Laugardagur 11.9.2010 - 23:50 - 4 ummæli

Getur maður þjónað tveimur herrum?

Guðspjall dagsins þarfnast ekki skýringa.  Það er holl lesning fyrir þá sem reyna að þjóna tveimur herrum og einnig fyrir þá sem hafa áhyggjur af morgundeginum.  Því miður eru það of margir bæði hérlendis en miklu fremur um víða veröld.

,,Enginn getur þjónað tveimur herrum. Annaðhvort hatar hann annan og elskar hinn eða þýðist annan og afrækir hinn. Þér getið ekki þjónað Guði og mammón. Því segi ég yður: Verið ekki áhyggjufull um líf yðar, hvað þér eigið að eta eða drekka né heldur um líkama yðar, hverju þér eigið að klæðast. Er lífið ekki meira en fæðan og líkaminn meira en klæðin? Lítið til fugla himinsins. Hvorki sá þeir né uppskera né safna í hlöður og faðir yðar himneskur fæðir þá. Eruð þér ekki miklu fremri þeim? Og hver yðar getur með áhyggjum aukið einni spönn við aldur sinn? Og hví eruð þér áhyggjufull um klæðnað? Hyggið að liljum vallarins, hversu þær vaxa. Hvorki vinna þær né spinna. En ég segi yður: Jafnvel Salómon í allri sinni dýrð var ekki svo búinn sem ein þeirra. Fyrst Guð skrýðir svo gras vallarins sem í dag stendur en á morgun verður í ofn kastað, skyldi hann þá ekki miklu fremur klæða yður, þér trúlítil! Segið því ekki áhyggjufull: Hvað eigum vér að eta? Hvað eigum vér að drekka? Hverju eigum vér að klæðast? Allt þetta stunda heiðingjarnir og yðar himneski faðir veit að þér þarfnist alls þessa. En leitið fyrst ríkis hans og réttlætis, þá mun allt þetta veitast yður að auki. Hafið því ekki áhyggjur af morgundeginum. Morgundagurinn mun hafa sínar áhyggjur. Hverjum degi nægir sín þjáning.“

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 10.9.2010 - 21:21 - 25 ummæli

Bókabrennur og málfrelsi í Danmörku!

Það er gott að þessi brjálaði prestur skuli hættur við að brenna Kóraninn.  Það er alltaf slæmt að brenna bækur sem ennþá má lesa. Klerkur hætti við þetta eftir áskorun m.a. frá öðrum klerkum og  Obama forseta. Maður gamblar ekki með mannslíf sagði forsetinn réttilega og benti á að amerískir dátar yrðu drepnir í Afgnaistan og Írak sem hefnd fyrir tiltækið.  Með þessu er Obama að hefta málfrelsi.

Það myndu sennilega þeir segja sem vörðu rétt Jótlanspóstsins að birta skrípamyndir af Múhamed spámanni hér um árið.  Þær myndbirtingar sem voru valkvæðar eins og bókabrennan kostuðu örugglega nokkur mannslíf.  Þær voru varðar á grundvelli málfrelsis.

Hver er munurinn?

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 8.9.2010 - 19:38 - 1 ummæli

Flottir Hvergerðingar og kyrrstæðir sunnlendingar!

Hvergerðingar hafa eignast fínan bæjarstjóra svona holdgerfing plássins.  Hveragerði og Aldís Hafsteinsdóttir renna saman í eitt í vitund manns. Og nú hafa Hvergerðingar gert það sem ég vildi að Ölfusingar gerðu:  fara fram á viðræður um að fá hitaveituna aftur en Ölfusingar eins og Hvergerðingar glöptust á að selja auðlind sína til Orkuveitu Reykajvíkur á þeim tíma fyrir hrun þegar fínt þótti að selja allar eigur almennings.  Hvergerðingar flottir, en auðvitað eiga Ölfusingar og Hveragerði að sameinast.  Það er makalaust með þessa sunnlendinga hvað þeir eru kyrrstæðir.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 8.9.2010 - 09:13 - 17 ummæli

Að drepa Krist!

