Föstudagur 6.5.2011 - 10:24 - 3 ummæli

Tek Eygló uppí!

Eygló Harðardóttir er að fara að hlaupa 21 kílómetra til að styrkja konur sem fást við legslímuflakk og skrifar um það.   Það minnir mig á að ég hljóp einu sinni 21 kílómetra reyndar upp úr þurru og lenti í svolitlum vandræðum.  Ég var þá virðulegur sóknarprestur á Höfn í Hornafirði og lagði upp frá grindarhliðinu á Höfn að áliðnum morgni og hljóp sem leið liggur inn í Nes og átti fremur létt með að hlaup aldrei þessu vant þannig að þegar ég er kominn í námunda við Nesjahverfið og Nesjaskóla, ákvað ég að láta slag standa, gera þetta að degi lífs míns og hlaupa inn að Hoffellsá en ég vissi að það var 21 kílómetri.  Nálgast nú hádegi og verður nú verulega heitt í veðri.  Ríf ég mig smám saman úr hlaupafötunum og að hlaupi loknu átta ég mig á því að ég stend í leikfimibuxum einum fata og á eftir að koma mér niður á Höfn.  Stend þarna rindilslegur, kófsveittur og hálfnakinn við brúarsporðinn og kom í ljós að virðuleiki sóknarprestsins helgaðist af fötum hans og engu öðru. Margir óku framhjá og gáfu í en tvær ungar stúlkur saman í bíl þorðu fyrir rest að stoppa og ég verð að segja alveg eins og er að mér hefur sjaldan liðið jafn illa þennan spotta niður á Höfn, rindilslegur, sveittur og hálfber sóknarprestur innan um kankvíslegt glottið á ungmeyjunum sem burðast sjálfsagt enn með þessa óhrjálegu sýn í sálu sinni.

Vona ég að Eygló taki mið af reynslu minni en ef ekki skal ég með glöðu geði taka hana uppí.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 4.5.2011 - 18:20 - 3 ummæli

Fátækt á Íslandi!

Á mesta velferðarskeiði Íslandssögunnar jókst misskipting í landinu. Eftir hrun hefur mistekist að verja hag þeirra sem minnst mega sín. Útilokað er að lifa af lægstu launatöxtum eða örorkubótum og atvinnuleysi er mikið. Fátækt hefur aftur numið land á Íslandi. Fjöldi Íslendinga sveltur. Það hefur Guðmundar Magnússonar, formaður Öryrkjabandalagsins, bent á og prestar finna fyrir því sama í störfum sínum.Þjóðmálanefnd kirkjunnar kallar til málþings um fátækt á Íslandi föstudaginn 6. maí. Þar verður leitað svara við því hvernig við eigum að bregðast við fátæktinni og hvernig við getum stutt við fólk í að halda reisn sinni þrátt fyrir erfiðar fjárhagslegar aðstæður.

Flutt verða tvö framsöguerindi:

      Bjarni Karlsson: Ástandið á Íslandi.

      Vilborg Oddsdóttir: Fyrirkomulag innlends hjálparstarfs.

Þórhallur Heimsson, sóknarprestur í Hafnarfjarðarkirkju, mun bregðast við erindum og leiðir þátttakendur inn í almennar umræður.

Málþingið verður haldið á Torginu í safnaðarheimili Neskirkju milli kl. 12 og 13:30, föstudaginn 6. maí. Fundarstjóri verður Anna Sigríður Pálsdóttir, Dómkirkjuprestur.

Hér með eru allir innan sem utan kirkju: prestar, biskupar, forystumenn hagsmunasamtaka, Alþingismenn, ráðherrar og það sem mestu máli skiptir venjulegir menn, karlar og konur, hvött og hvattir til þess að láta sig þetta brýna samfélagsmálefni varða, fræðast og vitna með nærveru sinni um alvarleik þessa brýna viðfangsefnis.

Um fyrirlesarana

Bjarni Karlsson er sóknarprestur í Laugarneskirkju. Hann hefur látið sig málið varða innan kirkju og á vettvangi Reykjavíkurborgar.

Vilborg Oddsdóttir er félagsráðgjafi hjá Hjálparstarfi kirkjunnar, hefur kvatt sér hljóðs um þennan vágest fátæktina í íslensku samfélagi.

