Umræður um stjórnarskrárfrumvarpið sem stjórnlagaráð setti saman í sumar fara nú vaxandi og er það vel. Og hafa ýmsir sett fram athugasemdir sínar. En rétt eins og ég ímynda mér ekki að frumvarpið okkar sé endanlega fullkomin smíð, þá eru athugasemdirnar sumar ekki alveg alfullkomnar.
Og ég finn mig til dæmis knúinn að fara fáeinum orðum um það sem Pétur Kr. Hafstein forseti kirkjuþings sagði við setningu þingsins fyrir tveimur dögum.
Þegar svo stórgáfaður og margfróður maður lætur í ljósi gagnrýni – maður sem þar að auki er fyrrverandi dómari við Hæstarétt – þá er eðlilegt að leggja eyrun við.
En einnig má augljóslega gera töluverðar kröfur til gagnrýninnar.
Ég tek það fram að þar sem ég var ekki viðstaddur flutninginn á ræðu Péturs, þá eru mínar einu heimildir um orð hans frétt í Ríkisútvarpinu, sjá hérna. En sú frétt gefur þó áreiðanlega fullnægjandi mynd af efni ræðunnar.
Þar er fyrst til að taka að ég á mjög erfitt með að skilja þá tilvitnun sem Pétur hefur mál sitt með, þegar hann vitnar til orða Jóns Hreggviðssonar í Íslandsklukkunni um að „vont sé þeirra ranglæti en verra þeirra réttlæti“.
Og meinar bersýnilega að nú hafi stjórnlagaráð kallað yfir þjóðkirkjuna hið verra réttlæti.
Það læðist að mér sá grunur að Pétur Kr. Hafstein hafi ekki lesið ennþá lesið Íslandsklukkuna, fyrst hann notar þessa tilvitnun í Jón gamla á Rein á svo undarlegan hátt.
Ætla má að hann hafi aðeins rekist á tilvitnunina í einhverju uppsláttarriti um vel valin orð, eða kannski í blaðagrein. Ég vil því í upphafi eindregið hvetja Pétur til ná sér nú í bókina á bókasafni og lesa hana; hann verður ekki svikinn af því.
En ef Pétur les Íslandsklukkuna, þá mun hann sjá að þessi orð eru þar notuð í því samhengi að varla mun framar hvarfla að honum að reyna að nota þau til að setja samasem-merki milli íslensku þjóðkirkjunnar og Jóns Hreggviðssonar.
Ég ætla nú ekki að spilla ánægju Péturs af því að lesa Íslandsklukkuna með því að upplýsa of mikið, en get þó sagt að þessi orð lætur Jón Hreggviðsson falla eftir að hafa árum saman verið ofsóttur og hýddur af vondum yfirvöldum og spilltum dómurum.
En síðan þegar hafist er handa við að leiðrétta ranglætið, þá verður hann leiksoppur afla sem hafa kannski gott í hyggju í upphafi, en hann verður þó fljótt aðeins lítið og áhrifalaust tannhjól í þeirri vél sem fer af stað.
Sú vél fer að lifa eigin lífi með eigin hagsmuni og eigin sókn eftir völdum og áhrifum, og þegar upp er staðið hefur lítið sem ekkert verið sinnt um hagsmuni Jóns bónda á Rein.
Og að sumu leyti er staða hans jafnvel verri en áður.
Heyrðu mig nú!
Íslenska þjóðkirkjan á að sjálfsögðu ekkert skylt við þá stöðu sem Jón Hreggviðsson var í og urðu tilefni orða hans um ranglætið og réttlætið.
Eða er það niðurstaða Péturs Kr. Hafstein að kirkjan hafi gegnum tíðina mátt búa við mikið ranglæti af hálfu stjórnvalda í þessu landi?
Sé svo, þá væri vissulega í meira lagi fróðlegt að frétta nánar af því!
Það myndi sannarlega umbylta fullkomlega öllu viðhorfi okkar til fortíðarinnar, sögunnar og samfélagsins ef við neyddumst nú til að horfast í augu við að þrautpínd þjóðkirkjan hefði alltaf haft sömu stöðu og margdæmdur og marghýddur bláfátækur snærisþjófur af Akranesi.