Spámenn Gamla Testamentisins horfðu fram á veginn og spáðu fyrir um Messías.  Hefðu þeir horft til baka, inn í fortíðina þá hefði Kristindómur aldrei orðið annað en Gyðingdómur,  staðnað við boðorðin 10 og brottförina frá Egyptalandi.  Jenis av Rana, Snorri í Betel og aðrir slíkir eru fastir í gömlum kreddum, horfa til baka, það vantar í þá spámanninn. Þeir átta sig ekki á því að jafnframt því að móta menninguna mótar menningin Krist.  Það má segja að kreddufestan sé tilraun til þess að halda Kristi á krossinum, halda honum dauðum, skiljann eftir, látann ekki  lifa.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 7.9.2010 - 16:08 - 8 ummæli

Sneisafull kirkja/himneskur hrollur!

Það var yfirfull kirkja þegar ég messaði á sunnudaginn var.  Setið í hverju sæti og viðbótarstólar í gangvegi.  Það var enginn mættur frá sjónvarpinu. Samt var flutt ágætis pédikun eftir Elísabetu Jóhönnu Eiríksdóttur húsfreyju í Vogsósum í  Selvogi. Það var góð prédikun. Jóhanna er sjálfmenntaður, þýsk-íslenskur guðfræðingur, húsfreyja, blómakona, bóndi.  Afi hennar þýddi passíusálma Hallgríms á þýsku.  Þetta var uppskerumessa.  Grænmetisskreyting fyrir altari fyrir framan prestinn (tvöfalt grænmeti við altarið). 

Eftir messu voru tónleikar Bjargar Þórahallsdóttur og Elísabetar Waage.  Björg saung,  Elísabet spilaði á hörpu.  Í lok tónleikanna þegar þær stöllur fluttu Ave Maríu, Kaldalóns stífnuðu  kirkjugestir upp í hrifningu og aðdáun, himneskur hrollur fór um alla.  Lítil börn hættu að gráta, fuglar að tísta, hryglan hvarf úr gamalmennum, brimhljóð hafsins heyrðist ekki meir, útifyrir datt í dúnalogn.  Síðan hefur lífið verið hálf bragðdauft.  Maður má ekki reyna of mikið of snemma.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 4.9.2010 - 11:52 - 12 ummæli

Er ótti bænda ekki ástæðulaus?

Þorsteinn Eggertsson rithöfundur og ljóðskáld tekur skemmtilega samlíkingu þegar hann gagnrýnir þann ofsaáróður sem rekinn er gegn ESB..  Líkir hann stöðunni við það að íbúar minnsta hússsins  í götunni vili ekki vera fullgildir meðlimir í samstarfi íbúanna í götunni heldur vilji allt sér.

Af því að forysta yngri og eldri bænda beitir sér það taumlaust gegn Evrópusambandinu að margir lesendur bændablaðsins missa svefn af hræðslu við hugsanlega  aðild mætti taka það dæmi að fólkið á minnsta bænum í sveitinni vildi  ekki taka þátt í samstarfi  félagsheildarinnar, gæfi ekki kost á sér í sveitarstjórn og fjallskilanefnd en yrði þó engu að síður að taka þátt í leitum, vatsveitu og öðru slíku, og væri bundið helstu samþykktum án þess að vilja hafa nokkur áhrif á þær. Fólkið á bænum væri sannfært um að sveitungarnir vildu þeim ekkert nema illt eitt, ásældust heimalöndin, túnin, dráttarvélarnar og kýrnar.  Spurðir af hverju það hefði ekki gerst á öðrum bæjum að þeir stóru ryddust  yfi r hina minni verður fátt um svör og vantrúarsvipur færist yfir þegar það er nefnt að samstarfið væri einmitt byggt upp með það í huga að hindra slíkt.

Annars held ég að breytingar verði á íslenskum landbúnaði við inngöngu, sumar greinar munu styrkjast meðan aðrar veikjast. En þessar breytingar verða hvort sem er vegna alþjóðlegrar þróunar og gætu komið illa við bændur ef við kjósum að standa utan við ESB þar sem ýmis konar sérstakar ástæður verða innan sambandsins  taldar okkur til tekna og áhersla ESB á menningu og sérstöðu svæða koma  okkur til góða.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 3.9.2010 - 13:06 - Slökkt á athugasemdum við Ögmundur og Guðbjartur athugi það..

