Mánudagur 7.1.2013 - 15:49 - Lokað fyrir ummæli

Sóknargjöld/félagsgjöld?

Menn þrátta um það hvort að svokölluð sóknargjöld séu félagsgjöld eða framlag ríkisins til kirkjunnar.  Sóknargjöld eiga sér lagastoð frá 1909.  Þá leysa ný lög af hólmi lög um tíund.  Fram til 1988 eru sóknargjöldin  innheimt af sóknarnefndunum sjálfum. Með lögum frá áraótum 1987/88 tekur ríkið að sér að innheimta sóknargjöld með þeim hætti að þau verða hlutdeild í tekjuskatti.  Föst upphæð sem skyldi verðtryggð skv. ákveðinni formúlu.  Ráðherrar sem ég hef rætt við frá þessum tíma segja mðer að tilgangur laganna hafi verið sá að gera kirkjunni gott eitt til, treysta stöðu hennar en innheimta sóknargjalda gekk oft brösulega í höndum sóknarnefndanna sjálfra.  Kirkjan á þeim tíma og síðar leit þannig á að að ríkið væri að taka að sér þessa innheimtu og tryggja þannig stöðu kirkjunnar og annarra trúfélaga, en væntanlega hafa önnur trúfélög eflst við það að fá innheimtuna á hreint.

Engin leynd yfir því að með þessum lögum batnaði fjárhagur trúfélaga verulega.  Fjárhagslegur uppgangstími hófst í Þjóðkirkjunni og veitti ekki af því að uppbygging í þéttbýlinu hafði verið hæg.

Ekki var annað að sjá en að upphæðin í lögunum frá 1988 væri trygg. Hins vegar er búið þannig um hnúta í íslenskum lögum að fjárlög geta hnekkt upphæðum sem gert er ráð fyrir í almennum lögum.  Menn fóru enda fljótt að skerða þessi framlög í fjárlögum og var Ólafur Ragnar fyrsti fjármálaráðherrann sem stóð fyrir slíku um 1990.  Síðan ráðherrar af og til þ.á.m. ráðherrar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokkins. Þetta var samt ekki mikil skerðing og kirkjan undi nokkuð glöð við sitt.

Eftir hrun, þegar hver króna verður dýrmæt  skerða stjórnvöld sóknargjaldið verulega mörg ár í röð.  Eðlilega fer að hvína í kirkjunnar mönnum sem bæði voru skuldsettir og buðu upp á öflugt og gott starf.  Um rétt ráðherra efast nú enginn lengur en kirkjunni finnst réttilega að miðað við sögu þessa gjalds, eðli þess og tilgang sé óeðlilegt að ríkið skerði  það að vild.  Sögulega séð er þetta félagsgjald þ.e. gjald innheimt af þeim sem eru í trúfélaginu þó að í hagræðingarskyni hafi gjaldið verið sett upp sem hlutfall af tekjuskatti.

Hitt er rétt að þetta er ekki félagsgjald í hefðbundnum skilningi. Það er t.d. bara innheimt af þeim sem borga tekjuskatt.  Og…ef þetta er félagsgjald…. hvers vegna er það þá innheimt af þeim sem ekki eru í neinu trúfélagi. Gjald slíkra rann til Háskólans skv. lögunum frá 1987 en síðan 2009 beint í ríkissjóð.  Spyrja má:  Ef þetta er félagsgjald, með einhverjum hætti, sem það óneitanlega er, er þá ekki ríkið að skattleggja þá sem ekki eru í neinu trúfélagi umfram hina?  Það er mismunun!!  Mismunun á ekki að líð hvorki í þessum efnum né öðrum.  Mannréttindanefnd Sameinuðu Þjóðanna hefur gert athugasemd við þetta og finnst mér og hef sagt áður og segi enn að íslensk stjórnvöld eigi að taka mark á slíkum athugasemdum.

Niðurstaða mín er sú að sóknargjald sé félagsgjald í eðli sínu en með lögunum frá 1987 í röngum búningi og í raun ólölögmætum og vísa ég þá til stöðu þeirra sem ekki eru í neinu trúfélagi. Báðir aðilar hafa því nokkuð til síns máls.

