Þriðjudagur 17.12.2013 - 14:30 - FB ummæli ()

Páll hættur

Við Páll Magnússon byrjuðum sama daginn í blaðamennsku á Vísi sáluga, það var 2. apríl 1979.

Æ síðan hefur mér verið hlýtt til Páls. Mér hefur reyndar aldrei dottið í hug að hugleiða hvort það hafi verið gagnkvæmt en hlýt að reikna með að svo sé!

En við fórum altént saman yfir á Tímann þegar Elías Snæland Jónsson varð ritstjóri, og það varð snemma ljóst að Páll var hörku fréttamaður.

Það var líka áreiðanlega alltaf hans helsti kostur, að hann vissi hvað fréttamennska er.

Og hann var skemmtilegur og öflugur samstarfsmaður.

Síðan hafa leiðir okkar ekki legið að ráði saman. En ég hef auðvitað fylgst með ferli hans og einkum eftir að hann var settur yfir Ríkisútvarpið.

Ég er nefnilega einn af þeim sem þykir vænt um Ríkisútvarpið.

Sem fyrirbæri, sem stofnun, sem hóp af góðu og metnaðarfullu starfsfólki í öllum deildum.

Að ýmsu leyti var Páll áreiðanlega góður útvarpsstjóri.

Það segja mér til dæmis heimildir innan úr húsinu að hann hafi staðið þétt með sínu fólki þegar á reyndi og á það var ráðist af aðilum útí bæ.

Það var ekkert endilega sjálfsagt mál í því flokkspólitíska fúafeni sem við erum einlægt að svamla í.

Óneitanlega hvílir þó skuggi yfir síðustu dögum Páls í starfi.

Auðvelt hefði verið að standa mildilegar að uppsögnum og verja stofnunina (því Ríkisútvarpið er ekki og á ekki að verða fyrirtæki þótt Páll sjálfur hafi reyndar lagt sig í líma við að tala um það sem slíkt) fyrir sparnaðarkröfum með öðrum hætti.

Að hann hverfi nú á braut við þessar aðstæður veit ég hins vegar ekki hvort sé rétta lausnin fyrir Ríkisútvarpið, það verð ég að segja.

Og það skiptir jú mestu máli.

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Illugi Jökulsson
RSS straumur: RSS straumur

Tímans rás



Hleð...

Eingöngu gamlar fréttir!