Þriðjudagur 30.10.2012 - 11:24 - FB ummæli ()

Sandy er ofsaveður, ekki „ofurstormur“

Óveðrið Sandy er víst enn að gera óskunda vestur í Bandaríkjunum og Kanada en telst ekki lengur fellibylur, því dregið hefur úr vindhæð.

Í íslenskum fjölmiðlum hefur verið nokkuð á reiki hvað á að kalla þetta veður og á Vísi.is í morgun var Sandy kölluð „ofurstormur“.

Það er fullkominn óþarfi. Við eigum góð og gild orð yfir nákvæmlega það fyrirbæri sem Sandy er nú.

Sandy er nefnilega ofsaveður.

Í fellibyl af fyrsta styrkleikaflokki er vindhraðinn 33-42 metrar á sekúndu.

Þá er ekki átt við hviður, heldur gegnumgangandi vindstyrk.

Öflugustu fellibyljirnir (í fimmta flokki) eru þeir sem eru ná yfir 70 metra vindhraða á sekúndu.

Það er vindstyrkur sem afar sjaldan hefur mælst á Íslandi. Kannski helst í einni og einni hviðu á Stórhöfða. Og reyndar fyrir rúmum 10 árum á Gunnólfsvíkurfjalli á Langanesi.

En fyrst Sandy nær sem sagt ekki styrk fellibyls, þá er hægt að nota um hana gömlu íslensku veðurheitin, sem illu heillu voru að mestu aflögð þegar hugtakið metrar/sekúndu varð allsráðandi.

Svo vill til að fyrsta stigs fellibylur er jafnsterkur og hæsta stig þessa gamla íslenska kerfis.

„Fárviðri“ var nefnilega vindhæð yfir 32 metrar á sekúndu.

Næsta stig fyrir neðan er „ofsaveður“. Þar er vindstyrkurinn 28-32 metrar á sekúndu (nokkurn veginn).

Þriðja efsta stigið er svo „rok“ – þá er vindhraðinn 24-28 metrar á sekúndu.

Fjórða stigið er svo sjálfur stormurinn, sem nú er næstum eina heitið sem notað er af Veðurstofu Íslands. En „stormur“ samkvæmt gamla kerfinu var 20-24 metrar á sekúndu.

Þá kom „hvassviðri“ sem þýddi 17-20 metra á sekúndu.

Þar fyrir neðan eru svo allhvass vindur, stinningskaldi, kaldi, stinningsgola, gola, kul, andvari og loks logn.

Þótt veðurstofan hafi einhverra hluta vegna lagt þessi heiti á hilluna mættu fjölmiðlar alveg halda þeim á lífi.

Þá þyrftu menn til dæmis ekkert að velkjast í vafa um hvað á að kalla veður eins og Sandy.

Ofsaveður.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!