Mánudagur 10.09.2012 - 20:06 - FB ummæli ()

Hundraðasta og ellefta meðferð á 111. greininni

Í fyrragær skrifaði ég þetta hér á bloggsíðuna mína. Þetta er hvatning til fólks að kjósa í þjóðaratkvæðagreiðslunni eftir mánuð, þar sem fólk fær tækifæri til að segja skoðun sína á stjórnarskrárfrumvarpi stjórnlagaráðs.

Nema hvað, þá komu fram að minnsta kosti tvær athugasemdir þar sem harðir ESB-andstæðingar lýstu því yfir að þeir vildu ekki sjá þetta stjórnarskrárfrumvarp. Og í báðum athugasemdum var vísað til skýringar til 111. greinar stjórnarskrárfrumvarpsins sem heimilar fullveldisframsal.

Þessari grein, fullyrtu þessir eindregnu ESB-andstæðingar, er beinlínis ætlað að auðvelda inngöngu Íslands í ESB.

Gott ef lá ekki einhvers staðar milli línanna að líklega væri stjórnarskrárfrumvarpið allt saman eitt lymskulegt plott til að gabba þjóðina inn í ESB. Gera vondri ríkisstjórn kleift að lauma okkur þar inn án þess að þjóðin fengi neitt um það að segja.

En þetta er misskilningur. Fullkominn, algjör misskilningur.

Fólki er að sjálfsögðu heimilt að vera á móti stjórnarskrárfrumvarpinu. En ekki á þessum forsendum, því þær eru einfaldlega rangar.

Úr því að þessi misskilningur virðist vera kominn á kreik, þá er best að útskýra málið.

Í núverandi stjórnarskrá er ekkert ákvæði sem skyldar ríkisstjórn til að láta fara fram þjóðaratkvæðagreiðslu um fullveldisframsal, jafnvel ekki þó verulegt megi teljast.

Og þar er í rauninni ekkert sem bannar Alþingi að ákveða hvaða fullveldisframsal sem því þóknast.

Þegar Ísland gekk í EES á sínum tíma fólst til dæmis í því verulegt fullveldisframsal, en ríkisstjórn Davíðs Oddsonar þverskallaðist við öllum óskum um að þjóðin fengi að greiða atkvæði um málið.

Alþingi var látið duga.

Nú hefur Ísland sótt um inngöngu í ESB og einhvern tíma kemur væntanlega að því að samningur verður tilbúinn. Hann mun einnig fela í sér nokkurt fullveldisframsal, en kannski minna en margir halda. Hvað sem því líður, þá er sjálfsagt og eðlilegt að þjóðin fái að ákveða hvort  hún vill samþykkja samninginn eða hafna honum.

Sumir halda greinilega að það sé hætta á að ESB-sinnuð ríkisstjórn muni fara sömu leið og stjórn Davíðs, og láta atkvæðagreiðslu á Alþingi duga. Það er reyndar engin hætta á því – allir stjórnmálamenn á Íslandi telja að ESB-aðild eigi vitanlega að leggja í þjóðaratkvæðagreiðslu.

En ef einhver hefði hug á því, þá væri það reyndar hægt með núverandi stjórnarskrá.

En hins vegar ekki ef stjórnarskrárfrumvarp stjórnlagaráðs væri komið í gildi.

Hin merka 111. grein hljóðar svo:

„Heimilt er að gera þjóðréttarsamninga sem fela í sér framsal ríkisvalds til alþjóðlegra stofnana sem Ísland á aðild að í þágu friðar og efnahagssamvinnu. Framsal ríkisvalds skal ávallt vera afturkræft.

Með lögum skal afmarka nánar í hverju framsal ríkisvalds samkvæmt þjóðréttarsamningi felst.

Samþykki Alþingi fullgildingu samnings sem felur í sér framsal ríkisvalds skal ákvörðunin borin undir þjóðaratkvæði til samþykktar eða synjunar. Niðurstaða slíkrar þjóðaratkvæðagreiðslu er bindandi.“

Hér er mjög skýrt kveðið á um að samning sem feli í sér fullveldisframsal verði að bera undir þjóðaratkvæði. Og það bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu.

Þessi grein var svo sannarlega ekki sett saman til að „lauma Íslandi inn í ESB án þess að þjóðin fengi neitt um það að segja“ eins og ég las einhvers staðar.

Heldur þvert á móti.

Samkvæmt þessari grein VERÐUR að hafa bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild að ESB, og það er meira að segja líka tekið fram að gangi Ísland í ESB verði að búa svo um hnúta að landið geti gengið úr sambandinu aftur, ef landsmönnum svo þóknast.

Ég ítreka – það er allt í fína ef fólk er á móti stjórnarskrárfrumvarpinu. (Lesið það hér.)

En ef ESB-andstæðingar eru á móti frumvarpinu út af 111. greininni, þá eru þeir á villigötum. Og 111. greinin á það ekki skilið. Hún er ekki sniðið til að auðvelda inngöngu í ESB, heldur til að tryggja að þjóðin fái á endanum að taka ákvörðunum slíkt.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!