Fimmtudagur 03.11.2011 - 17:38 - FB ummæli ()

Þá höfum við ekkert við Hönnu Birnu að gera

Ég heyrði áðan viðtal við Hönnu Birnu Kristjánsdóttur í Síðdegisútvarpi Rásar tvö.

Mér hefur hingað til litist bara býsna vel á Hönnu Birnu. Hún er sköruleg, sem stundum er kostur, og hún hefur í sinni borgarmálapólitík sýnt á ýmsan hátt viðleitni til nýrra og töluvert heilbrigðari vinnubragða en tíðkast hafa.

Því voru vonbrigði mín djúp þegar ég heyrði viðtalið við hana.

Hún lýsti því nefnilega yfir að hún væri ekki ánægð með fylgi Sjálfstæðisflokksins eins og það mælist nú í könnunum.

Þegar versta ríkisstjórn allra tíma væri við stórnvölinn ætti flokkurinn að fá meira en 33 prósent fylgi.

„Versta ríkisstjórn allra tíma.“ Það var nefnilega það.

Ég skal viðurkenna að það fauk í mig.

Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur er mjög langt frá því að vera fullkomin. Ansi margt hefði hún mátt gera betur á þeim rúmu tveim árum sem hún hefur setið.

En að heyra henni lýst sem „verstu ríkisstjórn allra tíma“ er ekki bara rangt, heldur ósvífið.

Þessi ríkisstjórn einkavinavæddi ekki bankana. Þessi ríkisstjórn skálaði ekki í kampavíni við útrásarvíkinga og bankamenn. Þessi ríkisstjórn lét ekki vaða uppi í landinu síðastliðin 15 ár „blekkingar, spillingu, lán til tengdra aðila og aðra siðlausa og glæpsamlega hegðun“ – sjá hér. Þessi ríkisstjórn viðhélt ekki spillingarmóral helmingaskipta og klíkuskapar. Þessi ríkisstjórn flaut ekki sofandi að feigðarósi og sniðgekk vísvitandi allar raddir sem vöruðu við yfirvofandi hruni.

Ónei.

Höfuðból þeirrar ríkisstjórnar sem allt þetta afrekaði var í Valhöll, og mestallan þann tíma sem þar stóðu yfir kampavínsveislur til heiðurs útrásinni og bankabólgunni (ég tala í óeiginlegri merkingu, vona ég), þá var Hanna Birna Kristjánsdóttir þar innsti koppur í búri sem sérlegur aðstoðarmaður Kjartans Gunnarssonar framkvæmdastjóra flokksins og stórs eiganda og stjórnarmanns í Landsbankanum gamla.

Að heyra hana tala um þá ríkisstjórn sem reynir að hreinsa til eftir þetta subbulega partí sem „verstu ríkisstjórn allra tíma“, það gerði mig reiðan.

Jafnvel þó ríkisstjórn Jóhönnu mætti vissulega vera dugmeiri, þá kemst hún ekki nálægt því að vera „versta ríkisstjórn allra tíma“.

Sú stjórn sem það „sæmdarheiti“ verðskuldar er sú stjórn sem kom okkur oní þennan flór, ekki sú sem reynir að moka okkur uppúr honum. Kannski af of veikum mætti, en reynir samt.

Og ef nýr formannskandídat í Sjálfstæðisflokknum ætlar að hefja sinn feril í landsmálum með svona belgingi, blekkingum og billegu flokkspólitísku skítkasti, þá höfum við ekkert við Hönnu Birnu Kristjánsdóttur að gera.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!