Föstudagur 21.09.2012 - 12:14 - FB ummæli ()

Er Bjarni Benediktsson mikilhæfur og djúpskreiður stjórnmálaforingi?

Á stundum hefur mér þótt ómögulegt annað en bera dálitla virðingu fyrir Bjarna Benediktssyni formanni Sjálfstæðisflokksins.

Hann varð formaður á erfiðustu tímum í sögu flokksins og hefur mátt glíma við ýmsar þær uppákomur innan flokksins og í samfélaginu að sumir hefðu líklega bara gefist upp – eða farið á taugum.

En hann hefur seiglast í gegnum þetta allt saman, og stóð af sér firna öflugt mótframboð á síðasta landsfundi.

Upp á síðkastið hef ég hins vegar klórað mér verulega í kollinum yfir því á hvaða leið Bjarni er.

Hann var eitthvað á þvælast á landsfundi Repúblikanaflokksins í Bandaríkjunum, þar sem smurður var til forsetaframboðs auðkýfingur sem hefur það helst á stefnuskrá sinni að lækka skatta á hina ofsaríku og nema burt þann vott að almennri heilsugæslu sem Obama tókst að lokum að koma á. Á sama tíma lætur frambjóðandinn líðast að flokkur hans tefli fram stefnu í ýmsum félagsmálum, sem er svo afturhaldssöm að mann sundlar eiginlega yfir því að slíkt sé borið á borð á 21. öldinni.

Að formaður í íslenskum stjórnmálaflokki sé svo mikið sem að hnusa utan í Mitt Romney finnst mér ekki til eftirbreytni – vægast sagt.

Sem sagt: Ekki gott.

Á sama tíma lýsir Bjarni því yfir að það sé eindregin stefna flokksins, sem hann stýrir, að daga til baka umsókn um aðild að ESB. Látum vera hvort menn eru fylgjandi aðild að ESB eða ekki. En að ætla að draga umsóknina til baka á þessum tímapunkti er glópska og yfirgangur.

Því íslenskir kjósendur eiga að fá að greiða atkvæði um aðild að ESB. Aðildin á ekki að vera einkamál stjórnmálamanna.

Verst er að með þessu er Bjarni augsýnilega að reyna að falla í kramið hjá bara ákveðnum hluta Sjálfstæðisflokksins. Við vitum öll að aðrir partar flokksins hafa ekkert á móti því að aðildarumsóknin verði kláruð. Ég þori eiginlega að veðja að í hjarta sér er Bjarni á meðal þeirra. En hann hefur ákveðið að Davíðsarmurinn sé sá hluti Sjálfstæðisflokksins sem verði að þjóna. Burtséð frá hagsmunum og skoðunum annarra.

Ekki gott!

Þegar skýrsla Seðlabankans um kosti okkar í gjaldmiðilsmálum kom út um daginn, þá fólst í henni að við ættum tvo kosti.

Að halda krónunni, eða taka upp evru.

Maður skyldi ætla að þetta yrði stjórnmálaleiðtogum tilefni til að ræða málin á breiðum grundvelli.

En nei.

Bjarni lýsti því strax yfir að nú ættum við að „einblína“ á íslensku krónuna.

Þið fyrirgefið, en mér hugnast ekki stjórnmálaleiðtogar sem „einblína“. Sér í lagi ekki ef málið snýst um mikið hagsmunamál allrar þjóðarinnar, mál þar sem tveir kostir eru á borðinu sem ræða þarf í þaula.

Það þarf að skoða málin af víðsýni.

En þá er framlag Bjarna Benediktssonar að „einblína“.

Ekki gott.

Nú er síðast er komið í ljós að hann vill ekki fara í viðtal við DV sem hefur undanfarið birt röð viðtala við stjórnmálaleiðtoga, þar sem þeim er gefinn kostur á að kynna stefnu flokka sinna.

Ástæðan fyrir því að Bjarni vill ekki koma í viðtal er sú að hann óttast spurningar um Vafningsmálið.

Hann hleypur því í vörn og af þeirri persónulegu ástæðu sviptir hann flokkinn sinn tækifæri til að fá stefnuna fram í dagsljósið.

Og hann er að gera annað um leið.

Kenna DV og þar af leiðandi öðrum fjölmiðlum um leið þá lexíu að þeim sé hollast að spyrja hann ekki um Vafningsmálið.

Er það mikilhæfur og djúpskreiður stjórnmálaleiðtogi sem hagar sér svona?

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!