Sunnudagur 17.02.2013 - 14:05 - FB ummæli ()

Álagsprófið

Vissulega yrði ég fyrir djúpum vonbrigðum ef Alþingi færi nú á lokasprettinum fyrir kosningar að heykjast á því að afgreiða nýju stjórnarskrána, nema þá kannski í einhverju sundurlimuðu formi.

Einkum og sér í lagi nú þegar álit Feneyjarnefndar liggur fyrir og nýja stjórnarskráin fær að flestu leyti alveg ágæta einkunn.

Víkjum að athugasemdum Feneyjanefndarinnar á eftir, en mér finnst mestu varða að álit nefndarinnar hefur í raun slegið út af borðinu langsamlega flestar þær mótbórur sem andstæðingar nýju stjórnarskrárinnar hafa haft uppi síðustu vikur og mánuði.

Andstæðingarnir hafa nefnilega talað eins og ekki standi steinn yfir steini í stjórnarskrárfrumvarpinu, það sé beinlínis þjóðhættulegt og nánast hver einasta grein sé ónýt.

En það margumrædda „álagspróf“ sem svo margir höfðu óskað eftir að lagt yrði fyrir stjórnarskrána hefur nú farið fram – og að stærstum hluta nær hún örugglega prófi Feneyjanefndarinnar.

Því ættu allir að fagna. Þeir sem hafa talað gegn stjórnarskránni á þeim forsendum að hún sé svo illa gerð hrákasmíð og hættuleg samfélaginu ættu að gleðjast yfir því að svo er greinilega ekki.

Og þeir ættu þá bara að setjast niður með stuðningsmönnum stjórnarskrárinnar og einbeita sér að því að laga það sem laga þarf. Það ætti ekki að taka svo langan tíma.

Andstæðingarnir þurfa fyrst og fremst að fara ofan af því hugarfari að nýja stjórnarskráin sé á einhvern hátt sett þeim til höfuðs. Svo er alls ekki. Þessi stjórnarskrá, með öllum sínum umbótum, er líka fyrir þá.

Og mun bæta samfélag okkar allra – það er kjarni málsins.

En víkjum þá að athugasemdum Feneyjarnefndarinnar.

Eru þær „alvarlegar“ eins og hefur verið túlkun sumra?

Stoppa þær málið nú á síðustu metrunum?

Eru þær jafnvel „sprengjur“?

Skoðum málið.

Í fyrsta lagi – mannréttindakaflinn.

Það gleður mig að Feneyjanefndin er í stærstu dráttum ánægð með þennan kafla. Sumir andstæðingar stjórnarskrárinnar hér á landi hafa nefnilega talað eins og þessi kafli væri fullur af óþörfu og hættulegu bulli og heilaspuna.

Svo er alls ekki að mati Feneyjanefndar.

Hins vegar telur nefndin að sitthvað sé óljóst orðað. Það má vitaskuld athuga það. Gegn þessu viðhorfi má þó tefla öðru, sem margir hafa bent á, að það sé bara allt í góðu lagi með að dómstólum verði eftirlátið að túlka sitt af hverju í mannréttindaákvæðunum.

Viðhorf breytist með tíð og tíma og það sé óþarfi að njörva allt niður.

Einkum telur nefndin þó mikilvægt að gerður verði betri greinarmunur á þeim grundvallarmun sem hún segir vera á mismunandi tegundum mannréttina.

Nefndin virðist helst vera að biðja um að mannréttindakaflanum verði á einhvern hátt skipt upp, svo ljóst megi vera að þótt öll mannréttindi séu merkileg, þá skuli sum mannréttindi sett í fyrsta gæðaflokk en önnur vera aftar á merinni.

Skilgreiningin snýst einkum um kostnað, virðist manni.

Hér er vikið að miklu álitamáli mannréttindalögfræðinnar undanfarin ár og áratugi – menn hafa sem sé sífellt verið að víkka út hvað telst til raunverulegra mannréttinda.

Nýja stjórnarskráin er framsækin að því leyti að hún gerir ekki greinarmun á til dæmis tjáningarfrelsi og rétti til heilsugæslu og menntunar. Þó er hún ekki róttækari en svo að flestallt orðalag í henni er komið beina leið úr viðurkenndum alþjóðasáttmálum.

Sem Ísland hefur viðurkennt.

Og þeir hafa nú ekki talist mjög hættulegir til þessa.

Vissulega er ég ekki lögfræðingur. Sá mannréttindalögfræðingur sem ég ber mesta virðingu fyrir hér í heimi segir mér hins vegar að viðhorf Feneyjanefndarinnar að þessu leyti – að aðgreina eigi mismunandi tegundir mannréttinda – sé gamaldags og við ættum ekki að elta ólar við það.

Við ættum að halda okkar framsækna striki.

Ekki draga mannréttindi í dilka.

Um peninga megi fjalla í greinargerð og lögum.

Í því sambandi má setja fram þá almennu athugasemd að það er 99.9 prósent öruggt að á næstu áratugum muni þróun mannréttindalögfræði færast enn frekar í þá átt sem einkennir nýju stjórnarskrána okkar.

Ekki öfugt.