Og ekki seinna vænna að Pétur setjist þá þegar í stað við skriftir og skýri út fyrir okkur allt það ranglæti sem kirkjan hefur mátt búa við.
Sömuleiðis er það mjög óvænt mynd af stjórnlagaráði sem dregin er upp með þessari líkingu Péturs.
Hvaða skoðun sem menn kunna að hafa á ógildingu Hæstaréttar á stjórnlagaþingskosningunni og síðan ýmsum formsatriðum varðandi skipan stjórnlagaráðs, þá verður ekki framhjá því horft að í stjórnlagaráði sat fólk sem hafði verið kosið til einmitt slíkra starfa í almennri þjóðaratkvæðagreiðslu.
Því er í besta falli einkennilegt ef Pétur sér í ráðinu þá andlitslausu og tilfinningalausu mulningsvél bókstafsréttlætisins og lagatækninnar sem notkun hans á tilvitnuninni í Jón Hreggviðsson virðist gefa til kynna.
Vél sem engu skeytir um velferð hins marghrjáða fórnarlambs sem þjóðkirkjan virðist vera í augum hans!
Nei, þetta er sem sé svo illa fundin samlíking að ég hlýt sem sé að draga þá ályktun að Pétur hafi ekki lesið Íslandsklukkuna. Ef hann hefði gert það, þá hefði svo stórgáfaður og margfróður maður áreiðanlega aldrei notað hana.
En þó hann hafi kannski ekki gert sér fulla grein fyrir því hve einstaklega illa valin þessi tilvitnun er, þá er þó ljóst af vali hennar að hann telur þjóðkirkjuna bersýnilega hafa búið við eitthvert ranglæti.
Og gott væri að fá að vita hvað það ranglæti er, og hvernig það hefur birst.
Það mun vekja sérstaka eftirtekt hjá fólki úr öðrum trúfélögum, ég tala nú ekki um hjá trúlausu fólki, að frétta nú af fyrrverandi hæstaréttardómara og forseta kirkjuþings að þjóðkirkjan hafi búið við mikið ranglæti.
Og ef tillögur stjórnlagaráðs nái fram að ganga, þá aukist það ranglæti enn!
Nú fer að verða tímabært að skoða hvað það er nákvæmlega í frumvarpi stjórnlagaráðs sem vekur þessi viðbrögð forseta kirkjuþings.
Mig langar samt aðeins fyrst að gera aðra athugasemd við sjálft orðaval Péturs. Hann segir að ákvæði sem snerti kirkjuna sé ekki hið eina sem sýni „ófullnægjandi frágang“ í frumvarpinu, „og nægir þar að nefna þær snörpu deilur sem upp hafa risið um stöðu og hlutverk forseta Íslands.“
Ég verð að segja að hér þykir mér farið mjög undarlega með orð.
Eða hverjar eru þær „snörpu deilur“ sem risið hafa um stöðu forseta Íslands?
Ólafur Ragnar Grímsson kaus við setningu Alþingis í haust að setja fram þá túlkun sína á frumvarpi stjórnlagaráðs að ef þær yrðu að veruleika myndu völd forsetans aukast stórkostlega.
Nú er það svo, að í sjálfu sér væri ekkert endilega athugavert við að auka völd forsetans. Forsetar hafa víða mikil völd, eins og við vitum.
En túlkun Ólafs Ragnars á hinum „stórauknu völdum“ embættisins samkvæmt frumvarpi stjórnlagaráðs var óvart ekki rétt. Samkvæmt frumvarpinu eykst áhrifavald forsetans vissulega hvað snertir mannaráðningar, en eiginleg „völd“ aukast ekki.
Enda var túlkun Ólafs Ragnars strax mótmælt af nokkrum félögum í stjórnlagaráðinu, og síðan hafa aðrir tekið undir þau mótmæli.
Björg Thorarensen prófessor, sem hefur þó sitthvað við stjórnarskrárfrumvarpið að athuga, hefur til dæmis andmælt túlkun Ólafs Ragnars.
Þetta er nú allt gott og blessað.
En hvar eru þær „snörpu deilur“ sem Pétur segir að hafi orðið?
Einn maður setti fram sína túlkun, henni var strax mótmælt af flestum sem til máls tóku. Eru þetta „snarpar deilur“ sem gefa til kynna „ófullnægjandi frágang“ á stjórnarskrárfrumvarpinu?