Úr Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu Þjóðanna

,,Allir þjóðfélagsþegnar skulu … eiga rétt á félagslegu öryggi og þeim efnahagslegu, félagslegu og menningarlegu réttindum, sem eru nauðsynleg til þess að virðing þeirra og þroski fái notið sín.“

,,Allir eiga rétt á lífskjörum sem nauðsynleg eru til verndar heilsu og vellíðan þeirra sjálfra og fjölskyldu þeirra. Telst þar til fæði, klæði, húsnæði, læknishjálp og nauðsynleg félagsleg þjónusta, svo og réttur til öryggis vegna atvinnuleysis, veikinda, fötlunar, fyrirvinnumissis, elli eða annars sem skorti veldur og menn geta ekki við gert. Mæðrum og börnum ber sérstök vernd og aðstoð.“

(eigandi síðunnar er formaður Þjóðmálanefndar Þjóðkirkjunnar sem stendur fyrir málþinginu)

Bestu kveðjur /Best regards

*******************

Baldur Kristjánsson Th.M. Cand Theol  B.A.Soc

Sóknarprestur/parish priest og/and Member of ECRI

Sími/Telephone:  (354) 4833771 / 8980971

www.baldur.is   bk@baldur.is

Bestu kveðjur /Best regards

*******************

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 29.4.2011 - 09:17 - 5 ummæli

Í klóm hagsmunasamtaka

Jóhanna Sigurðardóttir er ekki gallalaus einstaklingur. Hún er eins og aðrir barn síns tíma. Þannig henti hún undirrituðum út úr launalausri nefnd um aðlögun vinnutilskipana ESB vegna þess eins að hann var í upphafi tilnefndur í nefndina af Framsóknarflokknum (það var þá).  Ég hafði lagt einna mest til í nefndinni enda þarna sem sérfræðingur í misréttisákvæðum.  Eftir sátu  fulltrúar verkalýðsforystu og atvinnurekenda enda dagaði nefndin uppi og tilskipanirnar eftir því sem ég best veit út á túni. Óháð þessu hefur mér alltaf blöskrað hvernig talað er um og til Jóhönnu sem forsætisráðherra og gengur þar fremstur í flokki ósvífinn talsmaður Landssambands íslenskra útvegsmanna.  Reyndar er ósvífnin gagnvart þessari ríkisstjórn með ólíkindum eins og Teitur Atlason hefur bent á.  Blásið er í allar flautur, spilað á alla strengi, leikið á allar tilfinningar til þess að koma málum og málatilbúnaði stjórnarinnar fyrir kattarnef og eins og fyrri daginn bila einhverjir yst til vinstri í nafni hugsjóna og skoðanafestu. Vonandi stendur stjórnin galdrafárið af sér en það versta er að við fáum aldrei að vita hvernig þjóðinni hefði gengið ef stjórnin hefði komist sæmilega vel áfram með málatilbúnað sinn.  Vonandi komumst við sem fyrst úr klóm hagsmunasamtaka. Þegar öllu er á botninn hvolft er  lýðræðið á Íslandi og þingræði í fjötrum hagsmunasamtaka og hefur alltaf verið líklega.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 27.4.2011 - 13:52 - 3 ummæli

Ræðan öll….!

Náð sé með ykkur og friður!

Það er með hreinum ólíkindum hvað Íslendingum hefur tekist að spila illa úr komu sinni hingað til lands. Þeir sem fluttu hingað voru þeir sem ekki gátu sætt sig við breytta tíma – vildu áfram fá að vera sjálfstæðir smáhöfðingjar í stöðugum innbyrðis bardögum, sitjandi á stöðugum svikráðum hver við annan.  En Ísland varð aldrei fyrirmyndarríki þeirra, frelsisunnandi manna, útlaga, sem ekki gátu sætt sig sameinaðan Noreg.  Þjóðfélagsþróunin í Noregi líkt og öðrum löndum álfunnar var á þessum tíma í áttina til stærri og skipulagðari ríkja, áttina til þess sem varð og er í dag. Okkar menn viku sér undan þróuninni.  Flúðu til fjarlærgrar eyjar og héldu sínum upptekna hætti, börðust innbyrðis á meðan bókmenntafólkið skapaði ódauðleg listaverk um þessa hegðun.  Þetta ástand gekk ekki lengi og eftir nokkra mannsaldra var þetta fólk komið undir Noregskonung, síðar Dani, það kólnaði.  Menn höfðu eytt birkiskógum.  Fólk hírðist hér við illan kost í sjö hundruð ár, framtakslaust, forystulaust, alið var á andúð í garð Dana og annarra útlendinga.  Þjóðin varð bláfátæk. Auðlindin í sjónum lá ónotuð svo og verksvit og samtakamáttur, hörmulegt tímabil í sögu þjóðar sem var fátækust þjóða í Evrópu öldum saman.