Í öðru lagi segir Feneyjanefndin að það stjórnkerfi sem nýja stjórnarskráin hafi í för með sér sé „fremur flókið“ og hafi í för með sér hættu á þrátefli hinna ólíku valdapóla í samfélaginu.

Ekki „mjög flókið“ eins og sagði á einum stað, heldur bara „fremur flókið“.

Um þetta má margt segja. Þótt undarlegt megi virðast sýnist Feneyjanefndin að stórum hluta vera að lýsa efasemdum um þau atriði sem nýja stjórnarskráin hefur tekið að erfðum úr þeirri gömlu.

Svo sem málskotsrétt forseta Íslands. Og að forseti Íslands sé þjóðkjörinn, en ekki kosinn af Alþingi eins og nefndin virðist telja æskilegt.

Um þetta er fullkominn óþarfi að ræða og einhver hefði átt að segja Feneyjanefndinni það. Á þessum tímapunkti er algjörlega tómt mál að tala um að þjóðin fallist á að afnema málskotsrétt forseta eða láta alþingismenn um að kjósa hann.

Það þarf ekki að eyða tíma nokkurs manns í að ræða það.

Hvað snertir hættuna á þrátefli milli ólíkra valdastofnana, þá held ég að við ættum bara að lifa við þá hættu. Það getur varla orðið verra en lamandi þrátefli pólitískrar baráttu síðustu missera og ára. Lögum endilega orðalag í frumvarpinu ef hægt er, en afgreiðum svo bara málið.

Mér finnst til dæmis afleit hugmynd að taka þennan stjórnkerfiskafla út úr frumvarpinu og geyma hann fram á næsta þing.

Það er algjör óþarfi – og verður ekki til neinna bóta, er ég smeykur um.

Og reyndar finnst mér að stjórnkerfiskaflinn sé kannski sá kafli sem alþingismenn ættu síst af öllu að vera með puttana í.

Þeir eru þar sífellt að véla um sín eigin örlög, leynt eða ljóst, og það er aldrei gott.

Í þriðja lagi gerir Feneyjanefndin vissulega alvarlega athugasemd við ákvæði stjórnarskrárinnar um skipan dómara.

Sem sé að þingmönnum sé ætlað hlutverk við að ráða dómara.

Nefndin segir að Alþingi sé ekki rétti staðurinn til að ræða hæfi dómara og aðferðin sem stjórnarskráin teiknar upp feli í sér möguleika á pólitískum ráðningum.

Þetta síðasta er auðvitað fyndið með tilliti til þess að núverandi skipan mála hefur svo sannarlega haft í för með þrálátar pólitískar ráðningar í dómarastöður, en látum það liggja milli hluta.

Stjórnarskráin gerir reyndar ekki ráð fyrir að Alþingi hafi neitt með ráðningu dómara að gera nema í því tilfelli að forseti Íslands samþykki ekki tillögu ráðherra um dómaraskipan.

Þá fyrst fer málið til Alþingis og þurfa tveir þriðju hlutar þess að samþykkja tillögu ráðherrans til að hún taki gildi.

Mér finnst sjálfsagt að taka athugasemd Feneyjanefndarinnar til skoðunar.

Hugmyndafræðilega er náttúrlega ekkert ógurlega mikið athugavert við að þing ræði hæfi hinna æðstu dómara. Það er gert í Bandaríkjunum, og ég efast um að Bandaríkjamönnum líkaði það vel ef þeim væri sagt að það væri óásættanlegt og hættulegt.

En hitt er rétt að þetta er líklega ekki í samræmi við evrópskar hefðir.

Ég mundi því ekki rífa hár mitt og skegg að neinu ráði þótt þessu væri breytt.

En það ætti altént ekki að kosta mikið málþóf!

Þá eru upptaldar stærstu athugasemdir Feneyjanefndar. Og ég sé ekki annað en það ætti að vera lafhægt að taka tillit til þeirra án þess að það kosti mikinn tíma eða rifrildi, og afgreiða svo stjórnarskrána fyrir kosningar.

Mergurinn málsins er þessi:

Við erum komin með nýja stjórnarskrá sem var samin á góðum tíma og eftir góðan undirbúning. Enda fengu stjórnlagaráðsmenn að njóta þessa mikla starfs sem unnið hafði verið á undan þeim.

Tveir þriðju hlutar kjósenda í þjóðaratkvæðagreiðslu lýstu sig ánægða með stjórnarskrána og vildu að hún yrði grundvöllur að nýjum grunnlögum samfélagsins.

Eftir því ber að fara.

Nú hefur stjórnarskráin í öllum stærstu dráttunum staðist álagspróf Feneyjanefndar, og það sem þarf að laga á ekki að þurfa að taka mikinn tíma.

Allt hitt – sem Feneyjanefndin gerir ekki athugasemdir við – ætti að skoðast sem samþykkt, enda hafa margir fremstu lögspekingar og fræðimenn landsins farið þar höndum um.

Það er engin ástæða til að bíða – enda vitum við vel að ef málinu verður frestað, þá verður ekki neitt úr neinu.

Það er heldur engin ástæða til að lima stjórnarskrána í sundur.

Það á að þakka andstæðingum hennar fyrir góðar athugasemdir sem ýmsar hafi komið að gagni, en leggja síðan að þeim að afgreiða málið.

Núna.

 

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!