Laugardagur 05.11.2011 - 09:46 - FB ummæli ()

Skipan dómara og ríkisráð

Málþing Háskóla Íslands um stjórnarskrárfrumvarp stjórnlagaráðs hófst í gær og er mjög gleðilegur vitnisburður um að nú sé að hefjast markviss umfjöllun um frumvarpið.

Aðrir háskólar munu einnig gera hið sama. Þetta er allt mjög gott – það eina sem vantar er einhvers konar kynning eða umfjöllun um frumvarpið sem beint sé sérstaklega að almenningi.

En að því kemur væntanlega.

Ég gat því miður ekki verið viðstaddur, en las í Fréttablaðinu þessa frétt hér um ljómandi gott erindi sem Björg Thorarensen prófessor hélt á málþinginu í gær.

Mér sýnist Björg hafa komið umræðum um forsetakaflann í stjórnarskrárfrumvarpinu í mun skynsamlegri farveg en hann stefndi í.

Forsetakaflinn er auðvitað ekki hafinn yfir gagnrýni, frekar en önnur, en allar fullyrðingar um að þar séu „völd forsetans stóraukin“ er einfaldlega rangar, og Björg áttaði sig auðvitað á því.

Mig langar í bili aðeins að gera athugasemdir við tvennt í orðum Bjargar, en tek fram að ég byggi það á frásögnum fjölmiðla, bæði Fréttablaðsins og annarra, en ekki erindi Bjargar sjálfu.

Í fyrsta lagi tek ég eindregið undir athugasemdir Þorvaldar Gylfasonar félaga míns í stjórnlagaráðinu, þegar hann svaraði hugleiðingum Bjargar um heimild forseta til að synja skipan dómara – ef gengið væri mjög freklega gegn ráðleggingum sérskipaðrar fagnefndar.

Ef forseti synjar dómara, þá þarf samkvæmt tillögum okkar Alþingi að samþykkja skipanina með tveim þriðju hlutum atkvæða.

Í Fréttablaðinu segir: „Björg taldi heimildina óþarfa í ljósi þess að lögum um skipan dómara hefur nýverið verið breytt til að koma í veg fyrir misnotkun á skipunarvaldi dómsmálaráðherra.“

Eins og Þorvaldur benti á væri Alþingi í lófa lagið hvenær sem er að breyta reglunum á ný og setja einfaldlega þau lög að ráðherra skipi hvern sem honum hentar í stöðu dómara.

Björg hefur væntanlega hugsað með sér, að þá þurfi ekkert að kveða á um þetta í stjórnarskrá, því auðvitað muni menn aldrei snúa aftur til hins eldra og ófullkomnara skipulags.

En við höfum vítin til að varast.

Það er innan við áratugur síðan valdamikill forsætisráðherra lét leggja Þjóðhagsstofnun niður í heilu lagi, af því honum fann hún óþægur ljár í þúfu. Eftir á að hyggja var þetta gjörsamlega fráleitur gjörningur, og reyndist stórhættulegur, því á miklum „uppgangstímum“ skorti allt aðhald og nákvæmar upplýsingar um hagstærðir sem við hefðum þurft að hafa.

En á þeim tíma var áhrifavald þessa tiltekna forsætisráðherra slíkt að breytingin gekk í gegn mótspyrnulítið.

Slíkar aðstæður geta auðveldlega risið aftur – og þess vegna þarf að kveða skýrt á um þetta og ýmis önnur mikilvæg mál í stjórnarskrá.

Það er ýmislegt sem við getum einfaldlega ekki, að fenginni mjög sárri reynslu, treyst Alþingi eða ríkisstjórn fyrir.

Þá gerði Björg líka athugasemd við að stjórnlagaráð vill leggja niður ríkissáð, en það er fundur forseta og ríkisstjórnar tvisvar á ári og stökum sinnum oftar.

Ríkisráð er punt-fundur þar sem farið er yfir lög sem samþykkt hafa verið frá síðasta fundi – þau eru borin fram með bláan silkiborða hnýtt utan um þau (þetta er satt!) og svo er huggulegur löns á eftir.

Björg varar við að þessir fundir ríkisráðs séu lagðir niður og segir að „þannig sé afnuminn sá vettvangur sem forseti og ríkisstjórn hafa til að ræða mikilvæg mál“.

Þetta er misskilningur, held ég. Það eru aldrei rædd mikilvæg mál á fundum ríkisráðs.

Augljóst dæmi blasir við.

Nú fyrir örfáum vikum var nánast stríðsástand milli forseta og ríkisstjórnar. Ólafur Ragnar hafði verið að gefa allskonar furðulegar yfirlýsingar um ríkisstjórnina þvert og kruss í útlöndum, og heldur hvassyrt bréf höfðu gengið milli forsetaembættis og ríkisstjórnar.

Þá var einmitt haldinn ríkisráðsfundur.

Eftir fundinn sögðu bæði forseti og ráðherrar að þar hefði allt farið kurteislega fram og ekki verið minnst einu orði á ágreiningsefnin.

Ekki einu orði.

Þetta sýnir að ríkisráð er óþörf puntuverk, því ef einhvern tíma var ástæða til að ræða „mikilvæg mál“ á ríkisráðsfundi var það þarna.

En það var ekki gert, og því á að leggja ríkisráðið niður.

Það er gagnslaust fyrirbæri, og gerir ekki annað en auka starfsálag starfsmanna ráðuneytanna, því þeir þurfa að strauja svo mikið af bláum silkiborðum til að hafa þá tilbúna fyrir ríkisráðsfundina.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!