Þriðjudagur 23.04.2013 - 12:51 - FB ummæli ()

Stærsta spurningin

facbook

 

Eftir að undrskriftasöfnunin „Klárum dæmið“ fór af stað, og vísað er til hér að ofan – og er að finna hérna (skrifið endilega undir!) – þá hef ég verið spurður af hverju ég sé að vesinast í þessu.

ESB-umsóknin sé ekki beinlínis á dagskrá í kosningabaráttunni. Af hverju ég eyði ekki frekar orkunni í að mynda mér skoðun á og reka áróður fyrir einhverju sem snertir skuldavanda heimilanna.

Ojú – víst fer ESB ekki hátt í kosningabaráttunni.

En sú er reyndar einmitt ástæðan fyrir því að ég er að stússa þetta.

Ég stend einfaldlega á því fastar en fótunum að spurningin um aðild að ESB (eða ekki) sé stærsta spurningin sem íslenskt samfélag stendur frammi fyrir í náinni framtíð.

Það er hægt að færa rök fyrir því að með aðild fengjum við meiri kjarabót fyrir íslensk heimili en dæmi eru um á seinni tímum.

En það hafa líka verið færð rök fyrir því að í aðild fælist meiri fullveldisskerðing en sæmandi sé.

Öfgarnar í málflutningnum eru miklar, á báða vegu – og mér finnst simpelthen að þetta verði þjóðin að fá að útkljá sjálf – en ekki fyrr en fullfrágenginn samningur liggur fyrir.

Að þræta um ESB-aðild án fullkláraðs samnings er eins og að taka ákvörðun um að kaupa sér íbúð (eða hætta við það) án þess að hafa skoðað íbúðina.

Við eigum ekki að láta fáeina þingmenn og forkólfa hagsmunaaðila ráða þessu mikla hagsmunamáli okkar.

Og núna – þegar kannski er eitt ár eða svo þar til aðildarviðræðum lýkur með samningi sem fer í þjóðaratkvæðagreiðslu – þá er lag til að komast að því.

Og mér finnst bara svo brýnt að við fáum að taka ákvörðun um það sjálf að ég hef að mestu stillt mig um þá ánægju að hella mér á kaf í nýjustu tillögur um lausn á skuldavanda heimilanna.

Ekki vil ég gera lítið úr þeim vanda.

En ég er ansi smeykur um að flest þau kosningaloforð á því sviði sem nú blakta svo fagurlega á himni muni að endingu reynast hálfgerð tálsýn.

En þegar þau loforð verða orðin eins og murrandi hálfkvikindi eitthvert í þjóðarsálinni, þá munum við standa frammi fyrir spurningunni um aðild að ESB – eða ekki.

Og þá eigum við að fá að taka þá ákvörðun sjálf – en misvitrir stjórnmálamenn í dægurpólitík og kosningabaráttu eiga þá ekki að vera búnir að svipta okkur réttinum til hennar.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!