Vondir útlendingar

Sjálfstæð í miðju stríði sem hún græddi á.  Flutti úr örbirgð og framtaksleysi sveitanna. Þjóðin varð rík en kunni ekki fótum sínum forráð.  Eins og með flestum litlum þjóðum náðu tiltölulega þröngar klíkur völdum, mótuðust í hermanginu, og héldu þeim þar til oflátungsháttur og uppskafningsháttur skilaði sér í allsherjar hruni og enn er hver höndin upp á móti annarri, engin samstaða um neitt, bak við tjöldin er nánast blóðug barátta um auð og völd og líkt og í allri sögu þjóðarinnar gengur þeim einna best sem tala illa um vonda útlendinga.  Við kusum ríkisstjórn til þess að hafa forystu um leiðina upp úr hruninu.  Á öllum vígstöðvum er reynt að bregða fæti fyrir málatilbúnað hennar.   Rétt kjörin yfirvöld eru töluð niður af varnvirðingu af jakkaklæddum hagsmunagæslumönnum.  Þjóðin hefur ekki hugmynd um það hvað snýr upp og hvað niður en er á góðri leið með því að tefla frá sér góðri framtíð.

Allt logar í innbyrðis átökum

Og hvað kemur þetta upprisufrásögunni við.  Ekkert sérstaklega en þó algjörlega. Kristinn boðskapur á erindi inn í allar aðstæður.  Fagnaðaerindi JK tekur til mannsins alls.  Þannig eiga lýðræðishugmyndir rót í því að allir séu skapaðir jafnir.  Jafnaðarhugsjónin sömuleiðis.  Að þjóðfélag sé réttlátt og stjórnskipun þess er virt er því kristið mál.  Kirkjan hefur nú um stundir áhyggjur af íslensku samfélagi. Biskupinn segir nú á páskum 2011 að hér logi allt í innbyrðis átökum, tortryggni og sundurlyndi og allir vita að það er alveg rétt. Ríkisstjórn landsins er töluð niður, daglega. Konan sem veitir henni forstöðu vanvirt í orðræðu, stöðugt pönkast á henni.   Ekkert er til sem heitir klapp á bakið.  Við högum okkur ekki eins og lið þar sem menn peppa hvert annað upp og stefna er að sama marki, frekar má líkja okkur við úlfahjörð urrandi, bítandi, nagandi.  Sundurlyndisfjandinn gengur laus. Sameiginlegt markmið þjóðarinnar er ekkert – hér reynir hver sem betur getur að skara eld að eigin köku og ytri ramminn veitir enga vernd.  Þú átt hlut í íbúð í dag en ekki á morgun.  Bíllinn sem þú ætlaðir að kaupa er helmingi dýrari í dag en í gær, kaupið þitt minna virði.  Það eru komnar biðraðir við staði sem úthluta mat. Á meðan ganga sumir í skóm sem kosta 3000 dollara og eiga mörg slík pör inní skáp.

Hvers vegna sveltur fólk hér?

