Miðvikudagur 25.5.2011 - 08:47 - 7 ummæli

Kynt undir fordómum!

Statistik sem sýnir að glæpatíðni sé hærri meðal fólks  sem ekki er búsett í upprunalandi sínu ber að taka af varúð.  Reyndar sýna tölur aðeins slíkt um tiltekna hópa og nýkomna.  En ýmislegt hjálpar þarna til.  Fordómar eru í garð fólks úr þessum hópi meðal almennings, lögreglu og dómara.  Margsinnis hefur verið sýnt fram á það að einstaklingar úr þessum hópi eru sjálfkrafa grunaðir, þeir eru meðal þeirra sem fyrst er athugað með.  Þeir nást sem sagt oftar en hinir. Það skekkir statistikina. Það er margt annað sem telur.  Einstaklingar úr þessum hópi eru oftar atvinnulausir en aðrir, búa iðulega við lélegri skilyrði en meðaljóninn.  Síðastir inn en fyrstir út þegar að kreppir um vinnu. Eiga takmarkaðan og oft engan rétt til bóta.  Fólk úr þessum hópi  stendur iðulega höllum fæti.  Það kann að vera hluti af skýringunni. Enginn fremur afbrot vegna þess að hann er af erlendu bergi brotinn.  Fólk úr þessum hópi á ekki að gjalda þess frekar en við sem erum vestan úr Dölum þó að glæpagengi fari milli landa og beri hér niður. Rétt og skynsamlegt og í samræmi  við gott siðferði og mannréttindasáttmála að líta á innflytjendur sem manneskjur en ekki sem hóp.  Það sama á við um hælisleitendur og flóttamenn og allar manneskjur.

Þess vegna eru fyrirspurnir eða orðræða sem tengir saman glæpi og útlendinga og sjúkdóma og útlendinga til þess fallnar að  auka enn á fordóma í samfélaginu og þar með erfiðleika margra.  Þeir sem bera slíkt fram sá fræjum ófarnaðar í sitt samfélag því að öll eigum við mikið undir því að sá hugsunarháttur sem hópgerir fólk víki fyrir hugsunarhætti sem lítur á manninn sem manneskju.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 24.5.2011 - 10:53 - 19 ummæli

Lýðsskrumsfyrirspurn!

Lýðskrumsflokkum sem ala á útlendingaótta hefur vaxið fiskur um hrygg í Evrópu á undanförnum árum og misserum.  Tónn forsvarsmanna meginflokka hefur sem viðbragð við þessu orðið óbilgjarnari í garð útlendinga en þeir hafa þó gætt sín að fara ekki yfir ákveðin strik.  Hér á Íslandi hafa smáflokkar jafnt sem meginflokkar verið til fyrirmyndar enda Íslendingar umburðarlyndir og mannelskir upp til hópa.  Nú hefur formaður Framsóknarflokksins vikið frá  þessum gildum sem mótuð hafa verið bæði á vettvangi Evrópuráðsins og Evrópusambandsins og tengir sama glæpi og útlendinga í lýðskrumsfyrirspurn á Alþingi Íslendinga.  Gamlir og grónir Framsóknarmenn ættu að taka formanninn á hné sér og kenna honum að ræða þessi mál án þess að ala á úlfúð í garð þeirra samborgara okkar sem eru af erlendum bergi brotnir eða innflytjenda og hælisleitenda almennt.

Kjósendur spörkuðu Frjálslynda flokknum út af borðinu fyrir sams konar tilburði.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 20.5.2011 - 09:58 - 3 ummæli

Þöggunarverksmiðjur!

Vitskuld á Árnessýsla að vera orðin eitt sveitarfélag.  Tímaskekkja er það að hafa sex til átta sveitarfélög fyrir 10.000 manns.  Lítil sveitarfélög eru þöggunarverksmiðjur.  Samkvæmt félagsfræðinni  er það fámennur hópur sem ræður því hvernig fólk situr og stendur í smáum sveitarfélögum, gjarnan hæft og duglegt fólk sem hefur hreiðrað vel um sig.  Skiptir ekki öllu máli hverjir eru í formlegri sveitarstjórn.  Engin fjölmiðlun er í svona sveitum – aðeins meðvitundarlaus auglýsingablöð.  Viðkvæm mál eru ekki rædd.  Allt er á slúðustigi. Þeir sem eru vanir opinnni umræðu og þeir sem vilja breytingar hrökklast gjarnan burt.  Svo maður haldi sig við heimahérað þá myndi ástandið skána ef Árnessýsla yrði eitt sveitarfélag, möguleikar opnast og magnast.  Áfram þyrftu allir þó að vera á andþöggunarverði og grípa þyrfti til átaks til að örva opna opinbera umræðu.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 17.5.2011 - 11:39 - Slökkt á athugasemdum við Kristinn Sigmundsson sjálfur…

