Miðvikudagur 02.11.2011 - 09:27 - FB ummæli ()

Ekki meiðyrðamál!

Mikið vildi ég að Davíð Þór Jónsson hefði ekki álpast til þess að hóta Maríu Lilju Þrastardóttur málsókn fyrir meiðyrði út af þessari grein hér.

Ég skal að vísu viðurkenna að ég skil vel að Davíð Þór hafi orðið reiður. Pistill Maríu Lilju er að ýmsu leyti út úr öllu korti.

Sér í lagi með hliðsjón af því að pistill hennar á að heita svar við þessari grein Davíðs Þórs.

Ég ætla ekki að fara út í smáatriði í ritdeilu þessari, en það liggur auðvitað í augum uppi að hin upphaflega grein Davíðs Þórs fjallar um notkun á tálbeitum.

Ekki vændi.

Davíð Þór er á móti tálbeitum og því að menn séu með einum eða öðrum hætti sakaðir um glæpi sem þeir hafa ekki (ennþá!) framið.

Og hann hefur fullt leyfi til að hafa þá skoðun.

Ég skal að vísu taka skýrt fram að ég er í stórum dráttum ósammála honum.

Mér finnst oftast í lagi að nota tálbeitur til að sporna gegn glæpum. Þar á meðal vændi og mansali. Vissulega geta tálbeitur stundum verið á býsna gráu svæði siðferðilega og lagalega, einkum ef einkaaðilar taka  upp hjá sjálfum sér að gerast eða nota tálbeitur.

En oft finnst mér það samt geta verið réttlætanlegt.

En Davíð Þór má alveg hafa aðra skoðun. Og hann setti hana fram ósköp æsingalaust í Fréttablaðinu.

Og ég ítreka að ég skil vel að það hafi fokið í hann þegar hann les þau viðbrögð við hugleiðingum sínum að þar hafi hann rekið upp „harmakvein til varnar aumingjans „fórnarlömbum“ hinna illu systra“ – það er að segja Stóru systur.

Og ennfremur að til að uppræta vandann (vændi), þá verði að ráðast að rótum hans sem sé hvorki meira né minna en „brenglað viðhorf karla (eins og greinilega þín) til kynlífs og kvenna“.

Með djúpri virðingu fyrir Maríu Lilju, þá er þetta alveg út í hött.

Pistill hennar virðist reyndar skrifaður sem andsvar við einhverju allt öðru en upphaflegri grein Davíðs Þórs. Hún fordæmir þar vændi mjög kröftuglega, og ekkert nema gott um það að segja.

En Davíð Þór hafði alls ekki verið að réttlæta vændi. Ekki á nokkurn hátt. Og ekki heldur gert lítið úr því.

Greinin var ekki um vændi, heldur um (sjálfskipaðar) tálbeitur.

Og í því tilfelli má Davíð Þór sem fyrr segir alveg hafa sína skoðun, þó hún sé önnur en mín. Uppátæki Stóru systur var vissulega frumlegt og býsna djarft og það er fullkomlega eðlilegt að menn hafi mismunandi skoðanir á því.

Og þær skoðanir verður fólk að fá að setja fram án þess að vera, eins og Davíð Þór, sakað um að verja og styðja svívirðilega glæpi og jafnvel hafa „brenglað viðhorf … til kynlífs og kvenna“!

Kommon!!

Ég vona að það hljómi ekki yfirlætislega, en ef ég má sem gamall hundur í pistlabransanum gefa Maríu Lilju ráð þá hljóðar það ráð svo:

Lestu vandlega yfir þann texta sem þú ætlar að svara. Athugaðu hvort sterkar skoðanir þínar á málefninu, sem til umræðu er, séu nokkuð að blinda þér sýn á það sem „andstæðingurinn“ er í rauninni að segja. Ef þú lest milli línanna, taktu það þá skýrt fram og farðu varlega – því þér gæti skjátlast.

Hversu góður sem málstaður þinn kann að vera.

En að þessu sögðu, þá vildi ég sem sagt óska að Davíð Þór hefði ekki farið að hóta Maríu Lilju meiðyrðamáli.

Ástæðan er sú að ég er í grundvallaratriðum á móti því að því tré sé veifað.

Að beita meiðyrðalöggjöf finnst mér að ætti einungis að vera örþrifaráð, síðasta úrræði þeirra sem ekki geta svarað fyrir sig með öðrum hætti.

Og það er mála sannast að niðurstaða í meiðyrðadómi skiptir yfirleitt engu máli um það hvernig lokauppgjörið í þrætumálum verður.

Eins og meiðyrðalöggjöfinni hefur verið beitt hér á Íslandi undanfarin ár – einkum gegn heilbrigðri umræðu, en ekki henni til varnar – þá er líka svo komið að maður hefur nánast sjálfkrafa heldur illan bifur á þeim sem slá um sig með meiðyrðamálshótunum.

Og í beinu framhaldi af því: Af hverju í ósköpunum hætta Jón Ásgeir Jóhannesson og Pálmi Haraldsson ekki meiðyrðamálum sínum gegn Svavari Halldórssyni fréttamanni á Ríkisútvarpinu?

Ég skal viðurkenna að ég hef ekki sett mig inn í öll smáatriði þeirra mála, en jafnvel þó þeir ynnu öll heimsins meiðyrðamál gegn fréttamönnum, þá munu þeir „sigrar“ ekki ráða neinu um hver orðstír þeirra verður þegar upp er staðið.

Orðstír ræðst af öðrum þáttum en misvitrum dómurum rýnandi í stórkostlega gallaða meiðyrðalöggjöf.

Málsókn gegn fréttamönnum skilar þvert á móti einungis því að fólk fær á tilfinninguna að það sé verið að reyna að þagga niður umræðu.

Hafi fréttamenn sagt eitthvað rangt, þá er flestum í lófa lagið að svara því þannig að eftir sé tekið – og öflugir áhrifamenn í viðskiptum, stjórnmálum og/eða fjölmiðlum eiga að fara sérstaklega varlega í að hóta meiðyrðamálum.

Einmitt af því þeir hafa öll tækifæri til að svara fyrir sig.

Og það gildir líka um Davíð Þór Jónsson.

Hann er maður fullfrískur í íslenskri umræðuhefð, kemur vel fyrir sig orði, oftast mælskur og orðheppinn og hefur óheftan aðgang að fjölmiðlum og fjölmiðlun.

Hann er eiginlega sá maður sem síst af öllum ætti að þurfa að fara í meiðyrðamál.

Jafnvel þótt María Lilja hafi hlaupið á sig í virðingarverðum ákafa sínum við að berjast gegn vændi, þá hefði Davíð Þór átt að láta nægja að svara með orðum og pistlum.

Ekki hótunum um lögsóknir.

Því með því réttlætir hann notkun annarra á þessu sama vopni, hann skýtur stoðum undir lögmæti þess í opinberri umræðu.

Þegar við ættum þvert á móti að reyna að kveða það sem allra mest í kútinn.

Við eigum að glíma með orðum, jafnvel þó okkur finnist slett framan í okkur dónaskap eða rangfærslum eða illmælgi – slíkt dæmir sig alltaf á endanum sjálft.

En meiðyrðalöggjöfin á að vera lokaúrræði okkar minnstu bræðra og systra, ekki eitt vopnið enn fyrir hina vígfimu.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!