Sunnudagur 2.10.2011 - 18:48 - FB ummæli ()

Svívirða

Sko.

Páll Magnússon er áreiðanlega vænsti maður.

Persónulega.

Ég efast ekkert um það.

Og það getur líka vel verið að hann sé ágætlega flinkur í flestu því sem hann tekur sér fyrir hendur.

En að enginn umsækjandi hafi þótt vera hæfari en hann til að stjórna Bankasýslu ríkisins – hann sem er í vitund okkar gamli spillti og makráði Framsóknarflokkurinn holdi klæddur – það er beinlínis ööööööömurlegt.

Og að því sé haldið fram, eins og gert var í fréttum Stöðvar 2 nú rétt áðan, að ástæðan fyrir því að hann hafi verið ráðinn hafi ekki síst verið „reynsla hans úr stjórnsýslunni“, það er svona nokkurn veginn eins og að segja að réttast væri að hafa Finn Ingólfsson forsætisráðherra af því hann hefur líka svo mikla reynslu úr stjórnsýslunni.

Páll var aðstoðarmaður og trúnaðarmaður framsóknarráðherra á einka(vina)væðingarskeiðinu og í „góðærinu“.

Það er hans reynsla.

Og hún hefur nú verið verðlaunuð með flottu djobbi hjá ríkinu, þar sem hann fær tækifæri til að ráðskast með fé og fyrirtæki okkar í hruninu.

Fyrirgefiði þó ég segi það – en þetta er einfaldlega ekkert annað en svívirða!

Svívirða og ekkert nema svívirða.

Skammist ykkar!

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 2.10.2011 - 17:19 - FB ummæli ()

Kínverskar draugaborgir

Allt er á uppleið í Kína, það vitum við.

Nýjar borgir spretta upp hvarvetna, verslun og viðskipti blómstra.

Það tekur tuttugu mínútur að sigla gegnum eina verslunarmiðstöðina.

Eða er einhver maðkur í mysunni?

Í apríl í vor fjölluðu sjónvarpsmenn hjá bandarísku sjónvarpsstöðinni NBC um málið.

Þetta er frásögn þeirra.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 1.10.2011 - 18:03 - FB ummæli ()

Hefðbundið

Mótmæli Harðar Torfasonar á Austurvelli á sínum tíma, og síðan búsáhaldabyltingin sem fylgdi í kjölfarið, höfðu það sér til ágætis að kröfurnar sem settar voru fram voru mjög einfaldar og skýrar.

Mótmælin við þingsetninguna núna voru það hins vegar ekki.

Að minnsta kosti er nú byrjað hefðbundið rifrildi stjórnar og stjórnarandstöðu um það hverju menn hafi verið að mótmæla.

Púff.

Er ómögulegt að taka Hörð Torfason sér til fyrirmyndar?

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 1.10.2011 - 08:54 - FB ummæli ()

Makk, makk, makk!

Það sem hérna kemur fram hefur lengi verið á vitorði allra í fjölmiðlastétt.

Að Þorgerður Katrín hafi ætlað sér að ráða Þorstein Pálsson útvarpsstjóra, en Davíð Oddsson hafi handvalið Pál Magnússon.

Páll sagði náttúrlega ekki frá þessu þegar hann var ráðinn, heldur bauð okkur upp á huggulega sögu um að hann (þá forkólfur hjá 365) hefði laumast á fund Þorgerðar Katrínar til að spyrja hvort hann kæmi yfirhöfuð til greina.

Og hún sagði já, já, því ekki það.

Allt var þetta altso spúespill og makk, makk, makk.

Öðru nafni spilling.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 30.9.2011 - 15:02 - FB ummæli ()

Sandur

Ég kom frá Úsbekistan fyrir viku. Fór þangað með ferðahópi sem mín góða móðir, Jóhanna Kristjónsdóttir, stýrði.

Þetta var einstök lífsreynsla. Ég uppgötvaði að ég hafði gert mér afar takmarkaða hugmynd um hvernig mannlífið liti út í Úsbekistan, þarna í miðri Mið-Asíu.

Þar reyndist vera alveg einstaklega vingjarnlegt og alúðlegt fólk – forvitið, skemmtilegt og fallegt.

Úsbekistan er að mörgu leyti auðugt land – þar er olía, gas, úran, gull …

Og þó við Íslendingarnir höfum auðvitað ekki séð nema brot af landinu, þá fékk maður ekki á tilfinninguna að þar ríkti sár fátækt í einhverjum kimum samfélagsins.

En þar er samt þrjátíu prósenta atvinnuleysi og nær engar atvinnuleysistryggingar.

Úsbekar eru samt duglegir við að búa sér til vinnu, og á torgi einu í bæ í hinum ægifagra Ferganadal rákumst við á hóp kvenna að störfum.

Allir götusóparar í Úsbekistan eru konur og þær vinna líka margvísleg önnur störf, en þetta voru reyndar þær einu sem ég rakst á sem voru í byggingarvinnu.

Ef svo má þó segja.

Þær voru svona tuttugu talsins og gengu tvær og tvær saman og báru sand á poka á milli sín.

Úti á miðju torginu var sandhrúga þar sem karlmaður nokkur mokaði nokkrum skóflufyllum upp á poka kvennanna, og svo gengu þær í mestu rólegheitum af stað með sandinn.

Þær voru alls ekki að flýta sér.

Þær röltu þetta sem sandinn svona 80 metra eða svo, og sturtuðu honum þar af pokanum í aðra sandhrúgu.

Og töltu svo til baka í sömu rólegheitum, og hvíldu sig stundum svolítið á milli.

Við hliðina á sandhrúgunni var svolítil grafa sem hefði getað náð næstum allri sandhrúgunni í einu upp í skóflu sína og fært hana í einu vetfangi, en enginn sá ástæðu til nota hana.

Þetta var rólegheita þægindastarf.

Ég þarf vonandi ekki að taka fram að ég er ekki að nefna þetta til að gera lítið úr starfi kvennanna, fjarri því. Bara sýna að sinn er siður er í landi hverju, og mér fannst þetta raunar sérkennilega fallegt verklag.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 30.9.2011 - 10:08 - FB ummæli ()

Hundur gengur laus

Núna rétt fyrir klukkan tíu hjólaði ég meðfram gamla kirkjugarðinum við Suðurgötu.

Þá kom svartur hundur hlaupandi á spretti út úr kirkjugarðinum, yfir Hringbrautina og hvarf inn á Melana.

Hann var með ól en bersýnilega búinn að týna eiganda sínum, því hann var í öngum sínum.

Það munaði aðeins örlitlu að hann yrði fyrir bíl á Hringbrautinni því hann æddi umhugsunarlaust út á götuna.

Ég kann ekki hundategundir, en þetta var var allstór hundur.

Eins og Ísleifur langafi minn orti af öðru tilefni:

„Komi nú og hirði hundinn,

hver sem á hann.“

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 30.9.2011 - 07:37 - FB ummæli ()

Grín?

Ættbálkasamfélagið íslenska heldur áfram að koma á óvart.

Sjáið bara þetta hér.

Fundur sjálfstæðismanna á Seltjarnarnesi og fer greinilega út í að spæla ríkisstjórnina, eins og íslensk stjórnmálabarátta gengur yfirleitt fyrir sig.

Og þá stekkur upp maður og stingur upp á að Össur Skarphéðinsson verði gerður að sendiherra í Palestínu þegar ættbálkur Sjálfstæðisflokksins verður kominn til valda.

Og þetta vakti mikinn fögnuð, segir Pressan.

Ókei, kannski átti þetta að vera fyndið. Það má afsaka mörg ósmekklegheitin með því að þau hafi verið „bara grín“.

En samt.

Í fyrsta lagi er auðvitað athyglisvert hvað maðurinn – og fundarmenn – telja að eigi að vera fyrsta verkið eftir að flokkurinn hefur komist til valda.

Jú, skipa í embætti eins og honum hentar.

Í öðru lagi er frelsisbarátta Palestínumanna höfð að háði og spotti, og notuð sem ódýr spæling í pólitísku þrefi á Íslandi – að ég segi ekki á Seltjarnarnesinu.

Það finnst mér lágkúrulegt.

Barátta Palestínumanna er dauðans alvara, og það er ósæmilegt að nota dauðans alvöru annars fólks sem brellibragð í pólitísku ati í íslenska ættbálkasamfélaginu.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 29.9.2011 - 09:53 - FB ummæli ()

Drottinn minn dýri!

Drottinn minn dýri, hvað hér birtast feyskin viðhorf!

Hvenær fáum við að losna undan draugum fortíðarinnar?

Verðskuldum við virkilega alla þessa blindu heift, og þetta níðþrönga sjónarhorn á tilveruna?

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 28.9.2011 - 11:56 - FB ummæli ()

Makalaus ríkislögreglustjóri

Það stendur alveg skýrt í lögum að útboð skulu fara fram þegar kaupa á vörur fyrir ríkið fyrir hærri upphæð en fimm milljónir.

En ríkislögreglustjóri telur að þessi lög gildi ekki um sig.

Hann segir að „ógerlegt hefði verið að fara að ýtrustu lögum“ í málinu.

Sjá hér.

Þessi málflutningur er algjörlega makalaus.

Vissulega er þetta ekki óalgengt viðhorf á Íslandi, það verður að viðurkennast.

En þessi maður er ríkislögreglustjóri, for crying out loud!!

Einhvern veginn grunar mig að óbreyttir lögreglumenn eigi ansi oft eftir að heyra þetta á næstunni þegar þeir reyna að koma í veg fyrir lögbrot.

„Ja, því miður, mér var bara ógerlegt að fara að ýtrustu lögum í þessu efni.“

Það verður fróðlegt, skulum við segja, að fylgjast með því hvort ríkislögreglustjóri kemst upp með þetta!

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 27.9.2011 - 07:06 - FB ummæli ()

Að sjálfsögðu!

Gott er það hve eindreginn og afdráttarlaus utanríkisráðherra vor er í stuðningi sínum við sjálfstæðisyfirlýsingu Palestínumanna.

Sjá hér.

Ekkert fuml og fát, eða undirlægjuháttur við stórveldið í vestri.

Auðvitað er sjálfsagt mál að Ísland styðji sjálfstæðisóskir Palestínumanna, en það hefðu þó ekki allir íslenskir stjórnmálamenn þorað að gera, og allra síst svo afdráttarlaust.

Því er þetta harla gott.

Össur hefur ævinlega verið umdeildur stjórnmálamaður. En í embætti utanríkisráðherra stendur hann sig vel.

Í mínu ungdæmi töldu Íslendingar sér það til hróss að hafa átt sinn þátt í að Gyðingar í Palestínu fengu að lýsa yfir sjálfstæðu ríki 1948.

Af því að Thor Thors fulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum var formaður í nefnd sem annaðist málið að einhverju leyti, ef ég man þetta rétt.

Það er því lágmark að við látum rödd okkar heyrast núna þegar Palestínumenn vilja lýsa yfir sjálfstæðu ríki 63 árum seinna, og það duglega.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!