Sunnudagur 05.04.2015 - 09:53 - FB ummæli ()

Sigmundur Davíð vill reisa sér minnismerki

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hefur líklega fyrir löngu gert sér grein fyrir því að ferli hans sem forsætisráðherra mun ljúka eftir tvö ár. Og kannski ferli hans sem stjórnmálamanns yfirleitt.

Það er eins og gengur, allt endar að lokum.

Nema hvað Sigmundur Davíð hefur því miður fengið þá hugmynd að reisa sér minnisvarða.

Í orði kveðnu á að minnast 100 ára fullveldis, en auðvitað er Sigmundur að hugsa um eigin arfleifð, eigin minnisvarða.

Og sá á að vera af flottara taginu.

Ekki tvö hús eins og Davíð lét reisa: Ráðhúsið og Perluna.

Nei, Sigmundur Davíð ætlar að reisa þrjú hús svo allir muni örugglega eftir honum í framtíðinni og hugsi með sér: Þarna er hús sem Sigmundur Davíð lét reisa.

(Svo ætlar hann auðvitað að fara út í bókaútgáfu, rétt eins og Davíð gerði sér til heiðurs á 100 ára afmæli heimastjórnar 2004.)

Ótrúlegt nokk, þá er eina húsið sem virkilega þarf að reisa – nýtt sjúkrahús – ekki á meðal þeirra húsa sem Sigmundur Davíð vill reisa sér til dýrðar.

Nei, það á að byggja nýtt Alþingishús, nýtt hús yfir Árnastofnun og af einhverjum ástæðum nýtt hótel á Þingvöllum.

(Það er þó líklega auðvelt að skilja það þegar að er gáð. Hann vill koma nafninu sínu fyrir á sjálfum Þingvöllum. Þá verður það nokkuð óafmáanlegt.)

Eins og svo margt sem Sigmundur Davíð tekur sér fyrir hendur þessi misserin, þá eru þessar hugmyndir hans með mestu ólíkindum.

Ekki síst að reisa Alþingishús eftir hundrað ára gömlum teikningum Guðjóns Samúelssonar.

Setningin úr þingsályktuninni: „Um leið og horft er til framtíðar er fortíðinni sýnd virðing og draumar fyrri kynslóðar uppfylltir í þágu framtíðarkynslóða“ er líklega nú þegar orðinn eftirminnilegri minnisvarði um feril Sigmundar Davíðs en margt annað.

Vonandi þarf ekki að eyða mjög mikilli orku í að ýta hugmyndinni um hið hundrað ára gamla Alþingishús út af borðinu. En sjá þó til dæmis hér.

En mikið væri gott ef Sigmundur Davíð hefði fengið aðra hugmynd um minnismerki fyrir sjálfan sig en að byggja hús.

Það er svo innilega ófrumlegt.

Snoturra hefði verið ef rifjast hefði upp fyrir Sigmundi að haustið 2012 var samþykkt með tveim þriðju greiddra atkvæða í þjóðaratkvæðagreiðslu að stjórnarskrárfrumvarp stjórnlagaráðs skyldi gert að undirstöðu nýrrar stjórnarskrár fyrir Ísland.

En ríkisstjórn Sigmundar Davíðs og Bjarna Benediktssonar hefur gefið skít í þann vilja þjóðarinnar.

Það væri mannalegra að minnast fullveldisins 1918 með því að snúa við því blaði en reisa monthús til dýrðar sjálfum sér.

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!