Miðvikudagur 07.08.2013 - 13:05 - FB ummæli ()

Jóhannes og verslunin á horninu

Jóhannes Jónsson kaupmaður í Bónus verður borinn til grafar til dag.

Hann var stundum umdeildur maður en sú djúpa vinátta sem hann kveikti augljóslega í brjósti þeirra sem þekktu hann vel sýnir að margt var í hann spunnið. Og hann þarf ugglaust ekki að kvíða dómi sögunnar.

Mig langar að hafa orð á einu, sem ég hef stundum hugsað út í.

Í minningarblaði um Jóhannes sem fylgir Fréttablaðinu í dag skrifar Jón Ásgeir fallega um föður sinn. Og þar nefnir hann meðal annars að Jóhannes hafi haft nærri óbrigðult nef til að skynja hvar staðsetja skyldi Bónusbúðir, og nefnir sérstaklega búðina við Hallveigarstíg í miðbæ Reykjavíkur.

Ekki hafi allir haft trú á henni, en hún hafi gengið vel.

Og það er hverju orði sannara.

Bónusbúðin við Hallveigarstíg er í 30 metra fjarlægð frá heimili mínu og þar hef ég því verslað mikið frá því að búðin opnaði í desember 2008 – meðan hrunið stóð sem hæst.

Þegar ég flutti í miðbæinn fyrir 25 árum voru á litlu svæði í Þingholtum og Skólavörðuholti einar fimm litlar matarbúðir. Þar versluðu sem sagt fimm „kaupmenn á horninu“. Og líklega voru á svæðinu jafn margar sjoppur.

Það er ein af þjóðsögum nútímans að „kaupmaðurinn á horninu“ sé miklu æskilegra og vinalegra verslunarform en hinir ópersónulegu stórmarkaðir.

Enda leist manni ekki á blikuna þegar fréttist að Bónus væri að opna á Hallveigarstígnum. Litlu hverfisbúðirnar voru þegar farnar að týna tölunni, og þegar Jóhannes boðaði verslunina við Hallveigarstíg tilkynnti næstsíðasti „kaupmaðurinn á horninu“ þegar í stað að hann myndi leggja upp laupana.

Og maður sá fyrir sér að framvegis yrði verslun í hverfinu ópersónuleg og vélræn, maður hirti einhverjar dósir úr hillu og færi svo heim með dósirnar.

Sæi aldrei nokkurn mann.

Raunin varð þveröfug. Bónusbúðin við Hallveigarstíg hefur – burtséð frá vöruúrvali og verði – reynst lyftistöng fyrir félagslífið í Þingholtunum. Nágranna sem maður hitti áður ekki nema löngu millibili rekst maður nú á nær daglega og kjaftatörnum hefur fjölgað stórlega.

Þannig hefur búðin sem Jóhannes barðist fyrir að opna þarna reynst hin eina sanna „verslunin á horninu“.

Og þannig reyndist óttinn við hinn ópersónulega stórmarkað algjörlega ástæðulaus. Og þessi misseri sem liðu frá því búðin var opnuð og þangað til Jóhannes missti hana í hendur bankans mátti reyndar iðulega rekast á hann sjálfan þar að sýsla og fylgjast með því hvort þjónustan væri nógu góð eða hvort eitthvað mætti bæta.

Það var viðkunnanlegt og traustvekjandi.

Ég hef aldrei rekist á hina nýju eigendur Bónus í búðinni.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!