Föstudagur 16.11.2012 - 20:51 - FB ummæli ()

Þegar rennur upp fyrir heiminum ljós – verður það of seint?

Indíánar í Norður-Ameríku unnu ýmis grimmdarverk gegn hvítum landnemum á 19. öld, um það er engum blöðum að fletta.

Enda var óspart hamrað á því í fjölmiðlum þess tíma, til að réttlæta hernað gegn Indíánum.

Á nákvæmlega sama hátt hafa Palestínumenn vissulega gerst sekir um ýmis ódæði gegn Ísraelsmönnum, það er alveg ljóst.

En rétt eins og það rann að lokum upp fyrir okkur að einstök grimmdarverk Indíána gátu aldrei réttlætt það þjóðarmorð og þann þjófnað á landi og lífsviðurværi sem þeir máttu sæta af hendi hinna hvítu innrásarmanna – þá mun það lokum verða deginum ljósara að það illa, sem Palestínumenn hafa gert ísraelskum landnemum getur aldrei talist skýring á eða hvað þá afsökun fyrir þeirri meðferð sem þeir sæta af hendi Ísraelsmanna.

Palestínumenn hafa, rétt eins og Indíánar á 19. öld, verið rændir landi og lífsviðurværi og margir þeirra lífinu sjálfu.

Yfir þá er valtað af Ísrael, einhverju öflugasta herveldi heimsins, og bak við Ísraelsmenn standa á hverju sem gengur Bandaríkin sjálf.

Allra mesta herveldið.

Og reyndar einmitt það sem rændi landi Indíánanna á 19. öld.

Það sem fram fer í Palestínu er viðurstyggð og ekkert annað.

Það mun líka einn daginn verða öllum ljóst.

Vonandi verður það bara ekki of seint fyrir þá sem rændir eru landi og lífi.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!