Nú er okkur ýmislegt gott í blóð borið. Eiginleikar sem kirkjan vill fóstra og næra eru áberandi í fari okkar. Hlýja, mannkærleikur, góðsemi, samlíðan eru þættir í fari okkar sem dags daglega skora hátt og eru meira áberandi hjá flestum, oftast, en græði, tillitsleysi og eiginhagsmunasemi.  En það er eins og okkur takist ekki að nýta þessa allskostar þessa eiginleika þegar kemur að samfélaginu sem slíku.  Það er eins og þessir eðlisgóðu kostir séu fyrst og fremst fyrir almúgann og megi helst ekki tala um þá nema á sunnudögum og þá í orðflúri sem sneiðir hjá nokkurrri skírskotun sem gæti komið þeim illa sem eru hafa komið sér fyrir sólarmegin í tilverunni.  Kirkjan er kerfisbundið skömmuð ef hún fer of mikið að tala um misskiptingu, fátækt – ef hún fer að skipta sér af pólitík eins og það er kallað.  Og pólitík kirkjunnar hefur því miður oftast verið að liggja lágt. Syrgja með syrgjendum, vitja þeirra sem hafa misst allt sitt, býsnast í hófi yfir misskiptingu og óréttlæti og þá helst á heimsvísu en spyrja ekki alvöruspurninga nema þámjög kurteislega:  Spurninga eins og: Hvers vegna sveltur fólk hér? Hvers vegna öll þessi fátækt?  Hvers vegna þarf fólk að vinna frá morgni til kvölds fyrir smánarupphæð? Hvers vegna þurfa ungar konur og gamlar, þreyttar og slitnar konur að standa í tíu tíma á dag á hörðu gólfi oft í kulda fyrir laun sem duga ekki til framfærslu á meðan aðrir ganga í 3000 dollara skóm og eiga mörg slík pör inn í skáp?

Samtakamátturinn

Brimið hérna fyrir utan Strandarkirkju hefur undanfarið verið með líkum hætti og var þegar þeir komu hér drengirnir sem byggðu kirkjuna………………………….þeir voru sannfærðir um að þeir væru að farast úti í brimgarðinum…..sáu ljósið…………………og réru að því allir sem einn.  Þeir réru ekki í sitt hvora áttina………..þeir efuðust ekki um forystu þess sem kjörinn hafði verið til að stjórna skipinu……….þeir fóru ekki að rífast….þeir stefndu að sama marki og þegar birti að morgni sáu þeir að samtakamátturinn hafði fleytt þeim í gegnum örmjóa rennu gegnum breiðan brimgarð og þeir þökkuðu Guði og reistu kirkju.

Rótast um á hægri þóftunni

 Íslenska þjóðin, öll á bátnum,  hefði farist við þessar aðstæður.  Svo mikið er víst.  Við stefnum ekki á neitt ljós. Ef Jóhanna, sem var þó kjörin til að stjórna, og hlýtur að samlíkjast hinum forna formanni, bendir á ljós gellur við í öðrum. Þetta er villuljós.  Stefnum frá því  hrópar annar í gegnum brimgnýinn.  Menn hefðu lagst á árar í allar áttir.  Sérstaklega hefðu þeir látið illa sem voru á vakt þegar báturinn lenti í þessum ógöngum. Þeir hefðu rótast um á hægri þóftunni og nánast tryggt að í enga átt væri haldið.   Ekki þarf að efast um afdrif bátsins.

Þeim sem minnst mega sín

Við munum auðvitað sem þjóð lifa eitthvað áfram en öll þessi óeining, þetta samstöðuleysi mun bitna á okkur og þá mest þeim sem minnst mega sín meðal vor. Mál er að linni.

Dýrð sé Guði!

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 25.4.2011 - 10:59 - 34 ummæli

Illa heppnaðir Íslendingar!

Það er með hreinum ólíkindum hvað Íslendingum hefur tekist að spila illa úr komu sinni hingað til lands. Þetta var aldrei fyrirmyndarríki útlaga sem ekki gátu sætt sig sameinaðan Noreg.  Þeir sem fluttu hingað voru þeir sem ekki gátu sætt sig við breytta tíma – vildu áfram fá að vera sjálfstæðir smáhöfðingjar í stöðugum innbyrðis bardögum, sitjandi á stöðugum svikráðum hver við annann. Þjóðfélagsþróunin í Noregi líkt og öðrum löndum álfunnar var í áttina til stærri og skipulagðari ríkja, áttina til þess sem varð og er í dag. Okkar menn viku sér undan þróuninni.  Flúðu til fjarlærgrar eyjar og héldu sínum upptekna hætti, börðust innbyrðis á meðan bókmenntafólkið skapaði ódauðleg listaverk um þessa hegðun.  Þetta ástand gekk ekki lengi og eftir nokkra mannsaldra var þetta fólk komið undir Noregskonung, síðar Dani, það kólnaði.  Menn höfðu eytt birkiskógum.  Fólk hírðist hér við illan kost í sjö hundruð ár, framtakslaust, forystulaust, alið var á andúð í garð Dana og annarra útlendinga.  Þjóðin varð bláfátæk. Auðlindin í sjónum lá ónotuð svo og verksvit og samtakamáttur, hörmulegt tímabil í sögu þjóðar sem var fátækust þjóða í Evrópu öldum saman.