Kristinn Sigmundsson sjálfur…

Það var einhverju sinni að ég var fenginn til að skíra í parhúsi í Reykjavík og ekki svo sem í frásögur færandi nema á sama tíma var Vigfus þór Árnason stórprestur að skíra í hinum hluta parhússins. Við Vigfús höfðum hist fyrir utan og þótti þetta skondin tilviljun en ég man að ég fann mikið til smæðar minnar þegar þessi reyndi og vinsæli Reykjavíkurprestur bar með sér heljarmikið kassettutæki.  Þegar ég svo var að hefja skírnarundirbúning hjómaði þessi líka myndarlegi söngur –það var greinilegt að stofurnar lágu hvor að annarri-með þessum líka fína undirleik.  Ég sá að við myndum aldrei matsa þetta og okkar söngur yrði næsta  ámátlegur í samanburði, svona undirspilslaust.  Sá ég að fólkið leit á mig og spurði í huganum: Af hverju fengum við ekki þennan prest með kasettutækið?

En  kraftaverkin gerast enn.  þegar ég er að kanna hitastig skírnarvatnsins og svona,  birtist þá ekki Kristinn Sigmundsson í dyrunum.  Sá hinn sami og var að taka við viðurkenningu úr hendi forseta  Íslands í gær fyrir söng sinn.  Kristinn var skyldmenni barnsins og var mættur í skírnina. Breyttist nú allt andrúm.  Séra Vigfús gat vart haldið athygli fólks í stofunni sín megin meðan undurfögur rödd Kristins hljómaði  um hverfið í skírnarsálmnum Ó, blíði Jesú blessa þú…….. Hafði ég spurnir af því síðar meir að fólk hefði spurt hver hann væri þessi prestur sem  tæki  sjálfan Kristinn Sigmundsson með sér í skírnir…..

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 15.5.2011 - 11:06 - 9 ummæli

Hörpuhátíð og íslenskt snobb!

Harpa er stórglæsilegt hús og allir Íslendingar hafa lagt fram fé til þess. Sumir af digrum sjóðum sínum. Aðrir af skorti sínum og þá á ég við skattgreiðendur á lágmarkslaunum.  Þeir eru miklu merkilegri en hinir skv. ritningunum t.d. sbr. söguna um fátæku ekkjuna. Fiskvinnslukonurnar sumar þeirra ekkjur, íslenskar sem tailenskar ,voru hins vegar ekki við opnunarhátíðina.  Þeim var hins vegar boðið að koma daginn eftir en fengu ekki einu sinni að setjast í fína salnum en urðu að troðast og standa þreyttar og lúnar á göngunum sem fína fólkið, sem ekki þarf að standa alla vikuna,  notar til að komast í boðssæti sín.

10-15% af þjóðinni eru tiltölulega nýkomin til landsins. Fulltrúar þess hóps voru í myndarlegri karnivalgönguhátíð í Reykjavík í gær og guði sé lof fyrir innflytjendur segi ég, hvílíkt  sem þeir hafa auðgað litbrigðalítið íslenskt samfélag.  Innflyjendur voru  heldur ekki á opnunarhátíðinni.  Það er ekki vegna kynþáttafordóma þeirra sem sömdu boðsmiða heldur vegna þess að útlendingar eru í illa launuðum og erfiðum störfum í íslensku samfélagi .  Hafa  ekki hlotið eðlilegan framgang í störfum sínum eða ráðið í áhrifastöður. 

