Fimmtudagur 24.05.2012 - 00:05 - FB ummæli ()

Loksins orðlaus!

Undirskriftasöfnun er hafin á netinu þar sem skorað er á Jóhönnu Sigurðardóttur að segja af sér, og fallist hún ekki á það, þá er skorað á Ólaf Ragnar Grímsson „að rjúfa þing og boða til kosninga í samræmi við 24. grein stjórnarskrár Lýðveldisins Íslands“.

Nú mega menn auðvitað vera á móti ríkisstjórninni ef þeir vilja.

En það er hrein fantasía ef menn ímynda sér að forseti Íslands hafi sjálfstætt vald til að rjúfa þing.

Þeim mun undarlegra er að að minnsta kosti einn alþingismaður, Guðlaugur Þór Þórðarson, hefur þegar skrifað undir þessa áskorun til Ólafs Ragnars um að brjóta (eða reyna að brjóta) gersamlega í bága við allar okkar þingræðis- og lýðræðishefðir.

Hann vísar meira að segja sérstaklega á þessa söfnun á Facebook-síðu sinni og hvetur þannig aðra líka til að skrifa undir.

Margt hefur gengið á síðustu misseri og ár, svo fátt ætti að koma manni á óvart lengur.

En ég viðurkenni að þegar ég sá þetta varð ég alveg orðlaus.

Ég spurði Guðlaug Þór út í þetta, og hann svaraði að hann væri bara að skora á Jóhönnu, en áskorunin til forseta Íslands er vitanlega ekki síðri hluti þessarar söfnunar.

Og í reynd er söfnuninni beint til hans fyrst og fremst.

Sem sagt:

Þingmaður (og fyrrverandi ráðherra!) á Alþingi Íslendinga hvetur forseta til að ganga í berhögg við stjórnarskrá, þingræðið og allar íslenskar lýðræðishefðir!

Jahérna hér.

Hversu lágt er hægt að leggjast í aumum flokkspólitískum tilgangi?!

 

– – – –

 

Rétt er, skylt og sjálfsagt að fram komi að Guðlaugur Þór hefur nú birt yfirlýsingu þar sem segir:

„Ég vil taka það fram að ég tel það ekki vera hlutverk Forseta Íslands að rjúfa þing.

Ég tel hins vegar rétt að ríkisstjórnin segi af sér af augljósum ástæðum.

Ég vil biðjast velvirðingar á því að ég setti nafn mitt við áskorun þar sem stendur að forsetinn eigi að rjúfa þing en ítreka að ég tel hagsmunum Íslands best

borgið með því að boðað verði til kosninga hið fyrsta.“

 

Þetta finnst mér gott hjá Guðlaugi Þór, og hann vera maður að meiri fyrir vikið.

 


Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!