Laugardagur 26.11.2011 - 08:57 - FB ummæli ()

Hin erlendu yfirráð

Í gær lýsti ég skilningi á þeirri ákvörðun Ögmundar Jónassonar að veita kínverskum aðilum ekki undanþágu til kaupa á Grímsstöðum á Fjöllum, af þeirri ástæðu að hvort sem mönnum líkar betur eða verr gangi það einfaldlega í berhögg við núgildandi lög.

Þegar ég skrifaði þetta hafði ég hins vegar ekki tekið nógu vel eftir þeirri setningu í rökstuðningi Ögmundar þar sem sagði að með kaupum Kínverjanna á jörðinni myndi hún „færast undir erlend yfirráð“.

Hvað sem líður skilningi á ákvörðun Ögmundar, þá verður að gagnrýna mjög eindregið þann skilning og það viðhorf sem birtist í þessu orðalagi.

Gilda ekki íslensk lög alls staðar á þessu lagi, óháð því hver á tiltekna landspildu?

Er tiltekinn torfbær á Grímsstöðum á Fjöllum til dæmis undir „yfirráðum“ Ævars Kjartanssonar? Gilda ekki venjuleg lög þar í húsi?

Nei, þetta orðalag í rökstuðningi frá heilu ráðuneyti gengur vitaskuld ekki. Það er sérstaklega eftirtektarvert að innanríkisráðherra, æðsti yfirmaður lögreglu- og dómsmála í landinu, virðist ekki hafa meiri trú á íslenskum lögum en svo að þau falli með einhverjum hætti úr gildi andspænis útlendingum.

Getur það verið skilningur ráðherrans?

Í Kastljósi í gær veitti ég því reyndar athygli að Ögmundur beitti ansi rækilega fyrir sig lögfræðingum innanríkisráðuneytisins. Það væri forvitnilegt að fá að vita hvort þetta orðalag sé komið frá þeim!

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!