Mánudagur 16.07.2012 - 09:06 - FB ummæli ()

Hverjir eru hinir „árásargjörnu menn“?

Svar til Ögmundar Jónassonar innanríkisráðherra.

– – – –

Heill og sæll Ögmundur.

Þakka þér fyrir skjót svör við fyrirspurn sem ég beindi til þín fyrir örfáum dögum.

Þú afsakar að ég skuli eyða tíma í að rifja málið upp stuttlega.

Fyrir skemmstu lét Karl Sigurbjörnsson af starfi biskups þjóðkirkjunnar á Íslandi eftir að hafa sætt mikilli gagnrýni vegna hlutdeildar sinnar að málum forvera síns, Ólafs Skúlasonar.

Og voru það þó ekki einu vandamál kirkjunnar í tíð þeirra Ólafs og Karls. Þjóðkirkjufólki hefur fækkað mikið og afstaða til samkynhneigðra þvældist nokkuð fyrir – þótt vissulega sé skylt að taka fram að margir og líklega langflestir kirkjunnar þjónar stóðu sig þar með miklum sóma.

En alla vega – Karl lét sem sagt af embætti.

Innanríkisráðuneytið (sem áður var náttúrlega að hluta til kirkjumálaráðuneytið) hélt honum þá samsæti í Þjóðmenningarhúsinu þar sem þú hélst erindi og kvaddir Karl.

Í fréttum kom fram að í erindinu hefðir þú meðal annars nefnt sem skýringu á vandræðum kirkjunnar í embættistíð Karls:

„Árásargjarnir menn  neyttu færis að vega sem grimmilegast að kirkjunni og varð um margt vel ágengt við að rjúfa samstöðu kirkju og þjóðar.“

Ég bað sem sagt um skýringar á þessu, hérna.

Og svar þitt birtist hér.

Um þetta vil ég segja eftirfarandi:

Í fyrsta lagi finnst mér þú óneitanlega svolítið hvumpinn í þessum texta. Þú talar um að ég „geri þér þann heiður“ að beina til þín spurningum og „láti svo lítið“ en þú þurfir þó ekki að „standa Illuga Jökulssyni skil“ skoðana þinna.

Þessi svolítið óvinsamlegi tónn gerði mig nokkuð hryggan í bragði, en vera má að hann stafi af því að þér hafi þótt belgingslegur tónn í minni upprunalegu fyrirspurn.

Sé svo er mér ljúft og skylt að biðja þig afsökunar. Það var svo sannarlega ekki meiningin að fara um með þjósti.

En í öðru lagi neyðist ég til að viðurkenna að mér þykir þú í raun ekki svara fyrirspurn minni.

Í svari þínu talar þú gegn óbilgirni og öfgum og ofsafenginni umræðu af allra hálfu. Og þú nefnir til sögu þrjár greinar þar sem þú fjallar um þessi mál og heldur þar mjög fram málstað umburðarlyndis og hófsemi.

Allt eru þetta miklar sómagreinar og að breyttu breytanda er ég sammála flestu sem þar stendur.

En ég var vitanlega alls ekki að gagnrýna þig fyrir þessar góðu skoðanir.

Ég var einfaldlega, og hvorki meira né minna, en að biðja þig um skýringu á þeim orðum sem tilfærð voru í fréttinni af ræðu þinni yfir Karli  Sigurbjörnssyni – að árásargjarnir menn  hefðu neytt færis að vega sem grimmilegast að kirkjunni og orðið um margt vel ágengt við að rjúfa samstöðu kirkju og þjóðar.

Í fréttinni af ræðunni virtist sem þú hefðir tilgreint þessa grimmilegu og árásargjörnu menn sem eina meginskýringu þess hvernig komið væri fyrir kirkjunni, en nú þegar ég hef lesið ræðuna í heild er vissulega rétt að þessi ástæða er bara nefnd sem ein af fleiri ástæðum.

En þessi skýring er þó langsamlega afdráttarlausust orðuð og fékk áreiðanlega af þeim sökum mest vægi í fréttinni. Meira að segja sjálft mál Ólafs Skúlasonar er aðeins nefnt sem „dapurleg mál sem við öll þekkjum“.

En ég var sem sagt hvergi í þessari fyrirspurn minni að gagnrýna þig fyrir ágætar og hófsamar skoðanir þínar á trúfrelsi eða trúarbrögðum. Það væri algjörlega fjarri mér og mér þykir leiðinlegt ef þú hefur tekið fyrirspurninni þannig.

Ég styð bæði þig og alla hinari ágætari kirkjunnar þjóna í hverskyns viðleitni til að auka hófsemd og umbyrðarlyndi í umræðu um jafnt trúmál sem önnur mál í samfélaginu.

Ég var eingöngu að biðja um skýringar á hverjir væru hinir „árásargjörnu menn“. Og sömuleiðis biðja um dæmi um „grimmilegan“ málflutning þeirra.

Svo grimmilegan að hann hefði átt þátt í að „rjúfa samstöðu kirkju og þjóðar“.

Þessi grimmilegi málflutningur hafi sem sagt ekki verið lágróma kjaftæði í skúmaskotum, heldur hafi skipt verulegu máli við að rjúfa samstöðuna um þjóðkirkjuna.

Ef þú nennir máttu alveg skjóta á mig við tækifæri fáeinum dæmum um þetta. Mér fannst nefnilega og finnst enn það hafa töluvert vægi þegar innanríkisráðherra í ríkisstjórn Íslands tekur svo sterkt til orða.

Með bestu kveðjum og vona að við verðum hér eftir sem hingað ævinlega samherjar í baráttunni fyrir hófsemd og stillingu í samfélaginu.

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!