Laugardagur 25.06.2011 - 10:50 - FB ummæli ()

Á forseti að skipa í embætti?

Í stjórnlagaráði kemur brátt að því að gengið verður frá drögum að tillögum um stjórnskipan.

Þar er forsetaembættið svolítið að vefjast fyrir mönnum.

Ekki er um það mikill ágreiningur að þingræði skuli ríkja á Íslandi.

Þingræði þýðir, eins og menn vita, einfaldlega að framkvæmdavaldið – ríkisstjórnin – þarf að bera ábyrgð gagnvart löggjafarvaldinu, þinginu.

Ríkisstjórn sem Alþingi hefur ekki traust á, getur ekki setið.

Ólíkt því sem gerist í löndum eins og Bandaríkjunum og Frakklandi, þar sem ríkisstjórnin ber ábyrgð gagnvart þjóðkjörnum forseta, og forsetinn er í reynd æðsti maður framkvæmdavaldsins.

Stór meirihluti stjórnlagaráðs vill halda þingræðinu, en ekki leggja út á mjög óvissar lendur forsetaræðis.

Spurningin sem menn standa frammi fyrir er aftur á móti sú, á forsetaembættið samt að hafa eitthvert sérstakt hlutverk í stjórnskipaninni – eða „láta sér nægja“ hlutverk þjóðhöfðingja, eins og gerist víðast í löndunum í kringum okkar – þar sem forsetar (eða kóngar á Norðurlöndum og víðar) hafa mjög takmörkuðu hlutverki að gegna, nema koma fram fyrir hönd þjóðarinnar.

Sumir vilja að forsetinn komi áfram eitthvað við sögu stjórnarmyndana. Það er ekki nauðsynlegt þó það hafi verið hefð hér á landi – mörgum finnst hreinlegra að alþingismenn sjái einfaldlega um stjórnarmyndun sjálfir, undir verkstjórn forseta Alþingis.

En aðallega eru sumir skotnir í hugmyndum um að forseti Íslands sjái um ráðningu á forstöðumönnum ýmissa lykilstofnana ríkisins.

Hæstaréttardómara, forstöðumanns fjáramálaeftirlits, hagstofu, jafnvel Seðlabanka og svo framvegis. Sumir hafa jafnvel nefnt Ríkisútvarpið og Hafrannsóknarstofnun.

Þessar ráðningar ættu að fara fram eftir að að sérstök nefnd – helst með aðkomu útlenskra sérfræðinga – leggi fyrir forsetann hverjir séu hæfastir.

Tilgangurinn með þessum tillögum er að færa vald yfir þessum stofnunum frá ráðherrum.

Reyndar skal tekið fram að þeir sem vilja að ráðherra hafi skipunarvald yfir þessum, þeir telja líka að ráðherra eigi í reynd að fara eftir tillögum sérfræðinganefndar. Því geðþóttavaldi, sem hér hefur einkennt stöðuveitingar, verði kastað á haugana í báðum tilfellum.

Þeir sem eru á móti því að forsetinn sé með þetta skipunarvald telja að með því sé í raun verið að rugla of mikið saman þingræði og forsetaræði.

Og með þessu verði forsetaembættið óhjákvæmilega pólitískt, og dragist inn í allskonar deilur.

Og þar sem málshöfðanir verða stöðuveitinga eru hreint ekki óalgengar, þá geti meira en verið að forseti verði oftar en einu sinni kærður fyrir stöðuveitingar sínar, og þurfi þá að verja hendur sínar fyrir dóm. Og mun það ekki draga úr möguleikum hans á að verða forseti allrar þjóðarinnar?

Þarna eru ýmsar grundvallarspurningar á ferð.

Það væri gaman að kalla hér fram málefnalegar skoðanir á þessu – og ég hvet áhugasama líka til að skoða umræður um þetta á vef stjórnlagaráðs, stjornlagarad.is.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!