Mánudagur 25.03.2013 - 15:05 - FB ummæli ()

Ógleymanleg stund í innanríkisráðuneytinu

Það var ógleymanleg stund að vera áðan viðstaddur þegar starfshópur innanríkisráðuneytisins um Guðmundar- og Geirfinnsmál kynnti þá skýru niðurstöðu sína að játningar sakborninganna sex – en á þeim einum var dómsniðurstaðan í málunum byggð – væru að engu hafandi.

Gísli Guðjónsson prófessor kvað svo sterkt að orði að þótt hann hefði unnið að 1.000 málum í fjölmörgum hefði hann aldrei kynnst öðru eins.

Hvergi hefði einangrun sakborninga verið eins löng og mikil – nema helst í Guantanamo-fangelsi Bandaríkjamanna á Kúbu.

Augljóst væri að ekkert væri á þeim játningum byggjandi sem fengnar væru fram með slíkum hætti.

Starfshópur ráðuneytisins á mikið lof skilið – en hann skipuðu Arndís Soffía Sigurðardóttir formaður, Haraldur Steinþórsson og Jón Friðrik Sigurðsson. Auk Gísla starfaði Valgerður María Sigurðardóttir með hópnum.

Og Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra sýndi með skipan þessa starfshóps meiri dug og djörfung en samanlagður stabbinn af dómsmálaráðherrum og öðrum viðkomandi mektarmönnum í nærri 40 ár.

Mikil og einlæg þökk sé þessu fólki öllu.

Ógleymanlegast verður þó að hafa staðið þarna og hlýtt á þessa afgerandi niðurstöðu að viðstaddri Erlu Bolladóttur og ýmsum aðstandendum sakborninga – þá sérstaklega börnum Sævars vinar míns Ciecielskis.

Ég segi það bara hreint út að ég fékk beinlínis tár í augun af hryggð yfir því að hann skyldi ekki hafa fengið að lifa þessa stund.

Þegar ég kynntist Sævar fyrst var hann nýsloppinn úr fangelsi og sýndi mér næstum feimnislega skjalabunka sem hann var byrjaður að safna í.

„Ég ætla nefnilega að sanna sakleysi mitt,“ sagði hann.

Hann náði ekki að lifa það sjálfur, ekki frekar en Tryggvi Rúnar Leifsson, annar sakborninganna sem látinn er.

En að börnin þeirra og aðrir ástvinir fái loksins að upplifa svolítið réttlæti, það er ósegjanlega dýrmætt.

Loksins er þessari gömlu martröð létt af þjóðinni.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!