Þriðjudagur 21.02.2012 - 10:57 - FB ummæli ()

Stund sem ég hefði viljað sleppa við

Við sem sátum í stjórnlagaráði á síðasta ári afgreiddum frumvarp okkar til nýrrar stjórnarskrár með 25 atkvæðum gegn engu.

Það þýðir að sjálfsögðu ekki að verk okkar sé fullkomið, en það þýðir að við lögðum okkur fram um að ná samkomulagi sem vit væri í.

Ef frumvarpið væri tilgangslaust miðjumoð, eða eitthvað verulega umdeilanlegt væri þar á ferð – þá hefði niðurstaðan aldrei orðið einróma.

Sumir hafa gert athugasemdir við hitt og þetta í frumvarpinu okkar, og það er auðvitað bara eðlilegt og gagnlegt.

Mér persónulega hefur þótt merkilegt að athugasemdir virðast fyrst og fremst lúta að margvíslegum og mjög mismunandi smekksatriðum í frumvarpinu – en hins vegar er fátt um alvarlegar aðfinnslur um grundvallaratriði og/eða hugmyndafræði frumvarpsins.

Það segir mér að við höfum skilað vönduðu og heildstæðu verki, og ég vona að sú sé raunin.

Í bili ætla ég ekki að fara nánar í saumana á stjórnarskrárfrumvarpinu, en hins vegar blöskraði mér þegar ég sá þetta hér.

Stundum hefur mér virst sem sumir háskólamenn séu andsnúnir frumvarpinu af því að þeir sjálfir komu ekki að gerð þess.

Ég vona að þetta sé ekki rétt hjá mér, en þessi grunur kviknar þegar maður sér hve þungir í taumi sumir þeirra eru í sambandi við nýja stjórnarskrá, án þess þó að tilfæra mjög djúpskreiðar athugasemdir við frumvarpið okkar.

Ég hef alla vega ekki heyrt þær ennþá.

En að sú stund rynni upp að dósent við Háskóla Íslands skuli nú stíga fram og lýsa því yfir að það sé „of flókið“ fyrir þjóðina sjálfa – óbreyttan almúgann!! – að taka afstöðu til nýrrar stjórnarskrár í þjóðaratkvæðagreiðslu – ja, mikið hefði ég viljað sleppa við að upplifa þá stund.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!