Fimmtudagur 31.03.2011 - 10:23 - FB ummæli ()

Geimverurnar eru komnar!

Nú ætla ég að gera játningu.

Ég er svo vitlaus, að einu sinni þegar verst horfði í hruninu, og ekki bara íslenskt efnahagslíf, heldur efnahagur alls heimsins virtist stefna lóðbeint niður til helvítis, þá hugsaði ég einu sinni:

„Æ, ég vildi það kæmu geimverur.“

Ég verð að segja mér til afbötunar að þessi hugsun dvaldi ekki lengi í höfðinu, nei, bara svona eitt augnablik – ég man reyndar að ég var að keyra eftir Sæbrautinni framhjá turninum á Höfðatorgi.

En áður en hugsunin flögraði endanlega burt, þá sá ég þetta fyrir mér einhvern veginn svona:

Geimverurnar kæmu, góðviljaðar og vitrar og friðsamar, og þær myndu færa með sér áður óþekkt auðæfi, og kenna okkur leiðir til að nýta auðlindir okkar á alveg splunkunýjan hátt, og allt myndi falla í ljúfa löð á skammri stundu …

Þetta er auðvitað fullkomlega gegnsætt – trúaður maður í vanda vonast til að guð birtist og reddi málunum, en þar sem ég er ekki trúaður, þá varð ég að notast við geimverur.

En fyrr en varði var ég kominn framhjá turninum við Höfðatorg, geimverurnar voru gufaðar upp og raunsæið tók við.

En viti menn!

Nú virðast geimverurnar vera komnar í raun og veru!

Og þær voru í Kastljósi í gærkvöldi!

Komnar til okkar með gæsku sína og visku og snoturt hjartalag – og síðast en ekki síst fullar hendur fjár.

Já, þær eru svoleiðis moldríkar þessar geimverur að mann nánast sundlaði yfir fréttaskýringu Helga Seljan um málið í gærkvöldi.

Og þær virtust beinlínis þrá að færa okkur vesælum ræflum skínandi birtu sinna þúsund eða tvö þúsund milljarða …

Allt þetta skyldum við fá …

Ef við féllum fram og tilbæðum þær?

Nei, ekki einu sinni það. Enginn Satan hér á ferð!

Þær fara ekki fram á annað, þessar góðu geimverur, en að við gaukum að þeim því lítilræði sem er íslenskt vegabréf.

Minna má það nú ekki vera!

Og í staðinn fáum við alla milljarðana sem þessar vitru geimverur ætla að nota til að fjárfesta á Íslandi, og að sjálfsögðu aðeins í góðum og viturlegum og hjartahreinum fjárfestingartækifærum …

Ég get svo svarið það að ég var farinn að syngja sálma fyrir framan sjónvarpið.

Ekkert fengum við að vita um hverjar þessar geimverur eru, nema hvað þær virðast ganga undir tegundarheitinu „aðilar“ ef marka má fulltrúa geimveranna sem Helgi Seljan ræddi líka við.

Sá fulltrúi var vissulega eilítið dularfullur að sjá, en ég held samt að hann hafi ekki verið geimvera.

Í alvöru talað, þá hvet ég fólk eindregið til að horfa á þessa fréttaskýringu Helga Seljan um þetta furðulega mál.

Hvernig Helgi fór að því að komast í gegnum þetta án þess að missa nokkru sinni sitt pókerfeis, það mun ég seint skilja.

En ég held satt að segja að það þurfi ekkert að hafa um þetta mál voða mörg orð.

Eins og alltaf er sagt í tengslum við Nígeríusvindl: Ef eitthvað hljómar „of gott til að vera satt“, þá er það undantekningarlítið vegna þess að það er ekki satt.

Ég vil aðeins vekja athygli á tvennu.

Íslenska lögfræðistofan sem annast tengslin við þessa dularfullu „aðila“ hefur m.a. innan sinna vébanda Hjörleif Kvaran fyrrum forstjóra Orkuveitu Reykjavíkur.

Einmitt núna er verið að gera upp síðustu afrek hans í bissniss.

Og ekki orð um það meir!

Og svo eru víst þarna gamlir Glitnis- og FL-Group menn upp um alla veggi.

Hitt er það að hinn útlenski lögfræðingur og tengiliður „aðilanna“ virðist vera Kanadamaður að nafni David S. Lesperance.

Og á vefsíðum þeim, þar sem hann segir á sér deili, þar kemur hvergi fram að hann sérhæfi sig í aðstoða fjárvana smáríki við að komast í náin kynni af þriðju gráðu við sterkefnaða og góðviljaða fjárfesta.

Onei.

Þar býður hann auðmönnum hins vegar þjónustu sína við að komast undan sköttum, skyldum og allskonar „óþarfa vesini [hassle]“ með því að kaupa sér ríkisborgararétt þar sem það hentar hverju sinni.

Ekki síst í „low profile countries“.

Það geti nefnilega verið voða hagstætt fyrir ameríska ríkakalla sem vilja ferðast um heiminn og maka krókinn án þess að verða fyrir andúð og tortryggni sem gjarnan mæti Bandaríkjamönnum.

Lesperance hrósar sér sérstaklega af því að vera einkar lagið að redda vegabréfum frá Grenada.

Og nú hefur athygli hans beinst að Íslandi.

Það sem verra er – maður þarf ekki lengi að skoða vefsíður David S. Lesperance til að sjá að þennan mann myndu engir alvöru auðkýfingar leggja lag sitt við.

Sjáið til dæmis þessa síðu hér.

Er voða sennilegt að menn sem vilja fá að fjárfesta 1.700 milljarða geri það gegnum mann með svona síðu?

Undirsíðu á Escapeartist.com – og blikkandi auglýsingar um hagstætt verð á símtölum?

Lesið líka þetta hér.

Auðvitað myndi enginn alvöru peningamaður koma nálægt þessu.

Ekki að minnsta kosti ef hann væri að hugsa um fjárfestingar.

Fyrirgefiði – en víst erum við frekar illa stödd í augnablikinu.

En ég vona samt að við séum meiri menn en svo að við þurfum að skríða fyrir einhverju – fyrirgefið þó ég segi það – hálfríku hyski frá Ameríku!

Það þarf reyndar ekki mjög lengi að velta vöngum yfir þessu.

Horfið bara á viðtal Helga Seljan við Sturlu Sighvatsson.

Finnst ykkur framganga hans sannfærandi? Finnst ykkur hann trúa því sjálfur sem hann er að segja?

Nei – ég held ég haldi bara áfram að bíða eftir alvöru geimverum …

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!