Vilji menn hins vegar ræða um framlög til kirkjunnar ættu þeir að skoða framlög í Jöfnunarsjóð sókna(lög frá 1988) Kirkjumálasjóð (frá 1993).  Þetta eru upphæðir upp á ca. 500 milljónir sem Þjóðkirkjan nýtur umfram önnur trúfélög.  Ekki má gleyma því að báðir þessir sjóðir eyða miklu fé í viðhald menningarverðmæta og kirkjan sjálf, saga hennar og tilvist er hluti af sögu og tilvist þjóðar og allt það, en til þess að jafnræði ríki milli trúfélaga(og lífsskoðunarfélaga þess vegna)mætti þetta fé renna til slíkra í samræmi við höfðatölu etv. að teknu tilliti til þeirrar efnislegu sögu sem kirkjan varðveitir t.d. í formi gamalla kirkna.

Ritað sjálfum mér til glöggvunar. Athugasemdir velkomnar á facebook.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 24.12.2012 - 09:56 - Lokað fyrir ummæli

Í tilefni jólanna!

Í Bretlandi liggja stjórnmálamenn undir ámæli frá kirkjunnar mönnum fyrir það að lögleiða giftingar samkynhneigðra.  Biskupar ásaka leiðtoga Íhaldsflokksins fyrir það að vera, í frjálslyndi sínu,  á skjön  við mikinn meirihluta kristinna manna.  Kirkjunnar menn í Bretlandi hafa þó verið fullvissaðir um það að engin kirkjudeild verði neydd til þess að framkvæma þessar athafnir.

Þetta sýnir með öðru hvað við á Íslandi erum komin langt þó við séum ekki komin alla leið. Prestar og forstöðumenn safnaða á Íslandi geta enn, þegar kemur að giftingu, gert ,,samvisku sinnar vegna“  greinarmun á fólki eftir kynhneigð en þeir eru fáir eða nokkrir sem notfæra sér það.  Það tekur oft kynslóðir að grafa gamla fordóma hvort sem þeir eru klæddir í trúarlegan búning eða ekki.

Það er annars eftirtektarvert hvað fylgjendur Jesú Krists  sem sjálfur er sagður hafa skorað á hólm viðteknar venjur og ráðist  á gamlan fúa eru íhaldssamir á flest allt sem þeir alast upp við.  Trúarsetningar negla oft niður það sem viðtekið hefur verið, reka það fast, leiða jafnvel til hörku og óbilgirni þess sem þykist hafa stimpil Guðs á lífssýn sinni og athöfnum.   Í hina röndina hvetur trúin til endurmats allra hluta, ekki sé allt sem sýnist, boðar það að allt verði nýtt, kærleikur Guðs sé sterkasta aflið, ást Guðs eilíf og fari aldrei í manngreinarálit.  Má kannski  segja að í trúarbúning séu færðar tvær meginstoðir hugans sem takast í sífellu á um yfirráðin. Önnur stoðin leitast við að viðhalda því sem er.  Hin leitast við að opna fyrir nýja sýn, skapa nýjan raunveruleika, nýjan heim.

Ég er ekki viss um að trúaðir séu neitt öðru vísi en vantrúaðir þegar grannt er skoðað.  Þeir trúuðu klæða lífsýn sína í annars konar(og viðameiri ) búning en þeir vantrúuðu.  Þeir trúuðu ganga inn í heim tákna sem gjarnan virka heimskuleg á þá sem ekki eru innvígðir.  Ég hygg að það sé persónubundið hvort menn hafi þetta trúargen sem trúin nærir eða nærir trúna.  Hafi menn það ekki skilja þeir ekki hinn trúaða fremur en hinn samkynhneigði skilur þrá hins gagnkynhneigða. En þetta er auðvitað eins og annað misjafnt eins og gengur.

En á jólunum gefst okkur tækifæri til að boða réttlæti og frið.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 19.11.2012 - 14:56 - Lokað fyrir ummæli

Þorláksbúð!

(Framsaga á Kirkjuþingi um Þorláksbúðartillögu hina síðari).

Skálholt merkasti sögustaður á Íslandi að Þingvöllum undanskyldum.  Með Þorláksbúð er framúrskarandi og frábær, marglofuð staðarmynd eyðilögð.
Kirkjan, skólinn, flötin þar á milli hafa oft og víða verið lofuð sem 
ein fallegasta kirkjustaðarmynd á Norðurlöndum og þótt víða væri 
leitað. Staðarmynd, helgimynd, snilldarútfærsla að allra dómi. 

Flumbrugangurinn við undirbúning var með ólíkindum. Nægir að nefna 
það hér að ekkert samráð var haft við erfingja arkitekts kirkjunnar 
sem var Hörður Bjarnason húsameistari né Manfreð Vilhjálmsson og Þorvald Þorvaldsson  sem af 
snilld sinni teiknuðu skólann þannig að hann styrkti þá mynd sem 
dregin hafði verið upp. Allur formlegur ferill þessa máls er með 
hreinum ólíkindum.

Þorláksbúð er dýrt og óklárað fjárhagsdæmi. Það sáum við sem sátum í 
Allsherjarnefnd í fyrra.  Búðin er reist við hjartastað kirkjunnar af 
aðila (Þorláksbúðarfélagið) án nokkurra stjórnskipulegra tengsla við kirkjuna og kirkjan 
hefur ekkert að segja um þær skuldir sem safnð er á hana. (Ríkið hefur 
selt sig undir sömu sök með sínum fjárframlögum sem auðvitað bitna á 
öðrum framlögum til Skálholts sem er skuldum hlaðið).

Hér(á Kirkjuþingi) hefur því verið lýst yfir að staðurinn sem slíkur hafi ekkert með 
búðina að gera. Hún hafi ekki verið afhent kirkjunni og 
að……Skálholtstaður hafi ekkert bolmagn til þess að taka við 
búðinni, jafnvel þó hún yrði skuldlaus..til rekstrar og 
viðhalds…fyrir utan það að ekkert liggi fyrir um til hvers búðin 
sé…hvað eigi að nota hana ..til hvers hún sé?

Kannski Kirkjuráð taki við búðinni. Það færi vel á því efir sögulega 
aðkomu Kirkjuráðs að þessu máli að búðin yrði fundarstaður ráðsins.

Kirkjuráð hið fyrra og núverandi hefur nefnilega hagað sér í þessu máli 
með ábyrgðarlaum hætti…eins og enginn væri morgundagurinn.

Í fyrsta lagi með því að leyfa bygginguna.
Í öðru lagi að gefa grænt ljós aftur eftir að hafa samþykkt að stöðva 
framkvæmdir, samþykkt sem framkvæmdaaðili búðarinnar lýsti yfir að 
hann myndi virða að vettugi.
Í þriðja lagi að mótmæla hugmyndum um friðun….friðun…..á þessari 
mynd kirkjan, flötin, skólinn er sjálfsögð og eftirsóknarverð’ Friðun 
kemur t.d. í veg fyrir vanhugsaðar ákvarðanir.

Allt þetta mál er vafasamt og mun koma í bakið á kirkjunni.

Þess vegna legg ég til að Þorláksbúð verði tekin niður á kostnað 
kirkjunnar (í samráði við smið búðarinnar sem er Völundur mikill.)  Með því myndi kirkjan spara stórfé og aukin vandræði og horft 
verði til þess að reisa hana á ný þar sem hún myndi sóma sér vel í 
skjóli systur sinnar hinnar nýju Miðaldadómkirkju (sem ferðaþjónustuaðilar vilja reisa í samráði við kirkjuna).

Ég hef sannfærst um það eftir að hafa hlýtt á umræður um upphaflegu 
tllögu mína (þar sem gert er ráð fyrir að búðin sé sett upp aftur 
hinumegin við kirkjuna) að þetta sé ekki bara rétta leiðin (þ. e. að 
taka búðina niður og setja jana ekki upp strax) heldur eina færa leiðin ætli stjórnendur 
kirkjunnari biskupar, kirkjráð og kirkjuþing að komast frá málinu með 
fullum sóma.

Það verður aldrei friður um búðina þar sem hún nú er.

Biskup Íslands Karl Sigurbjörnsson segir í grein á trú.is: (greinin er 
efnislega svar sem hann gaf Kirkjuþingi vegna fyrirspurnar minnar 
þegar búðin var ekki risin).

,,,Stjórn Skálholts sannfærði kirkjuráð um að uppbygging Þorláksbúðar 
nyti almenns stuðnings og að tilskilin leyfi lægju fyrir, og að 
fjármögnun verkefnisins væri tryggð. Á þeim grundvelli veitti 
kirkjuráð samþykki sitt.
Ég vissi t.d. ekki betur en handhafar höfundarréttar Skálholtskirkju 
hefðu gefið leyfi sitt.“

,,Þorláksbúðarfélagið hefur borið hitann og þungann af verkefninu. 
Kirkjuráð og biskup Íslands bera samt sem áður hina endanlegu ábyrgð á 
öllum framkvæmdum í Skálholti, og geta ekki vikist undan því. 
Kirkjuráð mun nú ræða þessi mál og bregðast við þeirri gagnrýni sem 
fram hefur komið.“

,,Skálholt skipar dýrmætan sess í vitund þjóðarinnar. Mikilvægt er að 
sátt og friður ríki um uppbyggingu staðarins og það starf sem þar fer 
fram. Ég vil þakka alla velvild og hlýhug í garð Skálholts sem m.a. 
kemur fram í málflutningi þeirra sem láta sér ekki á sama standa um 
ásýnd og virðingu staðarins.“

Þessi orð Karls biskups tek ég til mín

(Facebókarvinir mínir geta kommenterað þar).

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 16.11.2012 - 10:39 - Lokað fyrir ummæli

Hvar er okkar Zlatan?

Einn besti knattspyrnumaður heims Zlatan Ibrahimovic er innflytjandi í Svíþjóð af fyrstu eða annarri kynslóð, skiptir ekki máli.  Af sænsku fjölmenningarsamfélagi, sem hefur verið talað endalaust niður af heimóttarlegum Íslendingum, getum við lært mikið.  Við þurfum að efla framgang innflytjenda á öllum sviðum samfélagsins og helst að fjölga þeim verulega.  Þannig myndum við eignast okkar eigin Zlatana á mörgum sviðum samfélagsins.  Ekki veitti okkur af.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 21.10.2012 - 20:35 - Lokað fyrir ummæli

Viljum breytingar í stað stöðnunar!

Sú staðreynd að Þjóðkirkjan skyldi haldast inni í hinni ráðgefandi atkvæðagreiðslu gefur til kynna að það hafi ekki verið róttækingarnir sem héldu á kjörstað heldur góður þverskurður af þjóðinni og  ekki síst sá hluti hennar sem heldur uppá gömul og góð gildi. Það ætti að vera þeim umhugsunarefni sem sífellt hafa allt á hornum sér þegar kemur að breytingum á stjórnarskrá.

Jafnmikið gleðiefni og niðurstöðurnar voru þeim sem vilja lifa tíma breytinga í stað stöðnunar þá er það erfitt að horfa upp á menn og flokka sem móast í sífellu við.  Það er held ég ömurlegt  hlutskipti að kjósa sér.  Er nú ekki tíminn til þess að endurhugsa lýðræðið, tryggja þjóðareign á auðlindum, festa í sessi trúfrelsi, læra af fortíðinni og líta til framtíðar.  Sem betur fer virðast flestir á þeirri skoðun.

Hvað varðar Þjóðkirkjuákvæðið er nauðsynlegt að mínum dómi að árétta það í stjórnarskrá að önnur trúfélög og lífskoðunarfélög en þjóðkirkjan skuli studd með sambærilegum hætti og hún og trúfrelsisákvæðið ber að árétta og virða.

 

 

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 18.10.2012 - 11:37 - Lokað fyrir ummæli

Stjórnarskrá – einstakt tækifæri!

Drögin að stjórnarskrá sem við greiðum atkvæði um á laugardaginn myndu að mínum dómi sóma sér vel sem stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.  Þau standast að mínu viti fyllilega samanburð við aðrar nýrri stjórnarskrár í Evrópu og eru í sama fasa og þær.

Það má alveg sjá aldur stjórnarskráa eftir uppbyggingu þeirra og innihaldi.  Eftir því sem mannréttindaákvæði eru fyrirferðarmeiri því nýrri er stjórnarskráin. Mannréttindakafli íslensku draganna er bæði ítarlegur og í fullu samræmi við Mannréttindasáttmála Evrópu og  Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu Þjóðanna. Þessi ákvæði eru í stíl við það sem gerist nútildags en ef við flettum gömlum stjórnarskrám eins og þeirri dönsku þá eru mannréttindákvæðin miklu fábrotnari.

Flestar stjórnarskrár í Evrópu verða til eftir stríð og verða til í kjölfar mikilla umbrota. Sú ítalska 1947 og sú þýska 1949.  Flest eða mörg fyrrum austantjaldsríki hafa sett sér stjórnarskrá síðan 1990.  Í þeim hópi  eru Eystrasaltsríkin Eistland og Litháen sem setja sér stjórnarskrá nýfrjáls 1992.  Löndin á Balkanskaga hafa verið að setja sér stjórnarskrá. Þar vil ég nefna stjórnarskrá Svartfjallalands frá 2007 mjög nútímaleg.  Önnur ríki hafa enduskoðað stjórnarskrár sínar.  Danmörk 1953, Svíþjóð 1974 og Holland 1982 og Finnland 2000.  Ísland sjálft hefur verið að bæta sína bótum og má nefna mannréttindaákvæði um miðjan tíunda áratuginn og kjördæmisskipunarklastur af og til en þessi drög núna eru fyrsta heilstæða tilraunin til þess að þjóðin setji sér stjórnarskrá en sú fyrri er að uppistöðu til eins og við vitum arfur frá Dönum sem sjálfir hafa fyrir löngu endurritað sína.

Ástæðan fyrir því að við höfum ekki endurritað stjórnarskrá:  Það hefur sennilega alltaf vantað sameiginlegan skilning á því hver við erum og hvert við ætlum að fara. Við sitjum hér fá á feykilega stóru landi með mikilar og verðmæta auðlindir. Aðgengi að þeim skiptir öllu máli og þess vegna hafa stjórnmálin einkennst af átökum.  Á seinni hluta 20. aldar er hér hvorki stéttarskipting til að leysa málin eða sterk stjórnunarhefð og því hafa stjórnmálin einkennst um of af upplausn og átökum.

Auðlindaákvæði draganna er óvenju skorinort enda býr Ísland yfir auðlindum sem eru þess eðlis að aðgangur að þeim og umgjörðin um þann aðgang skiptir miklu máli.  Umhverfisverndarkaflar hafa orðið æ marktækari eftir því sem tíminn líður. Náttúruverndarákvæðum má yfirleitt skipta í tvennt.  Þeim sem gera ráð fyrir að náttúran sé til mannanna vegna og það sé vegna okkar sjálfra og afkomenda okkar sem okkur beri að fara vel með hana.  Hins vegar eru ákvæði  sem gera ráð fyrir því að náttúran hafi gildi í sjálfu sér, án tillits til manna. Þessi hugsun hefur verið að ryðja sér til rúms og 33. grein draganna ber vott um slíka hugsun.  Annars  má segja það sama um nátturuverndarkaflann og mannréttindakaflann.  Í þessa átt hafa stjórnarskrár verið að þróast.

Stjórnarskrár eru í eðli sínu sáttmálar um samfélag þeirra sem byggja tiltekið landssvæði og þar er líka lagður grunnur að því  hvernig fólk velur sér aðila til að stýra almannavaldinu.  Ásamt því að festa í sessi þingræðið sem við megum vera stolt af gerir nýja stjórnarskráin ráð fyrir miklu öflugra almannavaldi en við höfum átt að venjast og töluverðri breytingu á kosningalögum , starfi þings, ríkisstjórnar og forseta.  Ekkert af þessu er þó nýtt.  Allt á sér fyrirmyndir í stjórnarskrám annarra ríkja þó samsetningin verði séríslensk eins og stjórnkerfið okkar er nú. 

Helstu breytingar þær að valdmörk eru skýrari og réttur almennings til ákvarðantöku aukinn.

Kveikjan að þessari stuttu samatekt er að undirritaður hefur unnið með stjórnarskrár margra Evrópuríkja.  Ekkert í þessum íslensku drögum kemur á óvart. Í megindráttum eru þetta nútímaleg stjórnarskrárdrög og stjórnarskrá byggð á þeim yrði mikil bót frá því sem er.

(Birtist 18. október í Selfoss-Suðurland, Athugasemdir er hægt að gera á Facebook).

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 15.10.2012 - 09:11 - Lokað fyrir ummæli

Talsmaður gegn misrétti!

Teitur Atlason varpar á bloggi sínu fram hugmynd Birgittu Jónsdóttur um umboðsmann flóttamanna.  Ég tel þá hygmynd góða.  Augljóslega þarf einhvern sem fylgist með því hvernig lögum og reglum sé framfylgt og fylgist með því fyrir hönd almennings og stjórnvalda að lög og reglur og framkvæmd þeirra séu ávallt mannúðlegar og í samræmi við mannréttindasáttmála.

Undanfarin áratug eða svo hefur Evrópuráðið í mynd ECRI hvatt okkur til þess að að stofna embætti umboðsmanns þeirra sem telja sig misrétti beitta vegna uppruna, þjóðernis, litarháttar eða trúar.  Það embætti myndi einnig fylgjast með löggjöf á þessu sviði í umboði almennings og stjórnvalda og vel færi á því að embættið gæti rekið mál fyrir dómstólum.

