Fimmtudagur 03.11.2011 - 16:35 - FB ummæli ()

Regnskógabeltið

Ég kann ekki frönsku og franskur menningarheimur hefur sjaldnast vakið mikinn áhuga hjá mér, þó skömm sé frá að segja.

Heimspekin þeirra og bókmenntafræðin – Derrida, Foucoult og hvað þeir heita … allt þetta er mér lokuð bók og ég hef hreint ekki sóst eftir því að opna hana.

En nú sé ég að fordómarnir gegn hinum franska mennningarheimi hafa líklega verið alltof miklir.

Ég hef til dæmis aldrei haft minnsta áhuga á að lesa Tristes Tropique eftir mannfræðinginn og heimspekinginn Claude Lévi-Strauss.

Jú, vissulega hef ég haft nasasjón af þeim tíðindum sem bókin þótti vera þegar hún kom fyrst út árið 1955. Ætli megi ekki með hæfilegri einföldun segja að þau felist helst í þeirri niðurstöðu höfundarins að svokölluð „frumstæð“ þjóðfélög væru í raun alls ekki svo frábrugðin okkar „háþróaða“ samfélagi.

Uppbygging þeirra væri ósköp svipuð, þegar litið væri undir yfirborðið.

Þetta þótti stórmerkilegt á sínum tíma, enda hafði mannfræði fram að því ekki síst gengið út á að sýna og sanna hve „framandleg“, „öðruvísi“ og „skrýtin“ þessi „frumstæðu“ þjóðfélög væru.

Lévi-Strauss var flokkaður undir „strúktúralisma“ sem í mínum eyrum hljómuðu eins og eitt franska heimspekiþruglið enn, og satt að segja hefur mér aldrei dottið annað í hug en að bók hans hlyti að vera leiðinlegt og torf.

Nú skammast ég mín ákaflega.

Ég er nefnilega að lesa þýðingu Péturs Gunnarssonar á bókinni, sem hann kallar Regnskógabeltið raunamædda, og viti menn!

Þetta er ekki bara læsilegt, heldur bráðskemmtilegt. Ferðasaga, hugleiðingar, athuganir, allt í senn, og þrátt fyrir nafnið er síður en svo nokkur raun að lesa þetta. Ég hef að vísu sterkan grun um að þýðing Péturs sé kannski betri texti en frumtextinn, en frásögn Lévi-Strauss kemur afar skemmtilega á óvart.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!