Sunnudagur 25.03.2012 - 12:58 - FB ummæli ()

Af hverju stafar andstaðan?

Mér sýnist að þeir stjórnmálamenn sem eru sérstaklega andvígir því að þjóðin fái að kjósa um nýja stjórnarskrá týni fyrst og fremst til einhver smáatriði máli sínu til stuðnings.

Svona nánast smekksatriði.

Að heppilegra væri kannski að orða hitt eða þetta svona en ekki hinsegin.

Og svo nefna menn framgangsmátann við samningu frumvarpsins.

Leiðin er gagnrýnd, en minni höggstaður virðist finnast á áfangastaðnum.

Raunverulegur hugmyndafræðilegur ágreiningur um nýja stjórnarskrárfrumvarpið er nefnilega furðulega lítill.

Eiginlega alveg ótrúlega lítill.

Ég hef meira að segja orð eins gáfaðasta stjórnarskrársérfræðings sjálfstæðismanna fyrir því að í öllu stærstu dráttunum sé bara allt í lagi með frumvarpið (þótt eitthvað mundi hann eða hún kannski orða öðruvísi …).

Til dæmis er það tóm tjara að auðlindaákvæðið leiði til þess að einhverjar núverandi auðlindir í einkaeigu verði „þjóðnýttar“.

Sá sem heldur þvíumlíku fram er annaðhvort afar illa lesinn eða kýs að tala sér þvert um hug.

Það hvarflar því að manni sú spurning hvort andstaðan snúist ekki fyrst og fremst um tvennt.

Annars vegar geti sumir ekki fyrirgefið „venjulegu fólki“ að hafa komið saman því stjórnarskrárfrumvarpi sem reynst hefur stjórnmálamönnum og lagsmönnum þeirra ofviða í áratugi.

Hins vegar að ýmsir hagsmunaaðilar sem eru vanir að stjórna úr aftursætinu telji nýja stjórnarskrárfrumvarpið á einhvern hátt skerða sinn hlut.

Ég er smeykur um að þetta sé mergurinn málsins.

Og á þessum grundvelli muni sumir reyna að berjast með kjafti og klóm gegn því að þjóðin fái að kjósa um nýja stjórnarskrá.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!