Ég er að lesa bók Arnaldar Indriðasonar um Einvígið. Hún hefur sýnilega til að bera alla bestu kosti Arnaldar, ekki síst notalegt og rólyndislegt andrúmsloft, þar sem þó er gjarnan eitthvað ískyggilegt undir niðri. Lögreglumennirnir Marion og Albert eru ósköp svipaðir þeim Erlendi og Sigurði Óla sem aðdáendum Arnaldar þykir vænt um. Hún hefur líka til að bera galla Arnaldar sem rithöfundar, sem felast t.d. í undarlega klunnalegum aðferðum til að koma upplýsingum á framfæri. Ég get nefnt sem dæmi þegar Arnaldur vill koma því á framfæri að Sylvia´s Mother hafi verið vinsælasta lagið á þeim tíma þegar sagan gerist, þá heyrir hinn miðaldra Marion lagið í útvarpinu (þar sem það hefur þá hljómað „vikum saman“ segir í bókinni) og spyr upp úr eins manns hljóði: „Hver var þessi mamma Sylvíu?“ Þetta virðist eiga að vera alvöru spurning. Annað og verra dæmi er þegar Albert hittir blaðamann í Laugardalshöllinni (bls. 104) og blaðamaðurinn gefur lögreglumanninum stutt yfirlit yfir helstu tíðindi af einvígi Fischers og Spasskys. Að blaðamaðurinn hafi reiknað með að löggan vissi þetta ekki gengur ekki. Svo er eitt atriði sem hlýtur að flokkast bara undir mistök. Á blaðsíðu 15 segir frá því að Ísland hafi verið í heimspressunni vegna átaka Landhelgisgæslunnar og breskra herskipa um útfærslu landhelginnar, en landhelgin var ekki færð út fyrr en 1. september 1972 og herskip komu ekki á miðin fyrr en löngu seinna. Líklega hefur gleymst að klippa þessi mistök út, enda kemur seinna í bókinni fram að útfærslan standi fyrir dyrum – en þá segir raunar að Bretar hafi strax um sumarið verið farnir að hóta því að senda dráttarbáta og herskip á miðin, sem er ekki rétt – en kannski ekki stórvægilegt atriði.