Ögmundur og Guðbjartur athugi það..

Það er alveg hárrétt hjá Rögnu Árnadóttur frf.m o d r að eftir því sem ráðuneyti verður  stærra komast færri mál og ég vil bæta við færri málaflokkar inn á borð ráðherra. 

Brýnir málaflokkar verða jafnvel jaðarmál hjá önnum köfnum deildarstjórum.

Þess vegna er mikilvægt að þeir sem bera ákveðna málaflokka fyrir brjósti vinni að því að þeir fái skýran stjórnskipulegan status innan ráðuneytis, sér deild og þar með sér-deildarstjóra. Ég ber fyrir brjósti málefni flóttamanna og hælisleitenda. Þessir málaflokkar ættu að fá sér deildarstjóra í hinu nýja innanríkisráðuneyti.  Sömuleiðis ættu málefni innflytjenda hiklaust að fá sína eigin deild í hinu nýja heitir það ekki Velferðarráðuneyti.

Nefnd sem Árni Magnússon skipaði og ég var í forsvari fyrir vildi þetta en Árni vildi það ekki.  Hvort sem það hefur verið vegna andstöðu innan úr ráðuneyti (eða flokknum) eða bara eðlileg varkárni veit ég ekki.

En þessi skipan er alveg forsenda þess að mál fái eðlilega athygli ráðherra ekki síst í stórum ráðuneytum.

Ögmundur Jónasson og Guðbjartur Hannesson athugi það.

(Undirritaður ber hag þessa málaflokks fyrir brjósti enda tilnefndur í ECRI af  íslenskum stjórnvöldum)

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 2.9.2010 - 09:36 - 57 ummæli

Er Guð á útleið?

Ekki lengur pláss fyrir Guð sem skapara heimsins segir Stephen Hawking í nýrri, óútkominni,  bók sinni.  Vísindin hafa nú gert Guð óþarfan þegar kemur að sköpun heimsins segir hann á sama hátt og þróunarkenning Darwins sýndi fram á að hann var óþarfur í sköpun lífsins og þar með mannsins.

Spurning Hawkings er annars þessi:  ,,Þurfti alheimurinn skapara“.  Svar hans er einfalt ,,Nei“.  Það þurfti hvorki Guðlega hönnum eða guðlega hönd.  Tilkoma alheimsins laut einfaldlega eðlisfræðilegum lögmálum.  Vegna aðdráttarlögmálsins hlaut alheimurinn að skapa sjálfan sig og kunn eðlisfræði lögmál eru ástæða þess að alheimurinn er til segir hann.

Hawkings taldi pláss fyrir Guð í bók sinni 1988 en hefur nú horfið frá því.  Hann hafnar nú alveg því að á bak við alheiminn sé  ,,heili“ Guðs, eingöngu  sé um að ræða eðlisfræðileg lögmál.

Ég tek ofan fyrir Hawkings.  En Guðsskilningur hans er annar en minn og okkar flestra hygg ég.  Og hann er að skrifa til fólks með mjög bókstaflega guðshugmynd. Við flest hér höfum fyrir margt löngu, held ég,  gert okkur grein fyrir því að Guð er kærleikur og stóð alls ekki í neinum flóknum útreikningum fyrir þúsundum milljónum ára hvað þá að hann hafi setið við að teikna risaeðlur, mýs og menn.  Okkar Guð er hins vegar á bak við allt, kærleiksrík móðir, kærleiksríkur faðir, skapari alls hins góða, verndari fegurðarinnar, svar við trúarþörf mannsins, frelsari mannanna.

Ég ætla því all ekki að skipta um námsgráðutitilinn ,,guðfræðingur“ og tel að enn sé og muni ætíð verða pláss fyrir umburðarlynda og mannelskandi guðfræði . Við höfum hins vegar enga þörf fyrir öfgar og vitleysu sem eru vitaskuld fylgifiskar mannlífsins og vitaskuld þess heldur ef þetta er tóm eðlisfræði.

(Byggt á forsíðufétt the Times í morgun 2. september , en óútkomin  bók Hawkings þar sem hann boðar það að manninum muni brátt takast að setja fram heildstæða vísindalega kenningu um alheiminn, er kynnt þar í dag og hefur þegar vakið athygli og umtal).

