.

Og það versta er að það er ekkert gaman að horfa á þetta hús.

Þegar falleg eða ljót hús eru annars vegar, þá hugsa ég stundum til Ráðhússins í Reykjavík.

Mér finnst það í rauninni alls ekki fallegt hús.

Ekki í sjálfu sér.

Og það passar áreiðanlega illa inn í sitt umhverfi, þannig séð.

En samt er Ráðhúsið einhvern veginn þannig teiknað að það er gaman að horfa á það. Það er fjölbreytilegt, sumt er skrýtið, annað skondið – augað hefur alltaf eitthvað að dvelja við, hugurinn getur alltaf eitthvað spekúlerað í því húsi.

Svo nú gæti ég ekki hugsað mér neitt annað hús þar í Tjarnarhorninu en einmitt Ráðhúsið.

Auðvitað er ekki útilokað að Harpi eigi líka eftir að venjast vel.

En ég er ansi smeykur um ekki.

Því það er nákvæmlega ekkert gaman að horfa á hana.

Það er bara þarna þessi stóri glerkassi. Púnktur.

Og þessi stóri glerkassi er búinn að taka frá okkur Esjuna þegar við horfum úr miðbænum út á sundin blá.

Esjan gægist þarna á milli auðvitað, Hörpu og Seðlabankans (!), en glerflöturinn er svo yfirþyrmandi stór að hann dregur alla athygli frá Esjunni.

Samt er þessi flötur ekkert fallegur, ekkert skemmtilegur, ekkert athyglisverður.

Já, því miður – þetta er mín niðurstaða.

Nauðugur viljugur hlýt ég að endurtaka:

Harpa er ljót.

Ansans!!

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!