Skrifstofumaður á launum hjá Dönum Jón Sigurðsson annaðist sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar sem hoppaði út úr Danska konungsríkinu í miðri heimsstyrjöld til þess að lenda ,,de facto“ á yfirráðasvæði Bandaríkjamanna.  Þjóðin varð rík en kunni ekki fótum sínum forráð.  Eins og með flestum litlum þjóðum náðu tiltölulega þröngar klíkur völdum og héldu þeim þar til oflátungshátturinn skilaði sér í allsherjar hruni og enn er hver höndin upp á móti annarri, engin samstaða um neitt, bak við tjöldin er nánast blóðug barátta um auð og völd og líkt og í allri sögu þjóðarinnar gengur þeim einna best sem tala illa um vonda útlendinga.  það má því segja svona í snarheitum að Íslendingar séu illa heppnað fyrirbrigði.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 19.4.2011 - 10:09 - 3 ummæli

Sigrúnu í Skálholt

Tíðindi  aprílmánaðar í þjóðkirkjunni eru  að kona, Sigrún Óskarsdóttir, varð efst í vígslubiskupsforvali kirkjunnar.  Aðeins eitt atkvæði vantaði upp á það að önnur kona Agnes Sigurðardóttir kæmist einnig í úrslit .  Þær stöllur skákuðu Kristjáni Val Ingólfssyni helsta helgisiðasérfræðingi kirkjunnar og Karli Matthíassyni viðurkenndum og vinsælum vímuefnapresti sem  býr nú að því óvænta hlutskipti að verða fórnarlamb niðurskurðarhnífsins enda hefur drykkja minnkað í kreppunni og óþarfi að vera með einhverja  vímuvarnarsplæsingu og nær að huga að hátíðarmessum.

Það er sem sagt góður möguleiki  á því að kona setjist í hinn eftirsótta  vígslubiskupsstól í Skálholti.  Þetta er tækifæri sem kirkjan  má ekki láta fram hjá sér fara.  Jón Dalbú Hróbjartsson, sem varð annar í forvalinu og keppir til úrslita er hæfur maður og hann myndum við ef til vill kjósa ef hinir biskuparnir tveir væru konur. Biskupar eru hin opinberu andlit kirkjunnar – hennar logo- og það náttúrulega gengur ekki að biskupar hennar þrír séu allir karlar á virðulegum aldri  hversu ágætir þeir eru hver fyrir sig.

Að kjósa Sigrúnu í Skálholt er tækifæri sem kirkjan getur ekki látið fram hjá sér fara.  Fyrir utan það að Sigrún Óskarsdóttir er prýðilega hæf þá myndi kirkjan með því endurspegla samfélag sitt betur og leggja sitt dýrmæta lóð á þá vogarskál að börnin okkar, drengir og stúlkur alist upp í samfélagi þar sem konur og karlar eru jafngild.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 18.4.2011 - 09:45 - 5 ummæli

Heimur hinna vitfirrtu!

Sannir Finnar; Sannir Svíar; Sannir þjóðverjar; Sannir Hollendingar; Sannir Frakkar; Sannir Danir, Sannir Serbar; Sannir Króatar;  Sannir Albanir;  Sannir Sóvenar; Sannir Sóvakar; Sannir Ítalir; Sannir Anndorrumenn; Sannir Armenar; Sannir Boizníu og Herzegovinumenn; Sannir Ukraínumenn; Sannir Svisslendingar; Sannir Spánverjar; Sannir Norðmenn, Sannir Pólverjar; Sannir Eistlendingar; Sannir Lettar; Sannir Georgíumenn;  Sannir Ungverjar; Sannir Rúmenar; Sannir Kýpurmenn; Sannir Grikkir; Sannir Tyrkir; Sannir Írar; Sannir Litháar; Sannir Frakkar; Sannir Belgar; Sannir Bretar, Sannir Austurríkismenn; Sannir Íslendingar; Sannir Búlgarar; Sannir Lúxemborgarmenn; Sannir San Marínómenn; Sannir Lichtensteinar;  Sannir Maltverjar; Sannir Makedóníumenn; Sannir Tékkar; Sannir Montenegrómenn; Sannir Moldóvumenn; Sannir Portúgalir;  Sannir Azerbajar;  Sannir Georgíumenn; Sannir Rússar.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 17.4.2011 - 09:27 - Slökkt á athugasemdum við Ingólfur Margeirsson

Ingólfur Margeirsson

Ég minnist Ingólfs Margeirssonar með hlýju.  Hann var þarna úti þegar ég hóf stopulan  blaðamennskuferil  fyrir 30 árum.  Hann var einn af þeim sem við bárum mikla virðingu fyrir.  Viðtöl hans í Helgarpóstinum og teikningarnar sem fylgdu sitja enn í minninu. Ég kynntist Ingó lítið persónulega þá.  Hann var aðeins utan og ofan við, fannst manni.  Seinna rambaði ég á hann á heilsuhælinu í Hveragerði komandi þar í mat og sem prestsnefna og Ingó í hressingardvöl.  Og ég man að hann tók mér sem aldarvini og var svo hlýr og yndislegur og skemmtilegur og maður óx í návist hans.  Of fátíðir og að sama skapi dýrmætir eru slíkir menn. Einhvern veginn reiknaði ég með því að hitta hann þar af og til um ókomin ár. Ég er þakklátur fyrir kynnin.  Þó ekki hafi þau verið mikil þá voru þau minnistæð og mannbætandi.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 14.4.2011 - 17:02 - 15 ummæli

ESB móðursýki!

Óstjórnleg ESB móðursýki í sumum mönnum.  Hvað er að óttast þó við göngum í ESB? Við erum þegar mestanpart þar inni og það eina sem breytist er að við komumst að borðinu þar sem ákvarðanir eru teknar. Engin þjóð í ESB hefur áhyggjur af sjálfstæði sínu.  Þetta er bandalag sjálfstæðra þjóða.  Með fullri aðild opnast gríðarlegt markaðssvæði fyrir framleiðsluuvörur okkar.  Menning okkar myndi styrkjast.  Mannréttindi aukast. Stjórnsýslan verða betri. Lífskjör almennings myndu batna. Það eru meira að segja líkur á því að bændum hætti að fækka en búum hefur fækkað hrikalega hérlendis undanfarinn áratug.  Samt truflast sumir menn hreint og beint þegar kemur að þessu nánast sjálfsagða máli sem innganga í ESB er?

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 13.4.2011 - 22:18 - 7 ummæli

Ríkisstjórnin hafði betur í rökræðunni!

Ríkisstjórnin hafði betur í rökræðum í kvöld. Jóhanna steig upp og flutti frábæra ræðu, raðaði þriggja stiga körfum. Steingrímur var einnig upp á sitt besta og tók mörg fráköst.  Atli, Ásmundur og Lilja sigldu sinn sjó og fylla fámennan en minnistæðan flokk vinstri manna sem hafa brugðist vinstri stjórnum. Annars liggur miðjan í íslenskri pólítík í gegnum Framsóknarflokkinn, þar eru harðlínuhægrimenn í forystu en á kantinum nokkrir sem hneigjast eðlislægt til vinstri. Þetta fólk gerir sjálfum sér engan greiða með því að hanga saman í flokki.  Bjarni Benediktsson eldri sagði fyrir kosningar 1967 svo stimplaðist í huga unglingsins; ,,maður skiptir ekki um hest í miðri á“. Auðvitað situr ríkisstjórnin út kjörtímabilið. Þetta er ágæt ríkisstjórn og árangur hennar og árangur okkar er meiri en bjartsýnustu menn þorðu að vona eða spáðu.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur