Fimmtudagur 06.10.2011 - 11:19 - FB ummæli ()

Skáldið Adonis sem fékk EKKI Nóbelsverðlaunin

Tomas Tranströmer fær Nóbelsverðlaunin í bókmenntum í ár. Það var tilkynnt í Stokkhólmi rétt áðan.

Vafalítið er Tranströmer vel að þessum prís kominn. Persónulega hefði mér þó þótt skemmtilegra ef sænska Nóbelsnefndin hefði veitt skáldinu Adonis þessi verðlaun að þessu sinni.

Eins og kemur fram hér – á vefsíðu Tranströmers sjálfs – þá töldu margir víst að annar hvor þeirra tveggja fengi verðlaunin í ár.

Vegna mótmælanna sem staðið hafa yfir í Sýrlandi undanfarið og hinna grimmilega viðbragða harðstjórans Bashir Assad sem sendir skriðdreka gegn þjóð sinni, þá hefði auðvitað verið litið á það í mjög pólitísku ljósi.

Sem stuðningsyfirlýsingu við hina sýrlensku þjóð í raunum hennar.

Það hefði vissulega verið skemmtilegt.

En hinu er þó rétt að halda til haga að Adonis hefur lengi verið nefndur sem hugsanlegur verðlaunahafi (eins og Tranströmer!) og raunar hefði ekki komið á óvart þó honum hefði hlotnast hnossið fyrir mörgum árum.

Bókmenntalegt gildi hans hefði því ekki verið dregið í efa.

Adonis fæddist þann 1. janúar 1930 í litlu þorpi í Norður-Sýrlandi, skammt frá landamærunum að Tyrklandi við Miðjarðarhafsströndina. Hann er því tæplega 82ja ára gamall. Rétt nafn hans er Ali Ahmad Said Asbar og hann tilheyrði söfnuði Alavíta sem er allfjölmennur í Sýrlandi. Alavítar eru yfirleitt sagðir tilheyra sjíum, en leggja sérlega mikla áherslu á hið dulspekilega í lífsspeki sinni.

Fjölskylda Adonis tilheyrði bændastétt og hann vann ungur á ökrunum, en fékk snemma áhuga á kvæðum. Faðir hans fór gjarnan með gamla ljóðabálka fyrir soninn og hinn ungi Ali Ahmad fór brátt að yrkja sjálfur. Hann vakti athygli og fékk styrk til háskólanáms í Damaskus. Eftir að hafa sent ljóð til birtingar í tímaritum en ávallt verið hafnað tók hann upp skáldanafnið Adonis í von um að breiða yfir hver hann væri.

Upp úr tvítugu tók Adonis jafnframt þátt í stjórnmálum en hann var félagi í þjóðernissinnuðum flokki sem vildi efla sjálfstæði og fullveldi Sýrlands. Sýrlensk stjórnmál á sjötta áratugnum voru flókin og hver höndin upp á móti annarri. Flokkur Adonis var bannaður af stjórnvöldum og hann sat í fangelsi í hálft ár.

Eftir að hafa verið sleppt úr fangelsi fluttist Adonis til Beirut í nágrannaríkinu Líbanon árið 1957. Þar var þá friðsamlegra um að litast en í Sýrlandi. Í Líbanon stofnaði Adonis ásamt félaga sínum tímarit sem helgað var ljóðlist, og voru þeir upphaflega nokkuð gagnrýndir þar sem þeir þóttu helstil nútímalegir í ljóðagerð sinni. Smátt og smátt fór þó orðspor Adonis vaxandi.

Hann þótti sameina á kröftugan hátt hugðarefni Sýrlendingsins eða Arabans sem vilja hefja þjóð sína og menningu til vegs og virðingar, og svo dulspekings sem grúfir sig yfir vandamál lífs og dauða, og túlkar þau ekki alltaf á hinn einfaldasta hátt. Arfleifð dulspekinganna sem kallaðir voru súfistar eignaðist bólstað í brjósti og ljóðum Adonis.

Adonis varð prófessor í arabískum bókmenntum við háskólann í Beirut en fór reglulega til Frakklands til að kenna og halda fyrirlestra. Eftir að borgarastyrjöldin í Líbanon braust út 1975 fór hann úr landi og hefur búið að mestu í París síðan.

Undanfarin ár hafa hlaðist á hann verðlaun og viðurkenningar.

Árið 2007 fékk hann til dæmis hin virtu Björnson verðlaun í Noregi, en þau verðlaun fékk Einar Már Guðmundsson í  fyrra ásamt Slóvakanum Milan Richter. Fyrr á þessu ári fékk hann svo hin mjög svo eftirsóttu Goethe-verðlaun í Þýskalandi, en þau eru veitt á um það bil þriggja ára fresti þeim sem skara fram úr í menningarlífi heimsins – ekki aðeins í bókmenntum.

Verðlaunin hafa fengið leikhúsmenn (Peter Stein, Pina Bausch), kvikmyndagerðarmenn (Ingmar Bergman), heimspekingar, gagnrýnendur, sagnfræðingar o.s.frv. Síðasti rithöfundurinn sem fékk þau á undan Adonis var Ísraelinn Amos Oz sem hefur líka margoft verið tilnefndur til Nóbelsverðlauna.

Kannski Nóbelsnefndinni hafi því þótt sem Adonis skorti ekki beinlínis verðlaun í ár!

Ég ætla ekki að þykjast þekkja meira til ljóða Adonis en ég geri í raun og veru – það er að segja afskaplega lítið.

Ég les auðvitað ekki arabísku og veit því ekkert hvernig hann hljómar á frummálinu, eða hvernig hefur tekist til með þær þýðingar á ensku sem ég hef gluggað í.

Ég ætla hins vegar að reyna að snara í fljótheitum úr ensku kvæði sem mér finnst dálítið eftirminnilegt. Þetta er auðvitað gert á handahlaupumm, af algjörum vanefnum og ekki úr frummáli, svo sjálfsagt er lítið að marka þetta. En við skynjum þó kannski hvað hann er að hugsa!

Þetta er alla vega ljóð sem hlýtur að hafa nú öðlast nýja merkingu í augum brottflutts Sýrlendings sem hugsar nú heim til hörmunganna í Damaskus og annars staðar í Sýrlandi.

HEIMALAND

Fyrir andlitum sem visna undir grímu angurværðar,

lýt ég höfði.

Fyrir vegum þar sem ég gleymdi tárum mínum,

fyrir föður sem dó grænn sem ský

með segl fyrir andlitinu,

lýt ég höfði

og fyrir barni

sem er selt

til að biðja og bursta skó

(heima hjá mér erum við alltaf að biðja og bursta skó),

og fyrir klettunum sem ég hjó út í hungur mitt

sem væru þeir eldingar og regn

er byltist undir augnlokunum,

og fyrir húsi hvers leir ég bar á ferðum mínum,

lýt ég höfði.

Allt þetta er mitt heimaland –

ekki Damaskus.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!