Föstudagur 03.06.2011 - 20:07 - FB ummæli ()

Hver er þörfin?

Gunnar Smári Egilsson er og verður umdeildur maður fyrir ævintýri sín í fjölmiðlaheiminum hér fyrr á árum, en það blandast engum hugur um að hann getur verið fjári skarpskyggn.

Nú er hann orðinn formaður SÁÁ  og má búast við að hann berjist skörulega fyrir málstað samtakanna.

Í seinni hluta þessa pistils hér á heimasíðu SÁÁ skammast hann yfir þeim sparnaði sem samtökunum er gert að taka á sig, og talar þar eins og heitfengur forstöðumaður – svo sem honum er auðvitað ætlað. Og það er vissulega afar auðvelt að færa rök fyrir því að stjórnvöld ættu ekki að þjarma um of að SÁÁ þótt á móti blási í samfélaginu um skeið.

Menn þurfa ekki að skrifa upp á hvern einasta punkt eða prik í heimspeki SÁÁ til að viðurkenna að þessi samtök hafa unnið ómetanlega gott starf undanfarna áratugi.

Fyrri hluti pistilsins er þó kannski merkilegri.

Þar tætir GSE í sig síauknar ávísanir á rítalín til fullorðinna, og varpar fram miklum efasemdum um skilgreininguna á ofvirkni og athyglisbresti, ADHD, sem hefur orðið svo „vinsæl“ á síðustu árum.

Með tilheyrandi lyfjagjöf – og lyfin seytla síðan út í samfélagið, þar á meðal til „venjulegra“ eiturlyfjafíkla.

Með skelfilegum afleiðingum.

GSE fer ekki beinlínis blíðum höndum um Grétar Sigurbergsson geðlækni.

En um leið og við könnum hvaða læknar ávísa mest af rítalíni og hvernig sé hægt að koma í veg fyrir beina misnotkun í skúmaskotum dópista, þá eigum við líka að velta vöngum yfir því hver hin raunverulega þörf sé.

Grein GSE er ágætt innlegg til þess.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!