Föstudagur 24.02.2012 - 08:50 - FB ummæli ()

Sorgleg mistök

Guðbergur Bergsson rithöfundur hefur skrifað nokkur af betri verkum íslenskra bókmennta, um það er engum blöðum að fletta.

Og sumir af pistlum hans um samfélagsmál eru allt að því klassískir – fáir segja þjóð sinni betur til syndanna en hann, þegar vel tekst til.

En öllum getur skjöplast og í viðleitni sinni til að koma alltaf að málum úr óvæntri átt hefur Guðbergur nú skrifað einhvern sorglegasta pistil sinn og birt hér á Eyjunni.

Þar hæðist hann á sérstaklega napran og kvikindislegan hátt að níu eða tíu ára gömlum dreng sem vann sér það til óhelgi að gera bjölluat hjá einhverjum karli sem brást illa við.

Ég hef tekið eftir því að ýmsir gamlir aðdáendur Guðbergs virðast ekki átta sig á mistökunum sem hann gerir í þessum pistli.

Þeir eru líklega svo vanir því að dást að allri snilldinni sem svo oft kemur milli línanna úr penna „meistara Guðbergs“ að þeir sjá ekki að þarna er bara á ferð svívirðilega rætin árás á lítinn pilt.

En eins og Guðbergur veit manna best, þá er vinur sá sem til vamms segir!

Það gildir líka um hann sjálfan.

Og þessi pistill er allra síðasta sort.

Fullorðinn virtur rithöfundur – með mikið áhrifavald í samfélaginu – á ekki að hæðast að barni opinberlega.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!