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 1.9.2010 - 17:33 - 1 ummæli

Mál hælisleitenda…fái hærri stjórnskipulegan sess!

Vísað í blogg Egils um innflytjendur og Ögmund Jónasson:  Ég tek undir ánægju með að fá Ögmund Jónasson í nýtt  innanríkisráðuneyti.  Útlendingalög eru of stíf, taka mið af þeim dönsku og þeim er á tíðum of bókstaflega fylgt.  Nefnd Evrópuráðsins, ECRI hefur gagnrýnt ýmislegt í þeim svo sem  24 ára regluna og  réttleysi kvenna af erlendum uppruna sem skilja við eiginmenn sína íslenska.  Fulltrúar ECRI voru fullvissaðir um það þegar þeir voru síðast hér á ferðinni að slík mál væru meðhöndluð af stöku umburðarlyndi.  Er það tilfellið?  Margt fleira mætti nefna. 

Ég hef stundum sagt að Ögmundur hefði stórt hjarta- við þurfum einmitt manneskju með stórt hjarta í þetta ráðuneyti.  Það þarf líka sterka manneskju því að embættimannakerfið er sterkt og stíft á þessum slóðum. Kannski er það skýringin á meintri íhaldssemi eða eigum við að segja varkárni Rögnu Árnadóttur sem hvað sem öðru líður hlustaði á fólk.

Mál hælisleytenda og flóttamanna og þeirra sem sækja um landvistarleyfi þyrftu að fá hærri stjórnskipulegan status. Slík má mega undir engum kringumstæðum velkjast um eða úrlausn þeirra dragast úr hömlu eins og því miður hefur verið tilfellið hér á landi.  Það bitnar herfilega á þeim sem síst skyld,i fólki sem hefur farið illa út úr tilverunni og einnig börnum þeirra.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 31.8.2010 - 21:22 - 10 ummæli

Á Karl biskup að stíga til hliðar?

Mér finnst alveg koma til greina að Karl Sigurbjörnsson ,biskupinn, stigi til hliðar á meðan sannleiksnefndin sem kirkjan ætlar að setja upp er mótuð og  starfar,  en mér finnst það svo sem ekkert sjálfgefið.   Fræðin kenna okkur að til þess hugsaðir staðgenglar gera lítið annað en það sem aðal hefði gert.  Sannleiksnefndin mun, að mínum skilningi, fyrst og síðast rannsaka hvernig  og hvort reynt var að þagga málið um kynferðisbrot Ólafs Skúlasonar niður, fyrst áður en Ólafur varð biskup, síðan árið 1996 þegar ásakanir Sigrúnar Pálínu Ingvarsdóttur, Dagbjörtu Guðmundsdóttur og Stefaníu Þorgrímsdóttur komu opinberlega fram.  Þá mun nefndin  væntanlega rekja þá sögu hvers vegna ekkert var gert til þess að rétta mannorð kvennanna í framhaldi af biskupsskiptum og svo enn aftur hvernig stóð á biðinni og leyndinni eftir að Guðrún Ebba biskupsdóttir sendi bréf sitt.  Auðvitað væri kirkjan trúverðugri ef Karl stigi til hliðar og einhver utanaðkomandi valdakerfinu yrði  sett eða settur ,,biskopus temporaris“.  Á móti kæmi að það myndi auka á ringulreiðina og Karli biskupi er margt vel gefið og gæti enn haldið vel á málum.

Hitt er annað að enginn biskup ætti að sitja lengur en í 8-10 ár.

Eftir þann tíma þarf að laga til í hvaða stjórnkerfi sem er.  Þá ætti að taka til endurskoðunar hvernig biskup er kosinn.  Nú er hann kosinn af prestum og örfáum leikmönnum.  Best væri að kjósa hann í almennum kosningum alls þjóðkirkjufólks.  Til þess að vit yrði málum mætti þrengri hópur kjósa 4 manneskjur sem kosið yrði  á milli tvær konur og tvo karla, tvo guðfræðinga og tvo ekki guðfræðinga.  Biskup þyrfti ekki að vera prestvígður maður.  Ágætt væri að hann væri guðfræðingur en hann mætti alveg vera sjálfmenntaður slíkur.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur