Þriðjudagur 21.06.2011 - 13:55 - FB ummæli ()

Barnið sem horfði út í horn

Ég hef verið að reyna að stilla mig um að skrifa um þau hræðilegu mál sem Fréttatíminn birti fyrstur blaða á föstudaginn og aðrir fjölmiðlar hafa svo tekið upp, einn af öðrum, en flestir svolítið hikandi í byrjun.

Enda ekki beint geðslegt mál á ferðinni.

Hryllingshjúin í Landakotsskóla, og kannski fleiri dauðar rottur undir vel ryksuguðu teppi kaþólska söfnuðarins í Reykjavík.

Nú get ég auðvitað ekki fullyrt 100 prósent að allt það sem fram hefur komið í fjölmiðlum um framferði þeirra séra Georgs og Margrétar Möller sé fullkomlega rétt, upp á hvern púnkt og prik.

Ég get ekki fullyrt það – en því miður er ég hins vegar viss um að það er allt meira og minna rétt.

Myndin á púsluspilinu sem er að raðast saman er einfaldlega of sannfærandi til að hægt sé að efast um hana, eða slá hana út af borðinu með einhverju hálfkáki.

Í Landakotsskóla hefur bersýnilega verið helvíti á jörð fyrir sum börnin meðan þessi illfygli léku þar lausum hala.

Og það er það sem mér finnst svo erfitt.

Svo erfitt að sætta mig við.

Auðvitað fyrst og fremst fyrir hönd þeirra barna sem lentu sjálf í þessum hryllingi.

Það er eiginlega varla hægt að hugsa til þess.

En ég er líka reiður fyrir mína eigin hönd.

Haustið 1994 setti ég barn í Landakotsskóla. Í fimm ára bekk.

Það var þá ekki fimm ára bekkur í Austurbæjarskólanum, sem er eiginlega hverfisskólinn okkar, og auk þess höfðum við foreldrarnir alltaf heyrt vel af Landakotsskóla látið.

Þetta væri lítill huggulegur skóli, þar sem börnum væri haldið fast að námi, en líka vel hugsað um þau.

Einhvern veginn svona orð hafði Landakotsskóli þá á sér.

Svo við fórum með litlu stelpuna okkar á hæðina, þar sem skólinn kúrði við hlið kirkjunnar – þetta var skemmtilega gamaldags bygging og meira að segja með svolítinn turn rétt eins og kirkjan.

Og við fréttum að þar byggi ein kennslukonan, Margrét Möller.

Það var óvenjulegt að kennari byggi í skólanum, en jók það ekki bara sjarmann við skólann?

Margrét Möller, við fréttum að hún þætti svolítið ströng, en var það ekki bara í nösunum á henni, hún með þennan fyndna þýska framburð og svona?

Og við fréttum líka að hún ætti til að bjóða krökkunum upp til sín þar sem væru allskonar uppákomur, það þætti frekar fínt að komast þangað.

Svo líklega var hún þá ekkert voðalega ströng eftir allt saman!

Úff – það fer hrollur um mig.

Sem betur fer kenndi þessi hryllingskona ekki henni dóttur minni þann eina vetur sem hún var í Landakotsskóla.

Og stúlkan okkar þurfti ekki mikið að hafa af séra Georg að segja heldur.

Ég hélt framan af – og lem mig nú sundur og saman fyrir glámskyggnina – að séra Georg væri vinalegur karl sem vildi öllum vel. Kannski svolítið skrýtinn í fasi, en brosmildur og frekar góðlegur bara.

Úff – aftur fer um mig hrollur.

Eftir því sem leið á veturinn fór mér að þykja minna til um hann.

Hann var aðeins of sleikjulegur.

Og hann sagði aldrei neitt merkilegt.

Mér var því löngu hætt að líka við hann þegar fór að vora, en samt hvarflaði ekki að mér neitt í líkingu við það sem nú hefur komið í ljós.

Við foreldrarnir verðum auðvitað horfast í augu við algjört dómgreindarleysi, að hafa látið barnið okkar koma nálægt þessum glefsandi skrímslum sem þau reyndust vera.

Um barnið gilti önnur saga.

Hún sá strax í gegnum séra Georg.

Fimm ára gömul sneri hún sér alltaf undan þegar séra Georg bar fyrir augu hennar.

Þegar hann kom inn í bekkinn, einhverra erinda sem skólastjóri, þá sneri hún sér við á stólnum og starði sem fastast út í vegg þangað til hann var farinn aftur.

Það varð engu tauti við hana komið.

Yfirleitt var hún frekar feimin og vildi lítið láta á sér bera, en í þessu tilfelli kostaði hún því til að kennarinn og allir hinir krakkarnir góndu á hana.

Hún ætlaði EKKI að viðurkenna tilveru séra Georgs.

Ekki einu sinni með því að líta á hann.

Ég sá það á honum að honum þótti þetta óþægilegt. Mér fannst það svo sem ekkert skrýtið.

En núna hugsa ég að hann hafi vitað að þarna var komið barn sem sá hvað leyndist undir flírubrosinu og bak við prestskragann.

Og hann skyldi gæta sín.

Þegar til kom varð skólavistin í Landakoti aldrei nema þessi eini vetur.

Því barnið þvertók fyrir að fara þangað aftur.

Hún vildi komast þaðan burt, strax, fara í Austurbæjarskólann og engar refjar.

Og kannski vorum við foreldrarnir loksins farnir að skynja eitthvað óþægilegt á göngum skólans, því við mölduðum ekkert í móinn.

Hún fór bara í Austurbæjarskólann, var þar alla sína tíð og líkaði vel.

En reiðin sem býr í mér – hún snýst fyrst um það af hverju var þessum illfyglum leyft að starfa með börnum svo lengi?

Burtséð frá kynferðisofbeldi, sem virðist hafa tíðkast þarna, en væntanlega í felum, þá virðist hafa verið algjörlega augljóst að þetta fólk átti ekki að koma nálægt börnum.

Af hverju var mér ekki sagt það þegar ég sendi barnið mitt í þennan skóla?

Af hverju vissi ég þetta ekki?

Af hverju höfðu börnin sem höfðu mátt þola hryllingin ekki sagt foreldrum sínum frá því?

Höfðu þau gert það, en foreldrarnir ekki trúað þeim?

Eða höfðu foreldrarnir kosið að hlusta ekki?

Úff!

Hvað með hina kennarana við skólann?

Hver er ábyrgð þeirra?

Þeir hljóta að hafa orðið varir við hvað var á seyði hjá Margréti Möller og séra Georg.

Eineltið, niðurlæginguna, svívirðingarnar, andlegt ofbeldið.

Af hverju sögðu þeir ekki múkk?

Af hverju fékk þetta að viðfangast svona lengi?

Og það sem mikilvægast er, er eitthvað í þessa áttina að viðgangast enn í dag?

Við trúum því auðvitað ekki.

En ég hefði heldur ekki trúað því um Landakotsskóla árið 1994.

Svo nú er tími til að rjúfa þögnina.

Og opna augun.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!