Ég er vinur lögreglumanna.
(Allra nema ríkislögreglustjóra, sem mér finnst að ætti að sjá sóma sinn í að snúa sér að einhverju öðru.)
Almennir lögreglumenn hafa undantekningarlaust reynst mér vel þegar ég hef þurft að leita til þeirra, og mér finnst í rauninni að ásamt störfum í menntakerfi og heilsugæslu séu löggæslustörf einhver þau mikilvægustu í samfélaginu.
Ég styð þess vegna eindregið að lögreglumenn fái mannsæmandi laun fyrir sín erfiðu störf.
En eins og aðrir geta lögreglumenn líka lent á hálum ís.
Ég tek til dæmis fullkomlega undir það hjá Guðmundi Andra Thorssyni hér að það var MJÖG undarlegt að heyra Landssamband lögreglumanna „harma“ það að lögreglumenn skyldu eiga að vera „mannlegur skjöldur milli þings og þjóðar“ við þingsetningu.
Alveg sama hvaða skoðun maður hefur á þinginu og þingmönnum, þá er eiginlega svo súrrandi vitlaust að lögreglumenn líti þannig á varðgæslu sína við þingsetningu að sá lögreglumaður sem „harmar“ það ætti eiginlega líka að drífa sig í annað starf.
Því það er jú einn meginhluti af starfi lögreglumanna að gæta öryggis fólks, þar á meðal þingmanna.
Eins og Guðmundur Andri segir: „Þetta er óneitanlega hátimbrað orðalag og athyglisvert að eggjakösturum skuli hlotnast sú upphefð í túlkun lögreglunnar að vera hvorki meira né minna en „þjóðin“. Í raun táknar yfirlýsingin að lögreglumenn harma það að hafa þurft að verja borgara þessa lands fyrir árásum ofbeldisseggja. Hvað er þeim eiginlega kennt þarna í Lögregluskólanum?“
Sumt annað sem einstakir lögreglumenn hafa látið frá sér fara í fjölmiðlum undanfarið hefur líka orkað tvímælis.
Ég varð til dæmis mjög hugsi yfir því þegar einn lögreglumaður nefndi það sem dæmi um hvað lögreglustarfið væri erfitt (og ætti því að vera vel launað) að hann hefði þurft að halda í hendina á deyjandi strák eftir umferðarslys.
Hann nefndi bæði aldur drengsins og hvar þetta gerðist, svo þeir sem til þekktu hafa vafalaust strax vitað um hvaða dreng var að ræða.
Ég veit það ekki – ég ítreka að ég er vinur lögreglumanna, en ef ég hefði verið faðir þessa drengs hefði ég ekki kosið að hann skyti upp kollinum í fjölmiðlum sem partur af kjarabaráttu lögreglumanna.
Sama hversu þakklátur ég væri viðkomandi lögreglumanni fyrir að hafa sýnt drengnum hlýju.
Lögreglumenn eru ekki vanir að standa í kjarabaráttu. Kannski má kenna reynsluleysi þeirra um ýmsar ankannalegar fullyrðingar sem frá þeim hafa komið.
Ég vona þó umfram allt að málið leysist sem fyrst og lögreglumenn fái sín mannsæmandi laun, svo sem þeir eiga skilið.