Lilja Mósesdóttir ætlar að stofna nýjan flokk. Það er gott. Ég er eindregið hlynntur því að ný stjórnmálaöfl komi til sögunnar, og okkur gefist sem flest tækifæri til að losna úr viðjum hefðbundins flokkskerfis.
Ég verð samt að segja að mér fannst svolítið einkennileg áhersla hennar í Silfri Egils um daginn á að flokkurinn ætti að vera samsuða úr „gömlum gildum“.
„Samsuða“ var reyndar ekki hennar orð, en þetta hljómaði vissulega eins og einhver alltumlykjandi samvinnuflokkur.
Ég er vitanlega meðmæltur góðu samstarfi og samvinnu en þetta hljómaði svolítið eins og hún ætlaði að fara að baka jólaköku og sveskjutertu í sama forminu.
En látum svo vera. Þetta kemur væntanlega í ljós.
Það sem mér þótti aftur á móti aldeilis óskiljanlegt, það var sá þáttur sem Lilja ætlaði að flétta inn í flokkinn sinn úr Sjálfstæðisflokknum.
Því þaðan ætlaði hún að taka réttlæti.
Nú ætla ég ekki að halda því fram að sjálfstæðismenn séu eitthvað minna réttlátir en aðrir.
Einhver gæti kannski freistast til að hafa hér um hinn ódauðlega frasa Francis Urquharts, en það hvarflar ekki einu sinni að mér!
En að réttlætið sé einhver sérgáfa Sjálfstæðisflokksins, umfram aðra flokka, eins og Lilja Mósesdóttir telur greinilega – það kom mér afar spánskt fyrir sjónir.
Svo ekki sé nú fastar að orði kveðið.
Og fyrst Lilja er upprennandi stjórnmálaleiðtogi (ef hún er ekki þegar orðin það) og mér finnst við eiga rétt á að þekkja hugsun og hugmyndafræði þeirra, þá spyr ég hana nú í allri hógværð:
Hver eru hin sérstöku tengsl réttlætis og Sjálfstæðisflokksins?
Ég hef lesið heilmikið um ævina og skoðað bæði íslenska pólitík og hugmyndafræði fram og til baka, og ég kem ekki auga á slík tengsl.
En væntanlega verð ég margs vísari þegar Lilja Mósesdóttir skýrir mál sitt, sem hún hlýtur að gera, fyrst þetta réttlæti úr Sjálfstæðisflokknum verður einn helsti þátturinn í nýja flokknum hennar.
Og úr því ég er byrjaður, þá langar mig líka að fá skýringu á framhaldi orða Lilju. Því hún sagði, þegar hún útlistaði hvað hún ætlaði að hirða nothæft frá Sjálfstæðisflokknum – „réttlætið, sem er svona kristilegt.“
Haaaaaa?
Bíddu nú hæg!
Hér mætti spyrja – hver eru hin sérstöku tengsl kristindómsins og Sjálfstæðisflokksins? – en ég nenni því ekki.
Mér finnst miklu brýnna að fá svar við spurningunni: Hver eru tengsl kristindómsins og réttlætisins?
Ég hef nefnilega líka lesið heilmikið um kristindóminn (þetta var á mínum yngri árum!) og ég get ekki með nokkru móti séð að réttlætið sé sprottið þaðan.
Og ekki úr öðrum trúarbrögðum heldur – svo því sé nú til haga haldið.
Ef mér skjöplast ekki, þá hefur Lilja Mósesdóttir margoft óskað eftir djúpri og hugmyndafræðilegri umræðu í þessu landi. Hún mun því vafalaust hafa einskæra ánægju af því að svara mér og skýra þetta hvorttveggja vandlega út.