Í gær lýsti ég skilningi á þeirri ákvörðun Ögmundar Jónassonar að veita kínverskum aðilum ekki undanþágu til kaupa á Grímsstöðum á Fjöllum, af þeirri ástæðu að hvort sem mönnum líkar betur eða verr gangi það einfaldlega í berhögg við núgildandi lög.
Þegar ég skrifaði þetta hafði ég hins vegar ekki tekið nógu vel eftir þeirri setningu í rökstuðningi Ögmundar þar sem sagði að með kaupum Kínverjanna á jörðinni myndi hún „færast undir erlend yfirráð“.
Hvað sem líður skilningi á ákvörðun Ögmundar, þá verður að gagnrýna mjög eindregið þann skilning og það viðhorf sem birtist í þessu orðalagi.
Gilda ekki íslensk lög alls staðar á þessu lagi, óháð því hver á tiltekna landspildu?
Er tiltekinn torfbær á Grímsstöðum á Fjöllum til dæmis undir „yfirráðum“ Ævars Kjartanssonar? Gilda ekki venjuleg lög þar í húsi?
Nei, þetta orðalag í rökstuðningi frá heilu ráðuneyti gengur vitaskuld ekki. Það er sérstaklega eftirtektarvert að innanríkisráðherra, æðsti yfirmaður lögreglu- og dómsmála í landinu, virðist ekki hafa meiri trú á íslenskum lögum en svo að þau falli með einhverjum hætti úr gildi andspænis útlendingum.
Getur það verið skilningur ráðherrans?
Í Kastljósi í gær veitti ég því reyndar athygli að Ögmundur beitti ansi rækilega fyrir sig lögfræðingum innanríkisráðuneytisins. Það væri forvitnilegt að fá að vita hvort þetta orðalag sé komið frá þeim!

Illugi Jökulsson
