Miðvikudagur 18.05.2011 - 07:49 - FB ummæli ()

Lénsherrann loksins stöðvaður?

Allir menn teljast saklausir þar til sekt þeirra er sönnuð.

Líka Dominique Strauss-Kahn.

Því hvarflar ekki að mér að slá neinu föstu um sekt þess manns.

En setjum nú svo að hann væri sekur.

Þá er fall hans óneitanlega merkilegur atburður.

Ekki út af franskri pólitík. Þið fyrirgefið en mér er hundsama um franska pólitík.

Heldur ekki út af Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Hann mun krafla sig fram úr þessu.

Nei, það sem er merkilegt er auðvitað að karlmaður í svo hárri stöðu skuli þá hafa fallið af stalli sínum fyrir að hafa reynt að koma vilja sínum fram við herbergisþernu.

Ég ítreka – ég veit ekki hvort Dominique Strauss-Kahn er sekur.

En ef hann er sekur, þá er mjög gott að brugðist skuli hafa verið við máli hans af alvöru.

Það er óneitanlega sérkennilegt að nú skuli tveir silfurhærðir herramenn hvor á sínum enda vegasaltsins í samfélagsbaráttunni vera lentir í djúpum vandræðum vegna (meints) yfirgangs við konur.

Dominique Strauss-Kahn og Julian Assange.

Ég veit að það sem Julian Assange er sakaður um virðist hreint ekki eins alvarlegt og sú ruddafengna nauðgunartilraun sem hermd hefur verið upp á Dominque Strauss-Kahn.

En sé Assange sekur – sem er auðvitað mjög mikilvægur fyrirvari – þá er sök hans samt áreitni og virðingarleysi við aðra manneskju. Í krafti valds.

Og það er alltaf gott ef slík valdbeiting er stöðvuð.

En það er sérstaklega gott ef valdbeiting manna í valdastöðum, hverjar sem þær kunna að vera, er stoppuð.

Það gefur manni smá von um framtíðina.

Vandræði þessara tveggja manna eru náttúrlega ekkert gleðiefni.

Burtséð frá persónunum – ef eingöngu er litið til þess starfs sem þeir hafa báðir verið að vinna vona ég sannarlega að þeir reynist blásaklausir.

Julian Assange hefur verið að vinna stórmerkilegt og afar þarft verk með uppbyggingu Wikileaks.

Verk sem á eftir að breyta heiminum.

Því það er ekkert smáræði fyrir fólk sem á undir högg að sækja að vera komið með vettvang þar sem það getur örugglega komið gögnum sínum og sjónarmiðum á framfæri, án þess að þurfa að leita í gegnum hefðbundnar valdastofnanir.

Og Dominique Strauss-Kahn hefur að ýmsu leyti breytt Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

Undir hans stjórn hefur sjóðurinn sveigt svolítið af braut hinnar háskalegustu frjálshyggju og þess dogmatíska dólgakapítalisma sem hann hefur alltaf verið frægur fyrir.

Ekki mjög mikið, en stefnubreytingin hefur þó verið vel merkjanleg.

Því þykir mér ekkert gleðiefni að sjá hann hrökklast frá – ekki þegar eingöngu er litið til starfs AGS.

En ef hann er sekur um nauðgunartilraun, þá er sannarlega gleðiefni ef hann hrekst úr embætti.

Því það eru þá gríðarsterk skilaboð um að valdakarlar geti kannski ekki endalaust farið sínu fram.

Að lénsherrarnir geti ekki endalaust litið á það sem rétt sinn að fá gögn og gæði allra kvenna sem á einhvern hátt eru undir þá settir.

Eða sem þeir treysta sér til að ráða við.

Það er auðvitað löngu tímabært að slíkir menn fái það kjaftshögg að fyrr eða síðar verði þeir stoppaðir.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!