Laugardagur 16.04.2011 - 11:13 - FB ummæli ()

Þjóðaratkvæðagreiðslu strax!

Allt frá því að ég man eftir mér hefur Landssamband íslenskra útvegsmanna hagað sér eins og ríki í ríkinu.

Og oft farið fram með frekju og yfirgangi.

Aldrei þó eins og núna.

Til að reyna að sporna gegn því að ríkisstjórnin hreyfi eitthvað við fiskveiðistjórnarkerfinu, þá hefur LÍÚ spennt Samtök atvinnulífsins  fyrir vagn sinn eins og auðsveipa dráttarklára, og því er hótað að ekki verði friður eða ró á vinnumarkaði fyrr en allar hugmyndir um að hrófla við kvótakerfinu verði aflagðar.

Það er reyndar frekar einfalt að útkljá málið.

Nú þegar við erum orðin svona sjóuð í þjóðaratkvæðagreiðslum, og íslenska þjóðin er í sjálfu sér orðin „annar löggjafi“ eins og Ólafur Ragnar Grímsson orðaði það, þá blasir auðvitað við að málið verði bara útkljáð í þjóðaratkvæðagreiðslu sem fyrst.

Er ekki bara réttast fyrir ríkisstjórnina að byrja að undirbúa það?

Forseti Íslands hlýtur að styðja málið dyggilega, og vænta má stuðnings frá Morgunblaðinu – sem telur, eins og við vitum, að meira að segja milliríkjasamningar um flókin skuldamál eigi heima í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Og getur því varla amast við að mál sem snerta lífsbjörg þjóðarinnar fari beina leið í þjóðaratkvæði.

Ef LÍÚ hefur svona góðan málstað að verja, þá hljóta samtökin að fagna því að þjóðin fái að úrskurða um kvótakerfið.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!