Þeir sem sömdu boðsmiða hafa enga fordóma gagnvart misheppnuðum bisnissmönnum og pólitíkusum. Þarna var gamla Ísland, eilífðarísland, lifandi dautt komið.  Þarna misfórum við með gullið tækifæri til þess að hefja nýtt líf enda höfum við sem þjóð ekki farið í neina meðferð.  Þeir sem settu hér allt  á hausinn og  eru enn  að skella hurðum eða að skríða úr skjóli sínu voru þarna í tugavís.  En hvað áttum við að gera?  Við áttum að halda tíu jafngildar opnunarhátíðir og bjóða öllum þeim sem vildu koma og sækja miða sína fyrir tiltekinn dag. Jafnframt hefði verið sett sú áætlun upp að allir Íslendingar  hefðu komið í Hörpu og nútímamarkaðsfræðum beitt til  þess að örvar fólk til að koma.

Ef einhver hópur hefði átt að hafa forgang þá er það tónlistafólk; píanóleikarar en ekki prelátar, banjóleikarar en ekki bisnissmenn, hörpuleikarar en ekki háir herrar, organistar en ekki prestar.

Ég er hins vegar í hópi þeirra sem þakka fyrir þetta hús, íslensku láglaunafólki.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 13.5.2011 - 22:55 - 5 ummæli

Um Kynþætti- berist til Illuga og Þorvaldar!

Ég les það að Stjórnlaganefndin ætli að taka út hugtakið ,,kynþáttur“ úr mannréttindakafla stjórnarskrárinnar.  Ég þekki rökin þau að mannkynið sé einn kynþáttur, ekki margir. En þrátt fyrir það hafa mannréttindanefndir á heimsvísu ekki yfirgefið hugtakið.  Það er af mörgum ástæðum.  Hugtakið kynþáttur hefur fengið þá merkingu að það feli í sér uppruna/arfgerð/litarhátt, er e.k. regnhlífarhugtak yfir þetta allt saman.  ECRI, nefnd Evrópuráðsins, hefur rætt þetta í þaula og komist að þeirri niðustöðu að ekki sé rétt að leggja af hugtakið ,,race“ (á ensku) eða ,,kynþáttur“, en ástæða til að hafa það í gæsalöppum og það gerum við.  Það er fleira í þessu. Hvað ætlum við að gera við orðin ,,kynþáttaníð“, ,,kynþáttahatur“, ,,kynþáttahyggja“? Eru þau þá úrelt líka?  Verðum við að fara að tala um ,,arfgerðarhyggju“? ,,Arfgerðarníð“? Ég ítreka:  Það er klárt fyrir hvað þessi orð standa, hvað þau þýða.  Þessi orð eru baráttutæki, vísa til hyggju sem byggir á hópar fólks séu misjafnir eftir arfgerð, uppruna, litarhætti, þjóðerni og trú iðulega tekin þarna inn í.

Annað atriði líka:  Er ekki mikilvægt að stjórnarskráin kallist á við Mannréttindasáttmála Evrópu. Í 14. grein þar er hugtakið ,,kynþáttur“ og líka í viðauka nr. 12 og líka í Mannréttindasáttmála SÞ?  Kunna að vera einhver rök fyrir því að þessu hefur ekki verið breytt? Viðauki nr. 12 er nýlegur!  Er nauðsynlegt að Íslendingar skipi sér  í forystu í þessum málum?  Er það ekki oflæti? Útrásaroflæti?  Er Stjórnlagaráðið gáfaðra en alþjóðlegar nefndir?

Ég er ekki að segja að þetta kunni ekki að vera rétt. Og það er vissulega rétt út frá því séð að mannkynið er einn kynþáttur. En þá þurfa menn að absalútt öruggir á því að missir þessa hugtaks úr stjórnarskrá, þar sem það er nú, hafi ekki illfyrirsjáanlegar afleiðingar gagnavart refsilöggjöf landsins, gagnvart almennri löggjöf, gagnvart mannréttindadómstóli Evrópu, mannréttindasáttmálum, gagnvart fólki sem kynþáttaofstæki bitnar á?  Menn þurfa að vera absalútt pottþéttir á því að brottfallið veiki ekki með nokkrum hætti baráttuna gegn ,,kynþáttaníði“ og kynþáttafordómum“?

Ég hef, eins og svo margir aðrir,  mikla trú á Mannréttindaráði og fylgist spenntur með kommentum Þorvaldar og Illuga á facebook og beini þessu þess vegna til þeirra. Þið fyrirgefið áhuga minn auðvitað sem er mikill því að ég hef unnið með þetta hugtak æði lengi á vettvangi Evrópuráðsins.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 13.5.2011 - 10:34 - 13 ummæli

Snúast útvegsmenn og bændur til ESB aðildar?

Tvær grímur renna nú á marga útvegsmenn að eftir allt saman yrði hagur þeirra betur tryggður innan ESB en utan.  Utan ESB eiga þeir allt undir duttlungum ríkisstjórnar sem þeir álíta fjandsamlega og er að þeirra dómi að svíða auðlindina úr höndum þeirra.  Á meðan er ESB að taka upp kvótakerfi og reglur Evrópusambandins munu örugglega banna vina og kjördæmadreifingu á kvóta en slík er ætlun Jóns Bjarnasonar segja þeir.  Margir útvegsmenn hafa ofaní kaupið mikil viðskipti við ESB lönd og eru fyrir löngu búnir að sjá það að ESB er hið besta mál.

Hætt er við að einnig renni tvær grímur á bændur nú þegar sala á skyri og kjöti hefur aukist upp úr öllu valdi í Evrópu og íslensk stjórnvöld þurfa að sækja um að kvótaþaki verði lyft. Ef við gengjum í ESB þyrfti ekki að sækja um neinar undanþágur. Sennilega gætum við tvöfaldað nautgriparækt og sauðfjárrækt  með inngöngu í ESB.   Þeir sem selja bændum mjaltavélar og önnur tæki til landbúnaðarbrúks gætu þá stóraukið gróða sinn. Alþingismaður athugi það.

Að auki fara  flestir bændur  nú í bændaferðir til Evrópu og sjá að Evrópa er hið besta mál, góður matur og allt það.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 11.5.2011 - 08:49 - 3 ummæli

Evrópusiðfræði!

Ekki fannst mér lagið nógu gott og mér fannst flytjendurnir reyna of mikið að vera glaðir og hressir í flutningnum en ég trylltist af gleði þegar nafn Íslands kom upp.  Þjóðarmetnaður, þjóðarást, hvað var í gangi?  Norska lagið var betra að mínum dómi. Réttlætiskennd minni hefði átt að vera ofboðið?   Annars  var einkennilegt  að Tyrkir komust ekki áfram. Þeir eru fjölmennir utan heimalands. Rússar komast alltaf áfram sagði þulurinn. Það á sér þær einföldu skýringar (fyrir utan góð lög) að fólk af Rússnesku bergi brotið er fjölmennt í öllum fyrrverandi Sovétlýðveldum, nefni Úkraínu þar sem Rússneskumælandi fólk nálgast helming þjóðarinnar, en gæti nefnt þau flest. Georgíumenn eru mjög fjölmennir utan síns heimalands. Sama má segja um Armena og Azerbadjana.  Þá má nefnda Balkanskagann þar sem fjölmennir fulltrúar allra landa eru í öllum löndunum.  Stundum í skemmtilega stórum slumpum.  Í Monenegro eru Serbar t.d. skilgreindur minnihlutahópur upp á 30% íbúa. Kannski Íslendingar séu farnir að njóta kreppunnar í þessum efnum en þeim fjölgar nú mjög í öðrum löndum.  Evrópumósaíkin er fróðleg pæling.  Í öllum löndum er fólk sem  hefur miklar taugar til tveggja jafnvel þriggja landa.  Við fundumþað í gær að Ísland á prýðilega heima í Evrópufjölskyldunni enda búa nú stöðugt fleiri Íslendingar á meginlandinu.  Er það ekki hið besta mál?  Við lifum sem betur fer á tímum þegar verslun og viðskipti eru frjáls milli ríkja Evrópu og fólk getur ferðast óhindrað og kosið sér samanstað.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 8.5.2011 - 11:08 - Slökkt á athugasemdum við Fermingarsiðfræði!

Fermingarsiðfræði!

Lífið er skrítin dós.  Áður en maður veit af er maður orðinn hundgamall, skjöktandi um.  Á ykkar aldri krakkar var það  óraunverulegt að maður yrði nokkurn tímann eins og þessir gömlu karlar og kerlingar sem þá voru og eru nú í moldinni. Það sem framundan er virkar sem sagt æði fjarlægt en það sem á bak við er komið eins og augnablik. Og á mínum aldri verður maður að kljást við að sætta sig við öll glötuðu tækifærin, það sem hefði getað orðið, bara að ég hefði lagt harðar að mér, sinnt mér og mínum betur. Hvað hefði orðið þá? Fullorðinn fer í gegnum þann feril að sættast við sjálfan sig. Það er mönnunum eðlislægt..að sættast við sjálfan sig og gera eins vel og hægt er það sem eftir lifir æfi, en óneitanlega verður það auðveldara að sættast við sjálfan sig ef maður hefur alltaf reynt að gera sitt besta. Ef maður hefur ekki verið algjör drullusokkur svo töluð sé íslenska.

