Föstudagur 02.12.2011 - 11:46 - FB ummæli ()

Hahaha, Gunnlaugur M. Sigmundsson

DV birtir í dag SMS-skeytin sem Gunnlaugur M. Sigmundsson sendi Teiti Atlasyni.

Í raun og veru er þetta ekkert gamanmál.

Það er ekkert sniðugt við að auðmaður skuli fara í mál við bloggara sem rifjar upp og endurprentar meira en áratugar gamlar greinar úr Morgunblaðinu um það hvernig þessi tiltekni auðmaður komst yfir fé sitt.

Gunnlaugur M. Sigmundsson var alþingismaður Framsóknarflokksins. Þetta er (A). En (B) hljóðar svona: Hann hætti og varð framkvæmdastjóri Kögunar sem hefur malað honum gull.

Um tengsl (A) og (B) skrifaði Agnes Bragadóttir mjög ítarlega í Moggann á sínum tíma, án þess að Gunnlaugur rótaði sér að ráði.

Nú þegar Teitur Atlason rifjar þetta hins vegar upp til merkis um spillinguna og helmingaskiptin sem hér viðgengust svo lengi, og bætir við fáeinum heldur almennum athugasemdum frá eigin brjósti, þá sér Gunnlaugur M. Sigmundsson hins vegar ástæðu til að fara í meiðyrðamál.

Af því hann telur líklega auðveldara að knésetja einn íslenskukennara í Gautaborg heldur en veldið sem Mogginn var á þeim tíma þegar greinarnar birtust fyrst.

Ja svei, miklir menn erum við!

Þetta er altso það í þessu máli sem er ekki fyndið.

Fastlega má reikna með að ætlun Gunnlaugs sé að stöðva alla frekari umfjöllun um það hvernig hann komst yfir Kögun með því að eiga þá yfir höfði sér rándýr meiðyrðamál – því málarekstur af þessu tagi er öðrum en auðmönnum auðvitað mjög dýr, jafnvel þó sigur vinnist.

Og ljóst að bara málskostnaðurinn getur riðið fjárhag Teits að fullu.

Raunar er það sorglegt að þetta telur Gunnlaugur M. Sigmundsson sér væntanlega gerlegt vegna þess að íslenskir dómstólar hafa á undanförnum árum umgengist meiðyrðalöggjöfina mjög furðulega.

Oftar en einu sinni og oftar en tvisvar hafa blaðamenn til dæmis hlotið dóm, ekki af því þeir hafa farið rangt með eða verið með óhæfilegar svívirðingar, heldur af því einhver hefur MÓÐGAST.

Móðgunargirni virðist vera orðin sjálfstæður faktor í íslensku réttarfari.

Það er auðvitað sorglegt, og íslenskir dómarar ættu sem skjótast að ákveða að snúa af þessari hættulegu braut.

En þrátt fyrir að þetta sé nú sem sagt allt heldur mikið alvöru mál, þá verð ég að viðurkenna að ég skellti upp úr í morgun þegar ég las SMS-skeytin sem Gunnlaugur sendi Teiti Atlasyni.

Að reyna að sjá fyrir sér forríkan auðmanninn á skrifstofunni sinni með símann í höndunum að pikka inn þetta SMS-skeyti til íslenskukennarans í Gautaborg …

„Teitur haettu ad vera svona vaeluskjoda. Ef ru raedst a einhverja kalla verdur tu ad vera madur til ad taka adleidingunum en ert bara grenjuskjoda. Stattu i lappirnar“

Eða:

„Tad eru tagufallsvillur i skrifum tinum lagadu tetta stingur i augun og haettu svo ad grenja“

… það er eiginlega hlægilegra en tárum taki!

Síðasta skeytið er þó reyndar handan við allan hlátur:

„Tu ert med tetta mal titt sjuklega a heilanum hvernig lidur konunni med tig svona sjukan?“

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rásHleð...

Eingöngu gamlar fréttir!