Ég held ekki. Ef ég vissi ekki að Pétur Hafstein væri vammlaus maður með öllu sem setti aldrei fram orð sín í billegum tilgangi, þá myndi ég jafnvel freistast til að álykta að hann hafi hagað svo máli sínu til að gefa til kynna að frumvarp stjórnlagaráðs væri miklu umdeildari og brogaðri smíð en það hefur reynst vera.
En þá hlýtur bara að vera um eitthvert misminni Péturs að ræða.
En víkjum þá að því ákvæði í stjórnarskrárfrumvarpinu sem Pétri þykir merki um að kirkjan, sem hafi þó nú þegar sætt svo miklu ranglæti gegnum tíðina, eigi nú að fara að sæta enn verra „réttlæti“.
Um er að ræða 19. grein sem hljóðar svo:
„Í lögum má kveða á um kirkjuskipan ríkisins.
Nú samþykkir Alþingi breytingu á kirkjuskipan ríkisins og skal þá leggja það mál undir atkvæði allra kosningabærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar.“
Við sem í stjórnlagaráði sitjum leggjum til að þessi grein komi í stað 62. greinar í núverandi stjórnarskrá sem hljóðar svo:
„Hin evangeliska lúterska kirkja skal vera þjóðkirkja á Íslandi, og skal ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda. Breyta má þessu með lögum.“
Síðar segir í 79. grein að ef Alþingi samþykki breytingar á kirkjuskipan skuli bera þær breytingar undir þjóðina í almennri atkvæðagreiðslu.
Ég er ekki að upplýsa neitt leyndarmál þó ég segi frá því að þessar tvær greinar núgildandi stjórnarskrár reyndist unnt að hártoga fram og bil baka. Og sérstaklega hvernig ný grein sem kvæði á um þjóðkirkju eða ekki þjóðkirkju myndi spila saman við ákvæði eldri stjórnarskrárinnar. Átti að taka tillit til þeirra eða ekki?
Um þetta reyndist unnt að spjalla lengi, en þær umræður urðu fljótt afar ófrjóar og staglkenndar.
Verkefnið sem við stóðum frammi fyrir var líka í raun mjög einfalt.
Átti að vera ákvæði í stjórnarskrá um þjóðkirkju, eða ekki?
Nú er það svo að allar skoðanakannanir hafa í mörg herrans ár gefið til kynna að vænn meirihluti þjóðarinnar vill aðskilja ríki og kirkju fullkomlega.
Og margir í stjórnlagaráði voru sömu skoðunar, og vildu helst af öllu taka ákvæði um þjóðkirkju og/eða kirkjuskipan alveg út úr stjórnarskránni.
Athugið að það myndi í sjálfu sér ekki hafa þau áhrif að aðskilja ríki og kirkju.
Ef ekkert ákvæði um þjóðkirkju væri inni í stjórnarskránni myndi það þó vissulega auðvelda aðskilnað. Það segir sig bara sjálft, þar eð ekki þyrfti framvegis að breyta stjórnarskrá til að koma því í gegn.
En það hefði engan sjálfkrafa aðskilnað í för með sér.
Ég er heldur ekki að upplýsa neitt leyndarmál þó ég fullyrði hér að í stjórnlagaráði voru margir sem hefðu í hjarta sér kosið að þurrka einfaldlega öll ákvæði um þjóðkirkju og kirkjuskipan út úr stjórnarskránni.
En „réttlæti“ okkar í garð þjóðkirkjunnar var nú þrátt fyrir allt ekki verra en svo, að það varð mjög fljótlega ofan á að fara ekki þá einföldu leið.
Ástæðurnar komu fram í umræðum stjórnlagaráðs, og ég vísa bara til þeirra. Sú var helst að sumir litu svo á að það væri ekki hlutverk okkar í ráðinu að taka mjög afdrifaríkar ákvarðanir um framtíð kirkju- eða trúarskipunar í landinu. Og sýna bæri sögunni, landsins hefðum og einlægum stuðningsmönnum trúar og kirkju fyllstu kurteisi.
Fyrst og fremst væri það hlutverk þjóðarinnar sjálfrar að ákveða þetta – og þar sem óneitanlega væri um mjög sérstakt mál að ræða, þá væri réttast að þjóðin tæki um það ákvörðun óháð öðrum ákvæðum stjórnarskrárfrumvarpsins.
Það yrði sem sé sérstök þjóðaratkvæðagreiðsla um málefni trúar og/eða kirkju.
Við prófuðum ýmsar leiðir til að setja þetta mál út fyrir sviga og beina því sem fyrst í sérstaka þjóðaratkvæðagreiðslu. Að lokum varð 19. greinin okkar ofan á.
Hún vakti í upphafi mesta gremju þeirra sem vilja afdráttarlaust og umsvifalaust skilja að ríki og kirkju. Það var eins og þeir ættu bágt með að átta sig á að samkvæmt henni væri ekki lengur minnst á „þjóðkirkju“ í stjórnarskrá Íslands.
Sem væru í sjálfu sér heilmikil tíðindi.
Og að með 19. greininni væri beinlínis ætlast til þess að fram færi fljótlega sú þjóðaratkvæðagreiðsla um kirkjuskipan sem þeir hafa lengi óskað eftir.
(Er það ekki annars? Þeir hljóta að vilja að þjóðin sjálf fái að ákveða þetta?!)
En nú er sem sagt komið að forseta kirkjuþings að gagnrýna 19. greinina okkar.
Ég veit að þetta er orðinn heilmikill langhundur, en ég verð samt að halda aðeins áfram.
Því ég skil ekki gagnrýni Péturs.
Hann segir að með tillögunni sé sköpuð „óviðunandi óvissa um stöðu þjóðkirkjunnar“.
Í fyrsta lagi mætti slá þessum ótta Péturs upp í hryssingslegt kæruleysi.
Spyrja sem svo, af hverju í ósköpunum á það að vera hlutverk stjórnarskrár að kveða á um stöðu stofnunar um trú fólks á ósýnilega æðri veru?
Ég hefði nú haldið að „óviðunandi óvissa“ væri einmitt eitthvað sem talsmenn slíkrar stofnunar ættu að vera orðnir ansi miklir sérfræðingar í að búa við.
En ég ætla nú ekki lengra út á þá braut.
Minni aðeins á að í stjórnarskrá er ekki minnst á heilmargar stofnanir og fyrirbæri sem skipta okkur þó afar miklu máli, svo ég er ekki viss um að trúfélög eigi endilega sérstaka heimtingu á að búa við sérstakt öryggi eða stöðu í sjálfri stjórnarskránni.
En í öðru lagi segir í frétt Ríkisútvarpsins um orð Péturs:
„Pétur minnti jafnframt á að samkvæmt gildandi stjórnarskrá skuli Alþingi ákveða breytingar á kirkjuskipaninni og sú ákvörðun svo lögð í þjóðaratkvæðagreiðslu. Tillaga að nýrri stjórnarskrá, án ákvæða um þjóðkirkju, sé ekki nægjanleg.
„Það er hins vegar stjórnarskrárvarinn réttur þjóðarinnar sjálfrar að ákveða hvort þjóðkirkja skuli vera hér í þessu landi eða ekki. Fram hjá þessum rétti þjóðarinnar veðrur ekki gengið með sjónhverfingum einum saman.““
Ég verð að viðurkenna að ég botna ekkert í þessum orðum Péturs. Hvaða skoðun sem maður kann að hafa á þjóðkirkjunni, þá liggur í augum uppi að 19. greinin okkar ætlast til að þjóðin ákveði framtíðarskipan þessara mála sjálf – í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Og samkvæmt annarri tillögu okkar í frumvarpinu, þá mun almenningur geta haft frumkvæði að því að leggja mál fram á Alþingi – og síðan að þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram um þau lög sem sett kunna að verða.
Bæði stuðningsmenn þjóðkirkju sem andstæðingar munu geta nýtt sér þetta.
Hvernig fyrrverandi hæstaréttardómari getur komist að þeirri niðurstöðu að 19. greinin okkar gangi þeim rétti þjóðarinnar að „ákveða hvort þjóðkirkja skuli vera hér í þessu landi eða ekki“ – það er mér satt að segja hulin ráðgáta.
Ég er ekki að standa í einhverjum orðhengilshætti eða spælingum eða þrætubók – ég skil þetta bara ekki.