Þriðjudagur 04.10.2011 - 08:17 - FB ummæli ()

Vansæmd framsóknarmanna andspænis mannkynssögunni

Ræðurnar á Alþingi í gærkvöldi voru afar misgóðar, eins og gengur. Ég sá þær ekki allar svo það væri ekki sanngjarnt að fella hér palladóma um kvöldið í heild.

Af þeim ræðum sem ég sá og heyrði fannst mér Þráinn Bertelsson tala vel og skörulega. Hann varpaði fram spurningu sem hver og einn verður að svara fyrir sig:

Ef peningar eru mælikvarði hamingjunnar, eins og ætla mætti af umræðunni í samfélaginu, af hverju erum við þá ekki beinlínis blússandi kát og glöð?

Vegna þess að fyrir utan fáein misseri um og fyrir 2007 höfum við aldrei í samanlagðri sögu Íslendinga haft það eins gott.

Guðmundur Steingrímsson var líka fínn, og Magnús Orri Schram kom á óvart!

En hvað er málið með Framsóknarflokkinn og mannkynssöguna?

Ég legg til að þingmenn Framsóknarflokksins taki upp þann sið að lesa Tímans rás hér Eyjunni á hverjum morgni. Þeir gætu lært eitthvað af því, svona smátt og smátt.

Vigdís Hauksdóttir flutti afar eftirminnilega ræðu fyrir ýmissa hluta sakir, en ég sem áhugamaður um sögu sperrti þó helst eyrun þegar Vigdís fullyrti að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur stjórnaði í anda anarkisma – stjórnleysisstefnunnar.

Þetta er svo vitlaust að það er eiginlega alveg glórulaust.

Hvernig getur manneskja sem væntanlega hefur farið gegnum skólakerfið látið sér um munn fara annað eins bull?

Í fyrsta lagi er ríkisstjórnarstefna núverandi ríkisstjórnar eins langt frá hinum klassíska anarkisma eins og nokkuð getur verið.

Í öðru lagi, þó menn séu kannski ekki neitt rosalega vel að sér um Proudhon, Bakunin og þá félaga alla, og síðan nútíma stjórnleysisstefnu, þá er þetta samt alveg feykilega vitlaust, því það liggur svo fullkomlega í augum uppi að hvað svo sem segja má um Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingrím J. Sigfússon, þá eru þau ekki stjórnleysingjar!!

Ég varð var við að ýmsir brugðust við þessum þvættingi Vigdísar með því að skella sér á lær en segja svo: „Æ, þetta var nú bara hún Vigdís Hauks. Hún er alltaf að segja eitthvað svona.“

Og menn sögðu sem svo að ræður hennar væru yfirleitt besta skemmtiefnið á Alþingi, meðal annars og ekki síst út af svona bulli sem hún léti út úr sér.

Ég hef ekki fylgst með ræðum Vigdísar Hauksdóttur hingað til. Og ég ætla ekki að taka upp þann sið, þrátt fyrir hugsanlegt skemmtigildi hennar á Alþingi.

Því mér finnst ekki að þingmenn eigi að fara með þvíumlíkt fleipur.

Það er ekki fyndið að horfa upp á það, það er sorglegt.

En ef menn hneigjast til að taka Vigdísi Hauksdóttur ekki mjög hátíðlega, eins og mér heyrðist í gærkvöldi, þá ætlast þó annar framsóknarmaður vissulega til þess að vera tekinn grafalvarlega.

Sjálfur formaðurinn Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.

Hann sagði í ræðu sinni eitthvað á þá leið að ríkisstjórn Jóhönnu fylgdi þjóðnýtingarstefnu sem Lenín hefði verið fullsæmdur af.

Ég held að ég muni þetta nokkurn veginn orðrétt.

Þetta er alveg jafn vitlaust og bullið um anarkismann – en kannski ættu framsóknarmenn að reyna að koma sér niður á einhverja sameiginlega söguskoðun áður en þeir þykjast næst þess umkomnir að taka líkingar úr mannkynssögunni.

Anarkismi og kommúnismi Leníns eiga nefnilega ekki beinlínis margt sameiginlegt!

En virðulegi þingmaður!

Nei, stefna ríkisstjórnar Jóhönnu á EKKERT skylt við þjóðnýtingarstefnu Leníns.

Ekkert.

Og það er þér til vansæmdar að halda fram öðrum eins þvættingi.

Ég hreinlega nenni ekki að setja hér á pistil um þjóðnýtingarstefnu Leníns vis-à-vis ríkisstjórnarstefnu Jóhönnu Sigurðardóttur. Þið megið treysta mér: Þessi fullyrðing var algjörlega út í hött.

Og í öðru lagi – bara það að líkja íslenskum stjórnmálamönnum við Lenín, sem kom á fót grimmilegri kúgunarstjórn sem bar ábyrgð á dauða milljóna og aftur milljóna Rússa (meðal annars með þjóðnýtingu bújarða sem leiddi af sér hungursneyð) – það er líka þér til vansæmdar, virðulegi þingmaður.

Það er gott og göfugt að hafa þekkingu á mannkynssögu, það getur hjálpað manni að skilja samtímann.

En í þessu tilfelli gerir bull þingmannanna tveggja ekki annað en fylla mann blygðun yfir fáfræðinni og belgingnum sem fylgdi þessum „lærdómum“ úr sögunni sem þingmennirnir töldu sig hafa dregið.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!