Sunnudagur 30.12.2012 - 14:38 - FB ummæli ()

Lítið tjón?

Áður en lengra er haldið: Ég skil lítið í refilstigum hinna flóknari fjármála. Því er ég sosum enginn maður til að meta sekt eða sakleysi í flóknum dómsmálum út af peningum – eins og Vafningsmálinu.

Ég verð samt að segja – ansi þótti mér undarleg sú staðhæfing sem sett er fram í dómnum að verknaður hinna ákærðu, sem talinn er saknæmur, hafi ekki valdið miklu tjóni og því skuli hinir ákærðu ekki dæmdir til mjög þungrar refsingar.

Lánið fræga uppá 10 milljarða hafi jú verið endurgreitt nokkrum dögum eftir hina misráðnu fléttu.

Í fyrsta lagi – maður var dæmdur á Hraunið í fimm mánuði fyrir að stela sér til matar í 10-11. Tjón verslunarkeðjunnar mældist nokkur þúsund krónur.

Ekki nenni ég að fletta upp hver er velta 10-11. En telst nokkur þúsund kall sem sagt vera „mikið tjón“ sem því skuli dæma hart fyrir?

Í öðru lagi – hvernig er hægt að segja að þessi flétta hafi ekki valdið „miklu tjóni“? Ef þessi flétta hefði ekki farið fram, þá hefði Glitnir að öllum líkindum farið strax á hausinn í febrúar 2008.

Tjónið, ekki bara af hruni Glitnis heldur síðan alls bankakerfisins, hefði orðið miklu, miklu minna en raunin varð hálfu ári síðar.

Líka fyrir hluthafa Glitnis. (Nema náttúrlega þá lukkunnar pamfíla sem hófust nú handa um að selja hlutabréfin sín.)

Af þessum tveimur sökum, er þá ekki fullyrðing dómarans um hið litla tjón dálítið einkennileg?

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!