Laugardagur 08.09.2012 - 15:25 - FB ummæli ()

Annað væri fáránlegt

Þjóðaratkvæðagreiðsla um stjórnarskrárfrumvarp stjórnlagaráðs verður 20. október. Þar verður vonandi settur einn af endapunktunum aftan við hið merkilega ferli sem við Íslendingar höfum farið í gegnum til að eignast nýja stjórnarskrá.

Ferli sem margar aðrar þjóðir öfunda okkur af, hefur maður orðið var við.

Sumir halda því fram að kjörsókn verði fremur lítil, því stór hluti þjóðarinnar hafi einfaldlega ekki neinn áhuga á þessu máli.

Því mun ég seint trúa.

Áhugi á pólitík og hvers konar samfélagsmálum hefur verið gríðarlega mikill upp á síðkastið.

Við höfum áhuga á atvinnumálum, við höfum áhuga á ráðningarmálum hins opinbera, við höfum áhuga á jarðargöngum og álverum, við höfum áhuga á jarðakaupum útlendinga, við höfum áhuga á makrílveiðum og málþófi á Alþingi, við höfum áhuga á umferð kvikmyndafólks um Ísland, við höfum áhuga á afskriftum og bankamálum, við höfum áhuga á Evrópusambandinu og kvótakerfinu …

Og er þá fátt eitt talið sem hefur kveikt mikinn áhuga og jafnvel ástríður í brjóstum landsmanna upp á síðkastið.

Þegar mér er því sagt að þeir sömu landsmenn hafi líklega takmarkaðan áhuga á sjálfri undirstöðu samfélagsskipunarinnar, sem stjórnarskráin er, þá trúi ég því hreinlega ekki.

Auðvitað mun fólk fara á kjörstað.

Annað væri fáránlegt.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!