Þriðjudagur 29.10.2013 - 15:49 - FB ummæli ()

Samtal á skrifstofu KSÍ

Undanfarin sex sjö ár höfum við sonur minn ungur mætt á svo til hvern einasta heimaleik íslenska landsliðsins í fótbolta.

Við höfum setið þarna á öllum tímum árs, horft á vondan fótbolta og upp á síðkastið bara glettilega góðan fótbolta, og allt saman í von um að einhvern tíma kæmi að því að þetta skipti máli.

Og nú var loks komið að því.

(Já, þetta skiptir máli.)

Við ætluðum að sjálfsögðu að mæta og styðja okkar lið.

Ég vissi ósköp vel að það var ekkert öruggt að við fengjum miða.

En ég hélt að við fengjum alla vega „fighting chance“ á við hvern annan. Án þess að vera í einhverri klíku eða rekast af tilviljun inní tölvu á einhverjum mjög óvæntum tímum sólarhringsins.

En nei – við fengum ekki þann möguleika.

Takk KSÍ.

Eins og margir hafa bent á – þá hlýtur það að vera einhvers konar heimsmet hjá KSÍ að hafa getað klúðrað öllum þeim vilvilja og áhuga sem Króatíuleikurinn hefur notið.

Og maður situr eftir með fúlt bragð í munninum – eins og maður hafi verið hafður að fífli.

Og ekki bætir afsökunarbeiðni Þóris Hákonarsonar úr skák.

Ef eitthvað er að marka hana, þá voru ákvarðanir um miðasölu á þennan mikilvæga leik bara teknar í einhverju rugli og fáti án þess að hugsað væri út í neitt.

Nú á maður sem sagt að trúa því að eftirfarandi samtal hafi átt sér stað á skrifstofu KSÍ:

GEIR ÞORSTEINSSON: Jæja Þórir, þurfum við ekki að fara að ákveða hvernig við högum sölunni á þennan eftirsótta leik? Þú veist að allir vilja fá miða.

ÞÓRIR HÁKONARSON: Hei, já, ég var einmitt að fá hugmynd. Hvernig væri að byrja söluna klukkan fjögur að nóttu? Heldurðu ekki að þá verði bara allir sáttir?

GEIR ÞORSTEINSSON: Þórir, þú ert snillingur! Auðvitað er þetta málið! Þetta verður frábært! Alveg hreint steinliggur!

x x x

Ég veit eiginlega ekki hvort er verra, að trúa því að þetta ótrúlega heimskulega samtal hafi í rauninni átt sér stað.

Eða að trúa því ekki.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!