Miðvikudagur 15.02.2012 - 16:07 - FB ummæli ()

Píslarvætti 101

Eins og ég hef margoft tekið fram, þá er ég fljótur að missa þráðinn þegar farið er að tala um flókna fjármálagerninga og bókhald og tala nú ekki um vafninga – og þess vegna ætla ég ekki að leggja neinn dóm á Vafningsmál Bjarna Benediktssonar.

Hins vegar fannst mér dálítið erfitt að horfa á Kastljósviðtalið við hann.

Í þessu viðtali hafði Bjarni tækifæri til að stíga á stokk sem „grand“ stjórnmálaleiðtogi með því að útskýra málið í smáatriðum, fjalla sjálfur og óumbeðinn um siðferðisspurningar sem þar voru hvarvetna á kreiki og fallast á hve eðlilegt væri að spurningar vöknuðu um hann sem stjórnmálaleiðtoga.

Og svara síðan þeim siðferðisspurningum, lið fyrir lið.

Þetta tækifæri greip Bjarni ekki. Það getur vel verið að hann hafi útskýrt á fullnægjandi hátt hin fínni blæbrigði Vafningsmálsins hvað lögfræði og bókhald snertir, ég hreinlega veit það ekki en hlýt að reikna með því – en stöðugt tal hans um að hann sætti svívirðilegum árásum vinstrimanna og DV vöktu mikla furðu mína.

Bjarni og forverar hans í embætti formanns Sjálfstæðisflokksins, Davíð Oddsson og Geir Haarde, spiluðu allir sína rullu í aðdraganda hrunsins. Þær rullur voru vissulega misstórar, og Bjarna náttúrlega sýnu minnst, en hver hafði þó sitt hlutverk.

Eftir hrunið virðist ekki hafa hvarflað að neinum þeirra að horfast í augu við eigin ábyrgð.

Ónei, þeir bregða sér þvert á móti allir í hlutverk píslarvottsins.

(Nema Davíð líkti sér náttúrlega við Jesúa sjálfan.)

Allir eru vondir við þá, allir ráðast á þá – og þeir svona grandvarir menn!

Hér áður fyrr snerist námsefnið í stjórnmálaskóla Sjálfstæðisflokksins um að stjórna landinu. Nú mætti ætla að pensúmið væri „píslarvætti 101“.

Þetta pensúm fór Bjarni með, alveg að óþörfu, í viðtalinu í Kastljósi. Reglulega var eins og rifjaðist upp fyrir honum námsefnið: „Og muna bara að minna sífellt á að DV stendur á bak við þetta! DV, DV, hamra á DV!“

Og hann fór að tala um „frábæran árangur“ sem hann hefði náð með fyrirtækið sitt N1, en þegar hann var spurður beint hvort HANN hefði gert mistök (því þetta fór jú allt á hausinn), þá var svarið svona: „Ég tel að HLUTHAFARNIR í félaginu sem ÉG VAR Í hafi verið með of mikla skuldsetningu, já …“

„Hluthafarnir voru með of mikla skuldsetningu“ í félagi sem hann „var í“ (eins og hann hafi verið staddur þar fyrir tilviljun?).

Þegar sannleikurinn er auðvitað sá að hann var bókstaflega allra innsti koppur í búri í fyrirtækinu. Og réði þessu.

Orðalag skiptir máli, því það sýnir hvern mann maður hefur að geyma.

Það má fylgja sögunni að mér hefur þótt Bjarni standa sig að sumu leyti eins og hetja sem formaður Sjálfstæðisflokksins – það hefur ekki verið auðvelt að taka við á þeim tíma þegar hann steig fram.

En þetta var ekki mjög hetjulegt. Þetta var umfram allt – hvað sem líður hinum formréttu hliðum Vafningsmálsins – ekki mjög „grand“.

(Tala nú ekki um þegar Bjarni fór að tala um sjálfan sig í þriðju persónu, það er aldrei gott.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!