Þetta skuluð þið hafa í huga krakkar.  Það er örstutt þangað til þið þurfið að fara sættast við sjálf ykkur.  Leggjast út af í sófann og líta yfir farinn veg.  Notið því stundirnar sem þið eigið á uppbyggilegan hátt.  Verið ræktarsöm við ykkar nánustu/vinaföst/lesið, lærið og hugsið- verið metnaðargjörn og ákveðin en þó sanngjörn og réttsýn – verið ekki alveg eins og allir hinir.  Þá fyrst verðið þið áhugaverð.  Og takið það besta upp úr kristinni kenningu  og hafið sem leiðarljós.  Ef þið takið mið af  þessu  hef ég þá trú að ykkur reynist það létt verk að sættast við ykkur sjálf þegar þið verðið komin á níuna (íbúðir fyrir aldraða -innsk. BK) eftir nokkur ár.

Í guðspjallinu er einmitt vikið að elli og æsku.  Þegar þú varst ungur, segir Jesú, bjóstu þig sjálfur og fórst hvert sem þú vildir, en þegar þú ert orðinn gamalll munt þú rétta út hendurnar og annar býr þig og leiðir þig (þangað sem þú vilt ekki). 

Nú eruð  þið á því stigi að klæða ykkur sjálf og getið farið hvert sem þið viljið.  Veljið vel veg ykkar.  Sá tími kemur að það verð‘ur ekki eins og auðvelt og áður að fara þangað sem maður vill fara.  En þótt þið farið um dimman dal þá mun ykkur ekkert bresta því að, ekki satt:  ,,Drottinn er minn hirðir/mig mun ekkert bresta….

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 7.5.2011 - 15:26 - 8 ummæli

Afturhaldsfasistatítur

Eftir komu Davíðs Oddsonar í stjórnmálin um 1980 færðist aftur mikil harka í orðræðuna af hálfu Sjálfstæðisflokksins.  Árin þar á undan höfðu miklir sjentilmennverið í farabroddi, menn eins og Geir Hallgrímsson, Birgir Ísleifur Gunnarsson, Gunnar Thoroddssen, Magnús L. Sveinsson svo nokkur nöfn séu nefnd. Með komu Davíðs Oddssonar jókst harkan eins og hann hefur sjálfur lýst.  Einskis var látið ófreistað til þess að grafa undan málum, góðum sem slæmum.  Orðbragð allt varð harkalegra og hæðst var að andstæðingnum ef færi gafst.  Hætt var að skafa utan af hlutunum. Þó má kannski frekar þakka hugmyndafræðingi Davíðs, Hannesi Hólmsteini, orðbragðið sem menn fóru að nota og persónulega slúðrið sem varð alls ráðandi.  Þessir menn færðu miðjuna í íslenskum stjórnmálum langt til hægri og stigmögnuðu alla orðnotkun.  Vinstri menn svöruðu ekki fyrir sig.  Þeir voru ljúfir sem lömb, hrukku ekki við þó þeir væru kallaðir kommúnistar og landráðamenn.  Framsóknarmenn voru teiknaðir upp sem aular.

Dettur mér þetta í hug að Þráinn Bertelsson er farinn að nota nakin orð og skefur ekki utan af hlutunum. Tilgangur hans er augljós.  Að færa umræðuna til.  Jafna út kommúnistatalið.  Svo getur fólk deilt um hvort verra er að vera afturhaldskommatittur eða kommúnistadindill svo tekin séu orð úr munni foringjans eða fasistabelja svo tekið sé orð úr munni Þráins.  Þráinn hefur reyndar vinninginn.  Fasistabelja er ljótt orð og á ekki að nota um neinn. Aftuhaldsfasistatítur hefði verið betra.

Annars er það skoðun undirritaðs að menn eigi að nota falleg orð hver um annann og þá er sama hvaða málstað þeir verja í stjórnmálum.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur