Laugardagur 25.02.2012 - 09:25 - FB ummæli ()

Ekki á valdi hans

Heilmiklar umræður hafa spunnist kringum síðasta pistil minn þar sem ég gagnrýndi Guðberg Bergsson fyrir skrif hans um strákinn með gerði bjölluatið.

Sumum fannst greinilega að ég væri að mæla fyrir samfélagi þar sem ekki mætti bregðast fast við brögðóttum krökkum.

Sá skörulegi myndlistarmaður Jón Óskar Hafsteinsson var einna eindregnastur fulltrúi þeirra sem svo hugsuðu, en hann skrifaði á Facebook um mig og fleiri sem gagnrýnt höfðu Guðberg:

„[H]ættið þessum látum. Þetta er ágæt grein hjá Guðbergi.

Oftast er hann fyrirsjáanlegur en ekki þarna. Óþekktarorma má tuska aðeins til.

Ég var gómaður við þjófnað í skólagörðunum í Laugardal 1960 og e-ð, og meig á mig af hræðslu en hristi það af mér daginn eftir. Hélt síðan mínu striki í óknyttum fram á unglingsár.

Góðir tímar; 14-16 ára átti ég alltaf nóg af Macintosh, niðursoðnum ávöxtum, Baby Ruth og sígarettum. Jökull Jakobsson hefði alveg mátt taka tveggja fóta tæklingu á mig eftir Laugardalinn.“

Þessar æviminningar Jóns Óskars eru giska skemmtilegar, og sjónarmið hans skýrt.

En þessu svaraði ég þannig, svo þessu sé nú öllu til haga haldið:

„Þú misskilur mínar athugasemdir við Guðbergsgreininni gjörsamlega, góði Jón Óskar.

Jájá, gamlir karlar og pottormar mega alveg eigast við af nokkurri hind héðan í frá sem hingað til. Þessi karl virðist að vísu hafa verið af hrottalegasta tagi.

En það sem ég er að skammast yfir er að einn fremsti rithöfundur þjóðarinnar skrifi opinberan pistil þar sem hann dregur lítinn strák sundur og saman í háði fyrir viðbrögð hans við frelsissviptingunni.

Það er SÚ refsing sem enginn níu ára strákur á skilið, og það var ekki á valdi eða forræði Guðbergs Bergssonar að útdeila henni.“

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!