Fimmtudagur 22.12.2011 - 13:19 - FB ummæli ()

Opinbera rannsóknarnefnd takk

Í skínandi fínum leiðara Fréttablaðsins í dag (sjá hér) fjallar Þórður Snær Júlíusson um grein í nýútkomnu hefti af tímaritinu Sögu, þar sem Björn Jón Bragason skrifar um einkavæðingu bankanna 2002, sér í lagi „sölu“ á Búnaðarbankanum til S-hópsins.

„Sala“ er hér innan gæsalappa, enda væri „gjöf“ nær lagi.

Það er greinilega full ástæða til að lesa þessa grein.

Þórður Snær vitnar m.a. til þeirra orða Páls Magnússonar helsta aðstoðarmanns framsóknarmanna í þessu subbulega ferli, þar sem hann segir að Þorsteinn Már Baldvinsson mætti ekki kaupa Búnaðarbankann því hann væri „orðinn nógu ríkur“.

En nokkrir góðir og gegnir framsóknarmenn – Ólafur Ólafsson, Finnur Ingólfsson og fleiri – voru hins vegar ekki orðnir nógu ríkir, að dómi framsóknarráðherra, og úr því var nú snarlega bætt.

Og Halldór Ásgrímsson – núna sérlegur höfðingi Íslands á vettvangi Norðurlandaráðs – hann tapaði ekki beinlínis á þessu makki öllu.

Hugarfarið sem þarna er lýst er svo gegnsýrt spillingu að það er með ólíkindum. Það er augljóslega talið sjálfsagt mál að það sé í verkahring pólitíkusa og hjálparkokka þeirra að deila og drottna, útdeila gjöfum og ákveða hverjir eru „orðnir nógu ríkir“!

Sá ágæti maður Páll Magnússon var sem kunnugt er nærri orðinn forstjóri Bankasýslu ríkisins í haust.

Greinar eins og þær sem Björn Jón skrifar eru góðra gjalda verðar. Ég ítreka hins vegar það sem ég hef sagt oft áður – stjórnvöld verða að skipa rannsóknarnefnd til að rannsaka einkavæðingu bankanna.

Þessi saga verður að komast upp á yfirborðið á formlegan hátt.

Og ég tek undir hvern púnkt og prik í lokaorðum leiðarahöfundar Fréttablaðsins:

„Afleiðingin [af einkavæðingu Búnaðarbankans og sameiningu við Kaupþing] er öllum kunn: sameinaður banki orsakaði fimmta stærsta gjaldþrot heims og grunur er um umfangsmestu markaðsmisnotkun sem átt hefur sér stað.

Það er í tísku að segja fólki að hætta að horfa í baksýnisspegilinn og horfa frekar fram á veginn. Það er hins vegar erfitt þegar útsýnið út um framrúðuna sýnir sömu einstaklingana og stóðu að rót vandans áhyggjulausa á fleygiferð inn í framtíðina.“

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!