Þetta embætti umboðsmanns gegn rasisma gæti einnig verið auga og eyra almennings í málefnum flóttamanna.  Þetta færi vel saman enda hygg ég að falli víða undir embætti umboðsmanna á meginlandinu.

Fyrir Hrun voru stjórnvöld mjög varkár þegar kom að því að byggja yfir þennan málaflokk. Eftir Hrun hafa stjórnvöld ekki haft úr miklu að spila. Nú fer hins vegar að birta til vonandi.  Í þessum málaflokki verður við að standa okkur vel. Umboðsmáður á borð við þann sem hér er talað um er í flestum löndum þó að umboð hans sé misfrekt og kominn tími til þess að við skoðum ráðleggingar alþjóðlegra eftirlitsstofnana  í þessum efnum með það í huga að fylgja þeim.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 12.10.2012 - 19:54 - Lokað fyrir ummæli

Ummæli fyrirliðans!

Ummæli landliðsfyrirliðans segja ekki aðeins sögu af honum heldur af okkur öllum. Strákurinn elst upp í samfélagi þar sem ríkisfréttastofan tíundar ætíð þjóðerni gangstera sem eru af öðru þjóðerni en íslensku. Mönnum finnst því sem heilu  þjóðirnar séu glæpalýður- alast upp við það- þannig virkar það.

Í annan stað hefur KSÍ ekki staðið sig.  Alvöru íþróttasamband sér fulltrúum sínum á erlendri grund, þjálfurum og öðrum slíkum fyrir fjölmenningarlrgri  fræðslu. Það á að vera hluti af verklagsreglum um það hvernig forðast ber rasisma en ummælin eru ekkert annað. Undirritaður hefur prédikað það áður að KSÍ eigi að koma sér upp verklagsreglum í þessu efni og ítrekar það enn. Bæði þarf að átta sig á því hvað gera skal þegar atvik á borð við þetta koma upp og hvernig koma skuli í veg fyrir það að þau eigi sér stað.

Menntamálaráðherra segir að menn verði að vanda sig er þeir fjalla um aðrar þjóðir.  það er útaf fyrir sig rétt. En best er að vera það fordómalaus að ónauðsynlegt sé að vanda sig.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 12.10.2012 - 11:16 - Lokað fyrir ummæli

Friðarverðlaunin!

Evrópusamband hlaut Friðarverðlaun Nóbels.  Frábært.  Það er í skynjun allra sem hafa fylgst með þróun mála í Evrópu hvílík gjörbreyting hefur orðið á viðhorfum þjóða innan Evrópu hverrar  til annarrar.  Þær líta á hvor aðra sem vina og samstarfsþjóðir og eru auðvitað í bandalagi sem bindur slíkt þannig að jafnvel þó inn á teppið komi menn sem ala á ótta, æsingi og óvild við aðra verður þeim ekkert ágengt.  Almenningur virðist  líka sjá í gegnum æsingamenn sem ala á útlendingafóbíu.  Þannig hefur Gert Wilders beðið afhroð, sömuleiðis dregur úr Sönnum Finnum og Gullinni dögun Grikkja.  Allir þessir völdu Evrópusambandinu sömu einkunnir og Heimsýnarmenn hér heima:  Gulag, Sovétalræði, bandalag ánauðar og kúgunar.

Það er ekki þar með sagt á Ísland eigi heima í ESB en flest bendir til þess að það væri  hollt fyrir okkur bæði efnahagslega og ekki síður andlega.  Við eigum í öllu falli  að eiga nána samleið með öðrum og ekki hleypa þeim upp á dekk sem ala á útlendingaótta og bábiljum um ESB eða aðra með æsingum og upphrópunum.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 11.10.2012 - 11:02 - Lokað fyrir ummæli

Björt Framtíð – hin nýja Framsókn!

Öfgalaus miðjuflokkur, yfirvegaður, kurteis talsmáti, fólk samvinnu og jafnaðar.  Björt Framtíð hefur allt að sem Framsóknarflokkurinn hafði en skortir nú.  Og þá er ekki minnst á þann sem leiðir flokkinn og fann sig ekki í hinum nýja Framsóknarflokki harðlínumanna. Hver veit nema að Guðmundur Steingrímsson eigi eftir að verða forsætisráðherra eins og faðir hans og afi.  Og það í samskonar flokki og þeir hans leiddu.  Hvur veit nema að framtíðin sé björt….og skemmtileg.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur