Sunnudagur 30.10.2011 - 20:35 - FB ummæli ()

Seinheppinn Karl

Það er eitthvað svo sorglegt við hvað Karl Sigurbjörnsson biskup er seinheppinn maður.

Hann hefur haft mörg tækifæri til að reka af sér slyðruorðið vegna linkulegra viðbragða sinna við málum Ólafs Skúlasonar bæði fyrr og nú, en hann hefur klúðrað hverju tækifærinu af öðru.

Fyrir þetta hefur biskup verið gagnrýndur, stundum nokkuð harkalega, og sjálfsagt má finna dæmi þar sem gagnrýni á biskup hefur farið út í dónaskap og ósmekklegheit.

Slíkt fordæma að sjálfsögðu allir góðir menn.

En fáein rotin epli í „bloggheimum“ eiga ekki að verða biskupi Íslands tilefni til að kveinka sér jafn ákaflega og hann gerði í prédikun sinni í dag, og fjölmiðlar hafa sagt frá.

Karl Sigurbjörnsson hefur ýmislegt ágætt sagt úr sínum prédikunarstóli eftir hrunið. Hann hefur tekið þátt í þeim fjölradda kór sem gagnrýnt hefur glannaskap útrásarvíkinga og bankamanna, og ráðleysisleg stjórnvöld.

En vegna þess að hann sjálfur hefur nú legið undir ámæli, þá hefur hann skyndilega hrokkið upp við að gagnrýnin sé kannski alltof harkaleg.

„Er það ekki makalaust hvernig sleggjudómarnir og upphrópanirnar hafa einatt tekið yfir. Það er gömul saga og ný. Ærumeiðingar og mannorðsmorð eru daglegt brauð í opinberri orðræðu fjölmiðla og bloggheima. Það er alvarlegt samfélagsmein og ógnun við grundvöll heilbrigðs þjóðfélags.

Við erum í sorg, þessi þjóð, sem fyrir nokkrum árum taldist ein sú hamingjusamasta í heimi.

Bankahrunið og meðfylgjandi þrengingar heimila og fjölskyldna, vonleysið og neikvæðnin hafa lagst þungt á þjóðarsálina. Leitin að sökudólgum og blórabögglum tekur á og reiðin spýtir galli sínu um þjóðarlíkamann. En hún mun engu skila! Þar er ekki sannleikann að finna, lausnirnar, framtíðina. Það mun ekki heldur fást í vísitölum og greiningum. Engar hagtölur hugga í sorg. Hvað þá hatrið og hefndin. Heldur hin andlegu verðmæti, andlegu viðmið, sem beina sjónum sálar og anda til birtunnar. Sannleikurinn. Og sem helst og fremst verður tjáður og þekktur með ljóði og list, söng og bæn, elsku til Guðs og náungans.

Andspænis sannleikanum er hin hljóðláta lotning, virðing og hógværð ein við hæfi. Ekki hróp og köll og formælingar.“

Þetta voru orð Karls. Bankahrunið veldur reiði sem kveikir hatur sem kveikir sleggjudóma og upphrópanir.

Eins og hann hefur orðið fyrir, liggur milli línanna.

Nú mættu ýmsir alveg hugleiða með sjálfum sér hvort þeir ganga ekki of langt í orðbragði á netinu. Sumt af því sem þar birtist – einkum nafnlaust – er vitanlega fyrir neðan allar hellur.

En það er minnihlutinn. Meirihlutinn er heiðarlegt, réttsýnt fólk að tjá sig – stundum smekklega, stundum ósmekklega eins og gengur, en verðskuldar ekki að teljast „ógnun við grundvöll heilbrigðs þjóðfélags“.

Og að biskup stökkvi fram og viðri þessar áhyggjur þessar fáeinum dögum eða vikum áður en eitthvert kirkjuþingið hefst, þar sem framtíð hans á biskupsstóli mun ráðast, það er … ja, seinheppið, skulum við segja.

Það er reyndar mjög kurteislega valið orð hjá mér.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!