Statistik sem sýnir að glæpatíðni sé hærri meðal fólks sem ekki er búsett í upprunalandi sínu ber að taka af varúð. Reyndar sýna tölur aðeins slíkt um tiltekna hópa og nýkomna. En ýmislegt hjálpar þarna til. Fordómar eru í garð fólks úr þessum hópi meðal almennings, lögreglu og dómara. Margsinnis hefur verið sýnt fram á það að einstaklingar úr þessum hópi eru sjálfkrafa grunaðir, þeir eru meðal þeirra sem fyrst er athugað með. Þeir nást sem sagt oftar en hinir. Það skekkir statistikina. Það er margt annað sem telur. Einstaklingar úr þessum hópi eru oftar atvinnulausir en aðrir, búa iðulega við lélegri skilyrði en meðaljóninn. Síðastir inn en fyrstir út þegar að kreppir um vinnu. Eiga takmarkaðan og oft engan rétt til bóta. Fólk úr þessum hópi stendur iðulega höllum fæti. Það kann að vera hluti af skýringunni. Enginn fremur afbrot vegna þess að hann er af erlendu bergi brotinn. Fólk úr þessum hópi á ekki að gjalda þess frekar en við sem erum vestan úr Dölum þó að glæpagengi fari milli landa og beri hér niður. Rétt og skynsamlegt og í samræmi við gott siðferði og mannréttindasáttmála að líta á innflytjendur sem manneskjur en ekki sem hóp. Það sama á við um hælisleitendur og flóttamenn og allar manneskjur.
Þess vegna eru fyrirspurnir eða orðræða sem tengir saman glæpi og útlendinga og sjúkdóma og útlendinga til þess fallnar að auka enn á fordóma í samfélaginu og þar með erfiðleika margra. Þeir sem bera slíkt fram sá fræjum ófarnaðar í sitt samfélag því að öll eigum við mikið undir því að sá hugsunarháttur sem hópgerir fólk víki fyrir hugsunarhætti sem lítur á manninn sem manneskju.