Sunnudagur 04.12.2011 - 13:54 - FB ummæli ()

Svei!

Allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis hefur gert þá tillögu að Sigurður A. Magnússon rithöfundur skuli bætast í heiðurslaunaflokk þingsins.

Fólk sem viðurkennir hlut og mikilvægi Sigurðar í íslenskum bókmenntum hefur lengi reynt að fá honum þarna sæti, en það hefur aldrei tekist vegna ákafrar andstöðu sjálfstæðismanna og líka framsóknarmanna.

Ástæðurnar fyrir því eru pólitísk afskipti Sigurðar fyrir 40 árum eða svo. Og framganga hans í einhverjum pólitískum deilumálum sem allir eru nú búnir að gleyma.

Nú er loksins lagt til að hann fái þessi (mjög svo hóflegu) heiðurslaun, en þá bregður svo við að nefndin er ekki sammála. Hingað til hefur það verið ófrávíkjanleg venja að tilnefna eingöngu þá listamenn í heiðursflokk sem algjör samstaða hefur verið um.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins sitja hjá. Þeir geta ekki druslast til að greiða Sigurði atkvæði sitt.

Það er ótrúlega lágkúrulegt og reyndar alveg hrollvekjandi að einhverjar pólitískar (og persónulegar) deilur fyrir 40 árum séu enn að hafa áhrif á fólk sem var varla fætt þá.

En í nafni flokkapólitíkur er ekki hægt að unna gömlum rithöfundi þess að allir í nefndinni séu sammála um þann heiður sem honum vissulega ber.

Svei!

Ég tek undir og geri að mínum orð Kristjáns B. Jónassonar á Facebook-síðunni minni, þar sem ég hafði vakið máls á þessu:

„Að Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Siv Friðleifsdóttir og Ragnheiður Ríkharðsdóttir, aðalmenn (eða konur) S og F í allsherjarnefnd skuli hafa nennt að leggjast svo lágt í þágu sinna flokka að sitja hjá við afgreiðslu málsins og varpa þannig skugga á þann sjálfsagða heiður sem það er að veita einum merkasta höfundi okkar af sinni kynslóð heiðurslaun, hryggir mig ósegjanlega.“

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!