Þriðjudagur 01.11.2011 - 07:40 - FB ummæli ()

Ánægja, von og reiði

Umfjöllun Helga Seljan í Kastljósi um Snæbjörn Sigurbjörnsson hefur  vakið ýmsar kenndir.

Ánægju yfir umfjölluninni sjálfri – sem var bersýnilega unnin af mikilli virðingu og þungri alvöru, en lánaðist að gera flókna og erfiða atburðarás skýra og greinargóða. Þetta var vel gert.

Von um að nú þegar mál eins og þetta koma upp á yfirborðið, vissulega alltof seint, þá verði hægt að taka til hendi og sópa burt síðustu leifunum af því mannfjandsamlega kerfi sem varð til þess að ráða örlögum Snæbjörns Sigurbjörnssonar. Því eins og Sigursteinn Másson benti á – þótt geðheilbrigðiskerfið sé nú á dögum mannúðlegra en það var fyrir fáeinum áratugum, þá má alltaf gera betur. En þrátt fyrir að ennþá megi bæta margt, þá eru mál eins og þetta þó loksins að koma upp á yfirborðið.

Trú á að sá tími sé vonandi loksins liðinn að hvers konar yfirvöldum á Íslandi nægi að þegja af sér óþægileg mál. Í stóru sem smáu eigum við að krefjast rækilegrar rannsóknar – því við höfum nú séð á að á svo mörgum sviðum var sú spegilmynd sem blasti við okkur til skamms tíma alröng. Hugmyndir okkar um samfélag okkar sjálfra voru á margan hátt rangar og stundum algjör blekking – allt þetta þarf að rannsaka í þaula. Ekki síst hlutskipti okkar minnstu bræðra og systra.

En umfjöllunin kveikti líka furðu, já, algjöra furðu yfir því að svokallaðir sérfræðingar okkar Íslendinga í geðlækningum skyldu standa svo að málum sem Helgi lýsti í Kastljósinu.

Og reiði, djúpa reiði yfir því hvernig fór fyrir þessum geðsjúka meðbróður okkar, og sorg yfir því að meðferðin á honum viðgekkst svo lengi án þess að nokkur tæki í taumana, fyrr en það var orðið of seint.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!